Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig varð heimspekin til? Hvert er upphaf hennar?

Geir Þ. Þórarinsson

Ómögulegt er að segja til um hver velti fyrstur fyrir sér heimspekilegri spurningu og hvenær. Aftur á móti er hægt að segja frá upphafi tiltekinna heimspekihefða. Upphaf vestrænnar heimspeki má rekja til Forngrikkja og hún á sér órofa sögu til nútímans. Á flestum evrópumálum er sjálft orðið fyrir heimspeki komið af gríska orðinu filosofia og vísar þannig aftur til þeirrar heimspekihefðar sem hófst í Grikklandi. Aðrar heimspekihefðir hafa svo orðið til í öðrum menningarheimum óháð vestrænni heimspeki.

Grikkir töldu að gríski heimspekingurinn Þales frá Míletos (fæddur um 625 f.Kr.), sem sést hér til vinstri, hefði verið fyrsti heimspekingurinn. Lítið er vitað um ævi hans, engin rit eru varðveitt eftir hann og raunar er alls ekki víst að Þales hafi ritað bækur. Aftur á móti er varðveittur vitnisburður um kenningar Þalesar í ritum yngri höfunda. Honum er eignuð sú kenning að allt sé vatn, það er að segja að vatn sé uppspretta og frumefni alls sem er. Um kenninguna segir Aristóteles meðal annars:
Þales […] sagði að frumnáttúran væri vatn […] Það má vera að hugmyndin hafi kviknað þegar hann sá að hvaðeina nærist á raka, og sjálfur hitinn verður til úr raka og lifir á honum. (Frumspekin I.3 983b20-24, þýð. Svavars Hrafns Svavarssonar)

Anaxímandros frá Míletos (fæddur um 610 f.Kr.) var yngri samtímamaður Þalesar og í sumum heimildum sagður hafa verið nemandi hans. Anaxímandros setti fram aðra kenningu um uppsprettu alls þess sem er. Hann taldi að það væri ómælið (gr. to apeiron). Hvers vegna skyldi hann ekki hafa sætt sig við niðurstöðu Þalesar? Vatn getur gufað upp og orðið að gufu og það getur frosið og þannig orðið að föstu formi. Með dálitlu ímyndunarafli er ef til vill hægt að gera sér í hugarlund að vatn geti breyst í ýmislegt annað líka. En hvernig skyldi til dæmis eldur hafa orðið til úr vatni? Svo virðist sem sumir eiginleikar einfaldlega útiloki hver annan. Ef útskýra skal margbreytileika heimsins með einu undirliggjandi frumefni virðist því nauðsynlegt að gera ráð fyrir að frumefnið hafi ekki til að bera tiltekna eiginleika. Það getur hvorki verið blautt né þurrt, heitt né kalt og svo framvegis, því ef það er þurrt getur það ekki útskýrt tilurð þess sem er blautt og öfugt.

Hér er því orðin til ákveðin rökræða. Anaxímandros bregst við kenningu Þalesar sem hann telur að sé ófullnægjandi og reynir að leysa vandann. Margir heimspekingar fylgdu síðan í kjölfarið. Um sögu grískrar heimspeki má lesa í svari sama höfundar.

Vestræn heimspeki á sér órofa sögu frá fornöld til nútímans. Á miðöldum var þekking Vestur-Evrópumanna á grískri heimspeki að vísu fremur rýr. Þeir þekktu einkum rit rómverskra höfunda, meðal annars Ciceros, Senecu, Ágústínusar og Bóethíusar og örfáar latneskar þýðingar á ritum grískra heimspekinga. Auk þess dró verulega úr lestrarkunnáttu almennings og almennri menntun. Engu að síður var ávallt einhver þekking til staðar og rökræðan hélt áfram. Tómas frá Akvínó reyndi til dæmis á 13. öld að sætta heimspeki Aristótelesar og kristna guðfræði. Á tíma endurreisnarinnar streymdu grísk handrit til Vestur-Evrópu og þekking á heimspeki fornaldar jókst á ný og fornir spekingar nutu mikilla vinsælda.


