Kjötaldin eru að meginhluta mjúk og safarík en fræ þeirra eru hörð og langoftast í miðju aldininu. Kjötaldin laða að sér dýr, til dæmis fugla eða spendýr, sem rífa aldinið af plöntunni, éta aldinkjötið og skilja fræin eftir. Þannig dreifast fræin frá móðurplöntunni. Stundum eru fræin líka étin en þau þola vel meltingu. Þá koma þau út með saur og fá þannig áburð í kaupbæti. Áburðurinn hjálpar þeim fyrstu skrefin, þegar þau taka að spíra og festa rætur.Ef við tökum vatnsmelónu sem dæmi þá eru fræ hennar, eða steinarnir, svört að lit og venjulega nokkur hundruð í hverri melónu. Einnig má oft finna litla hvíta steina en þeir eru ekki raunveruleg fræ heldur hylki sem ættu að umlykja fræ en eru tóm. Það eru líka til frælaus afbrigði af vatnsmelónu en í þeim er þó að finna þessi hvítu hylki. Sumir borða ekki melónusteinana en það er allt í lagi að gera það og reyndar eru melónusteinar orkuríkir og fullir af næringarefnum. Um þetta má lesa í svari við spurningunni Má borða fræin úr vatnsmelónum? Mynd:
- Melon - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 4. 5. 2015).