Við flokkum tilgátur okkar í þrennt. Í fyrsta lagi teljum við að maðurinn æpi vegna líkamlegrar fötlunar og afmyndunar sem er augljós skoði menn myndina vel. Í öðru lagi er það alveg skýrt að maðurinn æpir af ýmsum sálrænum ástæðum. Honum líður ekki vel. Í þriðja lagi - og þetta finnst okkur langlíklegast - blasir við að maðurinn er ekkert að æpa.
- Maðurinn æpir þegar hann áttar sig á því að hann hefur hvorki augabrúnir né augabrýr, sjá nánar í fróðlegum svörum okkar um þessa líkamshluta. (Þannig er það engin tilviljun að hann er staddur á brú - það á augljóslega að magna upp angistina yfir missinum).
- Maðurinn æpir af því að hann er tannlaus (landi Munchs, leikskáldið Thorbjörn Egner, fékk hugmyndina að leikritinu Karíus og Baktus þegar hann sá Ópið fyrst).
- Maðurinn er brjálaður yfir því að hafa misst allt hárið.
- Maðurinn veinar þegar hann finnur að hann hefur misst eyrun.
- Maðurinn er með hundaæði og þolir ekki að heyra vatnshljóð.
- Maðurinn er að fríka út af því að hann lítur út eins og ljósapera (Munch komst yfir uppdrátt af ljósaperu Edisons og stældi hana á mynd sinni. Þetta geta allir séð með því að skoða mynd af perunni hér. Rauður himinninn táknar þess vegna að kveikt er á perunni. Hann hefur ekkert með eldgos úr Krakatá að gera).
- Maðurinn er að reyna að selja mönnunum tveimur sem standa fyrir aftan hann "Herópið". Hann þarf að hrópa hátt svo þeir heyri eitthvað, enda er árniðurinn hávær á þessum stað (eðlilegra hefði verið að snúa sér við og rétta þeim eintak).
- Maðurinn er genginn af göflunum og er að reyna losa höfuðið af búknum.
- Maðurinn flippar út af því hann komst ekki að í jarðfræðiskor Háskólans í Osló til að rannsaka eldgosið í Krakatá.
- Maðurinn er ekkert að æpa. Hann er með hellu fyrir eyrunum og er að reyna að losna við hana með því að geispa. Einnig getur verið að hann hafi verið að gera teygjur eftir gott hlaup og hafi þurft að geispa, enda er geispi teygjuviðbragð eins og kunnugt er.
- Maðurinn er að velþekkt eftirherma í norsku samkvæmislífi og leikur hér uppáhaldsatriði sitt: Hann hermir eftir gullfiski í fiskabúri frænku sinnar.
- Maðurinn er ekki að æpa heldur er hann að syngja sjöttu línu norska þjóðsöngsins, hún hljómar svona "på vår far og mor" og það er ómögulegt að syngja hana nema með þessum munnsvip.
- Maðurinn er svo steinhissa að frétta að Nottingham Forest hefði gert 2-2 jafntefli við Everton í sínum fyrsta deildarleik (1892) að hann grípur um höfuð sér og hrópar hina frægu setningu (sem "Kristján heiti ég Ólafsson" tók seinna upp) "óhhh mæ goood".
- Þetta er ekki maður heldur geimvera sem ekki er að æpa heldur lítur bara svona út.
- Wikipedia.org. Sótt 31.1.2008.
Hafi einhverjum orðið um og ÓÓÓ við lestur þessa svars skal tekið fram að þetta er föstudagssvar. Sá sem tekur það alvarlega gerir slíkt alfarið á eigin ábyrgð.