Dauði Sókratesar (1787) eftir Jacques-Louis David.

Í aldanna rás hafa verið kynnt til sögunnar ný viðfangsefni og nýjar áherslur. Fyrstu grísku heimspekingarnir voru til dæmis allir náttúruspekingar því þeir leituðu fyrst og fremst skýringa á gangi náttúrunnar og margbreytileika hennar. Í kjölfarið vöknuðu nýjar spurningar um eðli breytinga og samsemdar, sýnd og reynd, afstæði og algildi og þar fram eftir götunum. En á 5. öld f.Kr. hófst nýtt tímabil í sögu heimspekinnar með Sókratesi. Hann er sagður hafa fyrstur fengist við siðfræði og hafa fært heimspekina af himnum niður á jörðina. Frá því í fornöld hafa áherslur í siðfræði breyst töluvert því fornmenn spurðu einkum hvers konar lífi við ættum að lifa en siðfræðingar nútímans spyrja frekar hvað okkur beri að gera, það er að segja um siðferðilegt gildi athafna okkar. Sömu sögu mætti segja um ýmis önnur svið heimspekinnar, áherslur breytast og nýjasr spurningar vakna eftir því sem rökræðan heldur áfram.

Í stuttu máli má því segja að vestræn heimspeki hafi orðið til í Grikklandi hinu forna snemma á 6. öld f.Kr. og að hún hafi orðið til sem ákveðin rökræða eða rökræðuhefð. Þessi hefð á sér samfellda sögu til dagsins í dag. Aðrar rökræðuhefðir hafa orðið til á öðrum tímum og á öðrum stöðum í heiminum. Saga kínverskrar heimspeki er til dæmis óháð vestrænni heimspeki og á sama hátt á indversk heimspeki sér sína sögu.

Svör um tengd efni á Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

5.2.2008

Spyrjandi

Helga Sif Eiðsdóttir, f. 1985
Rakel Ármannsdóttir, f. 1985

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig varð heimspekin til? Hvert er upphaf hennar?“ Vísindavefurinn, 5. febrúar 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7050.

Geir Þ. Þórarinsson. (2008, 5. febrúar). Hvernig varð heimspekin til? Hvert er upphaf hennar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7050

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig varð heimspekin til? Hvert er upphaf hennar?“ Vísindavefurinn. 5. feb. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7050>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig varð heimspekin til? Hvert er upphaf hennar?
Ómögulegt er að segja til um hver velti fyrstur fyrir sér heimspekilegri spurningu og hvenær. Aftur á móti er hægt að segja frá upphafi tiltekinna heimspekihefða. Upphaf vestrænnar heimspeki má rekja til Forngrikkja og hún á sér órofa sögu til nútímans. Á flestum evrópumálum er sjálft orðið fyrir heimspeki komið af gríska orðinu filosofia og vísar þannig aftur til þeirrar heimspekihefðar sem hófst í Grikklandi. Aðrar heimspekihefðir hafa svo orðið til í öðrum menningarheimum óháð vestrænni heimspeki.

Grikkir töldu að gríski heimspekingurinn Þales frá Míletos (fæddur um 625 f.Kr.), sem sést hér til vinstri, hefði verið fyrsti heimspekingurinn. Lítið er vitað um ævi hans, engin rit eru varðveitt eftir hann og raunar er alls ekki víst að Þales hafi ritað bækur. Aftur á móti er varðveittur vitnisburður um kenningar Þalesar í ritum yngri höfunda. Honum er eignuð sú kenning að allt sé vatn, það er að segja að vatn sé uppspretta og frumefni alls sem er. Um kenninguna segir Aristóteles meðal annars:
Þales […] sagði að frumnáttúran væri vatn […] Það má vera að hugmyndin hafi kviknað þegar hann sá að hvaðeina nærist á raka, og sjálfur hitinn verður til úr raka og lifir á honum. (Frumspekin I.3 983b20-24, þýð. Svavars Hrafns Svavarssonar)

