Þales […] sagði að frumnáttúran væri vatn […] Það má vera að hugmyndin hafi kviknað þegar hann sá að hvaðeina nærist á raka, og sjálfur hitinn verður til úr raka og lifir á honum. (Frumspekin I.3 983b20-24, þýð. Svavars Hrafns Svavarssonar)Anaxímandros frá Míletos (fæddur um 610 f.Kr.) var yngri samtímamaður Þalesar og í sumum heimildum sagður hafa verið nemandi hans. Anaxímandros setti fram aðra kenningu um uppsprettu alls þess sem er. Hann taldi að það væri ómælið (gr. to apeiron). Hvers vegna skyldi hann ekki hafa sætt sig við niðurstöðu Þalesar? Vatn getur gufað upp og orðið að gufu og það getur frosið og þannig orðið að föstu formi. Með dálitlu ímyndunarafli er ef til vill hægt að gera sér í hugarlund að vatn geti breyst í ýmislegt annað líka. En hvernig skyldi til dæmis eldur hafa orðið til úr vatni? Svo virðist sem sumir eiginleikar einfaldlega útiloki hver annan. Ef útskýra skal margbreytileika heimsins með einu undirliggjandi frumefni virðist því nauðsynlegt að gera ráð fyrir að frumefnið hafi ekki til að bera tiltekna eiginleika. Það getur hvorki verið blautt né þurrt, heitt né kalt og svo framvegis, því ef það er þurrt getur það ekki útskýrt tilurð þess sem er blautt og öfugt. Hér er því orðin til ákveðin rökræða. Anaxímandros bregst við kenningu Þalesar sem hann telur að sé ófullnægjandi og reynir að leysa vandann. Margir heimspekingar fylgdu síðan í kjölfarið. Um sögu grískrar heimspeki má lesa í svari sama höfundar. Vestræn heimspeki á sér órofa sögu frá fornöld til nútímans. Á miðöldum var þekking Vestur-Evrópumanna á grískri heimspeki að vísu fremur rýr. Þeir þekktu einkum rit rómverskra höfunda, meðal annars Ciceros, Senecu, Ágústínusar og Bóethíusar og örfáar latneskar þýðingar á ritum grískra heimspekinga. Auk þess dró verulega úr lestrarkunnáttu almennings og almennri menntun. Engu að síður var ávallt einhver þekking til staðar og rökræðan hélt áfram. Tómas frá Akvínó reyndi til dæmis á 13. öld að sætta heimspeki Aristótelesar og kristna guðfræði. Á tíma endurreisnarinnar streymdu grísk handrit til Vestur-Evrópu og þekking á heimspeki fornaldar jókst á ný og fornir spekingar nutu mikilla vinsælda.
Dauði Sókratesar (1787) eftir Jacques-Louis David.
- Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki? eftir Hauk Má Helgason
- Hvenær varð grísk heimspeki til? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hver er saga grískrar heimspeki? eftir Geir Þ. Þórarinsson