Hvers konar fleki er Hreppaflekinn sem mætir Norður-Ameríkuflekanum á Þingvöllum?Hreppaflekinn er lítill jarðskorpufleki á Suðurlandi, nokkurs konar örfleki eða míkrófleki. Jarðskorpa jarðarinnar er samsett úr nokkrum gríðarstórum meginlandsflekum, eins og Norður-Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum en flekaskil þeirra liggja í gegnum Ísland. Inn á milli stóru flekanna er fjöldi minni fleka og flekabúta og er Hreppaflekinn einn slíkur. Ef litið er á landakort þá afmarkast útlínur Hreppaflekans af Vesturgosbeltinu (frá Hellisheiði í gegnum Þingvelli upp í Langjökul), Mið-Íslandsgosbeltinu (frá Langjökli í gegnum Hofsjökul yfir í norðurhluta Vatnajökuls), Suðurlandsskjálftabeltinu (frá Hellisheiði austur um Suðurlandsundirlendið yfir að Heklu og Torfajökli) og Austurgosbeltinu (frá Torfajökli norður um Veiðivötn yfir í norðurhluta Vatnajökuls). Þetta má vel sjá á kortinu hér fyrir neðan, þar sem flekaskilin á Íslandi eru sýnd.

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta á Íslandi. Á kortið eru flekaskilin dregin inn með bláum lit. Þykkt línunnar sýnir hinn mismikla hraða gliðnunarinnar á flekaskilunum. Mesta gliðnunin á suðurhluta landsins er á austurgosbeltinu milli Torfajökuls og Vatnajökuls á meðan gliðnunin er miklu minni á vestugosbeltinu frá Hengli norður í Langjökul. Heiti jarðskorpuflekanna eru merkt inn á kortið auk örva sem gefa til kynna rekstefnu flekanna.
- Snæbjörn Guðmundsson.