Hvers konar fleki er Hreppaflekinn sem mætir Norður-Ameríkuflekanum á Þingvöllum?Hreppaflekinn er lítill jarðskorpufleki á Suðurlandi, nokkurs konar örfleki eða míkrófleki. Jarðskorpa jarðarinnar er samsett úr nokkrum gríðarstórum meginlandsflekum, eins og Norður-Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum en flekaskil þeirra liggja í gegnum Ísland. Inn á milli stóru flekanna er fjöldi minni fleka og flekabúta og er Hreppaflekinn einn slíkur. Ef litið er á landakort þá afmarkast útlínur Hreppaflekans af Vesturgosbeltinu (frá Hellisheiði í gegnum Þingvelli upp í Langjökul), Mið-Íslandsgosbeltinu (frá Langjökli í gegnum Hofsjökul yfir í norðurhluta Vatnajökuls), Suðurlandsskjálftabeltinu (frá Hellisheiði austur um Suðurlandsundirlendið yfir að Heklu og Torfajökli) og Austurgosbeltinu (frá Torfajökli norður um Veiðivötn yfir í norðurhluta Vatnajökuls). Þetta má vel sjá á kortinu hér fyrir neðan, þar sem flekaskilin á Íslandi eru sýnd. Tilvist þessa flekabrots, sem við nefnum Hreppaflekann, hefur lengi verið ljós. Áður töldu vísindamenn hins vegar að flekabrotið færðist með Norður-Ameríkuflekanum, og væri því ekki í raun sjálfstæður jarðskorpufleki. Á síðustu árum hefur þó komið í ljós að Hreppaflekinn hreyfist ekki alfarið með hinum stóru flekunum heldur hefur sjálfstæða hreyfingu, nokkurs konar snúningshreyfingu, og er sú hreyfing á Hreppaflekanum tilkomin vegna þess að jarðskorpurekið á Vestur- og Austurgosbeltunum er ójafnt. Hreppaflekinn er því nú talinn vera sjálfstæður jarðskorpufleki. Kort:
- Snæbjörn Guðmundsson.