En er hann hafði lítt sofnað kallaði hann og sagði að mara trað hann. Menn hans fóru til og vildu hjálpa honum. En er þeir tóku upp til höfuðsins þá trað hún fótleggina svo að nær brotnuðu. Þá tóku þeir til fótanna, þá kafði hún höfuðuð svo að þar dó hann (stafsetningu breytt).Mara er óvættur sem menn trúðu að træði á fólki í svefni eða sæti á bringu manna þannig að þeim lægi við köfnun.
Mara er samgermanskt orð, það er til í flestum germönskum málum. Í færeysku heitir ókindin marra, í sænsku mara, í nýnorsku og dönsku mare, fornensku mare (í nútímaensku í nightmare þar sem maran kemur yfirleitt á nóttinni), í fornháþýsku mara (í háþýsku Mahr). Tröð er leitt af sögninni að troða ‘ganga traðka, trampa’. Orðabók Háskólans á elst dæmi um samsetta orðið martröð frá síðari hluta 18. aldar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er martröð og hvað orsakar hana? eftir Kristófer Þorleifsson
- Hvað eru mörur? eftir Terry Gunnell og Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Eru til einhver ráð til þess að sofa betur? eftir Bryndísi Benediktsdóttur
Hvaðan kemur orðið "martröð" og hvað þýðir sérhver orðhluti? Hvenær var orðið fyrst notað og hvaða orð eru skyld því? Er "mar" í "martröð" það sama og "mare" í "nightmare"? Vinsamlegast gefið ítarlegt svar.