Anaxímandros frá Míletos (fæddur um 610 f.Kr.) var yngri samtímamaður Þalesar og í sumum heimildum sagður hafa verið nemandi hans. Anaxímandros setti fram aðra kenningu um uppsprettu alls þess sem er. Hann taldi að það væri ómælið (gr. to apeiron). Hvers vegna skyldi hann ekki hafa sætt sig við niðurstöðu Þalesar? Vatn getur gufað upp og orðið að gufu og það getur frosið og þannig orðið að föstu formi. Með dálitlu ímyndunarafli er ef til vill hægt að gera sér í hugarlund að vatn geti breyst í ýmislegt annað líka. En hvernig skyldi til dæmis eldur hafa orðið til úr vatni? Svo virðist sem sumir eiginleikar einfaldlega útiloki hver annan. Ef útskýra skal margbreytileika heimsins með einu undirliggjandi frumefni virðist því nauðsynlegt að gera ráð fyrir að frumefnið hafi ekki til að bera tiltekna eiginleika. Það getur hvorki verið blautt né þurrt, heitt né kalt og svo framvegis, því ef það er þurrt getur það ekki útskýrt tilurð þess sem er blautt og öfugt.

Hér er því orðin til ákveðin rökræða. Anaxímandros bregst við kenningu Þalesar sem hann telur að sé ófullnægjandi og reynir að leysa vandann. Margir heimspekingar fylgdu síðan í kjölfarið. Um sögu grískrar heimspeki má lesa í svari sama höfundar.

Vestræn heimspeki á sér órofa sögu frá fornöld til nútímans. Á miðöldum var þekking Vestur-Evrópumanna á grískri heimspeki að vísu fremur rýr. Þeir þekktu einkum rit rómverskra höfunda, meðal annars Ciceros, Senecu, Ágústínusar og Bóethíusar og örfáar latneskar þýðingar á ritum grískra heimspekinga. Auk þess dró verulega úr lestrarkunnáttu almennings og almennri menntun. Engu að síður var ávallt einhver þekking til staðar og rökræðan hélt áfram. Tómas frá Akvínó reyndi til dæmis á 13. öld að sætta heimspeki Aristótelesar og kristna guðfræði. Á tíma endurreisnarinnar streymdu grísk handrit til Vestur-Evrópu og þekking á heimspeki fornaldar jókst á ný og fornir spekingar nutu mikilla vinsælda.


Dauði Sókratesar (1787) eftir Jacques-Louis David.

Í aldanna rás hafa verið kynnt til sögunnar ný viðfangsefni og nýjar áherslur. Fyrstu grísku heimspekingarnir voru til dæmis allir náttúruspekingar því þeir leituðu fyrst og fremst skýringa á gangi náttúrunnar og margbreytileika hennar. Í kjölfarið vöknuðu nýjar spurningar um eðli breytinga og samsemdar, sýnd og reynd, afstæði og algildi og þar fram eftir götunum. En á 5. öld f.Kr. hófst nýtt tímabil í sögu heimspekinnar með Sókratesi. Hann er sagður hafa fyrstur fengist við siðfræði og hafa fært heimspekina af himnum niður á jörðina. Frá því í fornöld hafa áherslur í siðfræði breyst töluvert því fornmenn spurðu einkum hvers konar lífi við ættum að lifa en siðfræðingar nútímans spyrja frekar hvað okkur beri að gera, það er að segja um siðferðilegt gildi athafna okkar. Sömu sögu mætti segja um ýmis önnur svið heimspekinnar, áherslur breytast og nýjasr spurningar vakna eftir því sem rökræðan heldur áfram.

Í stuttu máli má því segja að vestræn heimspeki hafi orðið til í Grikklandi hinu forna snemma á 6. öld f.Kr. og að hún hafi orðið til sem ákveðin rökræða eða rökræðuhefð. Þessi hefð á sér samfellda sögu til dagsins í dag. Aðrar rökræðuhefðir hafa orðið til á öðrum tímum og á öðrum stöðum í heiminum. Saga kínverskrar heimspeki er til dæmis óháð vestrænni heimspeki og á sama hátt á indversk heimspeki sér sína sögu.

Svör um tengd efni á Vísindavefnum:

Myndir:...