Aðeins eru þekktar 57,739 tegundir af hryggdýrum, sem er mjög lítill hluti af heildarfjölda dýrategunda. Þrátt fyrir þetta eru hryggdýr yfirleitt mun meira áberandi, en öll spendýr, til dæmis maðurinn, eru hryggdýr, einnig allar eðlur, fiskar og fuglar. Þegar við hugsum um dýr hugsum við því yfirleitt fyrst og fremst um hryggdýr þó þau séu aðeins lítill hluti af fánu jarðar. Á Íslandi telst ekki vera mjög fjölskrúðugt dýralíf og er lífmassinn hér mjög lítill. Ísland liggur á norðurhveli jarðar þar sem er yfirleitt minni fjölbreytni í lífríkinu en það verður svo sífellt fjölbreyttara eftir því sem nær dregur miðbaug. Á sumum hitabeltissvæðum lifa ótal margar tegundir dýra og plantna saman á afar litlum svæðum og lífmassi þessara svæða er því mjög hár. Lesa má nánar um fjölda dýrategunda á Íslandi í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni: Hvað eru margar dýrategundir á Íslandi?
Þrátt fyrir að sífellt séu að greinast nýjar tegundir dýra fer fjöldi þekktra dýrategunda ört minnkandi. Við erum nú að upplifa sjöttu útrýmingaröldu jarðsögunnar, en hún hófst fyrir um 100.000 árum samhliða aukinni útbreiðslu mannsins. Hraði útrýmingar fer sífellt vaxandi og er talið að árið 2028 verði um 20% af núverandi lífveru tegundum jarðar útdauðar. Nánar má lesa um þetta í svörum Jóns Más Halldórssonar við spurningunum:
- Hversu margar tegundir af dýrum eru í útrýmingarhættu í dag og af hverju?
- Hvaða dýr eru í allra mestri útrýmingarhættu?
- Er útrýming dýrategunda alltaf manninum að kenna?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.