Vönduð plasmasjónvörp hafa jafnlangan líftíma og vönduð LCD-sjónvörp eða 60.000 klukkustundir. Sé miðað við fimm klukkustunda sjónvarpsáhorf á dag þýðir það yfir 25 ár af bjartri og fallegri mynd, hvort sem um er að ræða LCD-sjónvarp eða plasmaskjá. Til samanburðar er hefðbundinn líftími á myndlampatæki 15.000 til 30.000 klukkustundir. Bæði plasma- og LCD-sjónvörp eru mjög stöðug og áreiðanleg tæki. LCD-sjónvörp hafa venjulega ekki glerhlíf yfir skjánum til að hlífa honum, eins og plasma-sjónvörpin hafa, og því er LCD-skjár oft berskjaldaðri (nema hlífðargler sé á honum). Aftur á móti er skjár plasmasjónvarps meira speglandi en þó mismikið eftir gæðum. LCD hentar því oft betur þar sem umhverfið er mjög bjart eða hætta er á að glampi mikið á skjáinn. Þegar fjárfest er í nýju sjónvarpi, hvort sem er plasma- eða LCD-tæki, á kaupandinn að geta verið viss um að tækið endist í fjölmörg ár, raunar svo mörg að löngu verður búið að skipta yfir í nýtt sjónvarp þegar bæði plasma- og LCD-sjónvörp ná sínum helmingunartíma. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um sjónvörp, bæði LCD- og plasmasjónvörp og hefðbundin myndlampatæki:
- Hvað eru LCD- og plasmasjónvörp? eftir Sævar Helga Bragason og Kristján Leósson
- Hvort eyðir LCD- eða plasmasjónvarp meira rafmagni og hversu miklu rafmagni eyða þau? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvað er háskerpusjónvarp? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvernig verka myndlampar í sjónvörpum? eftir Hildi Guðmundsdóttur
- Hvað eru sjónvarpsbylgjur og hvernig er hægt að senda mynd eða hljóð gegnum loftið? eftir ÞV
Ritstjórn þakkar Kristjáni Leóssyni eðlisverkfræðingi yfirlestur og gagnlegar ábendingar.