Plasmaskjáir samanstanda af aragrúa örsmárra hólfa sem fyllt eru með blöndu af eðallofttegundunum neon og xenon. Rafspennan milli tveggja rafskauta í einstöku hólfi myndar rafgas (e. plasma) sem sendir frá sér útfjólublátt ljós sem aftur fær fosfórhúð á innanverðum skjánum til að framkalla sýnilegt ljós. Þessi aðferð gefur einstaklega bjarta og skarpa mynd, miklu betri en í gömlu myndlampatækjunum. Plasmatæknin var fundin upp af vísindamönnum við Illinoisháskóla í Bandaríkjunum árið 1964 en fyrstu plasmaskjáirnir litu dagsins ljós á áttunda áratugnum. Fyrstu plasmasjónvörpin komu ekki á almennan markað fyrr en árið 1997 þegar japanska raftækjafyrirtækið Pioneer hóf fyrst fyrirtækja framleiðslu á plasmasjónvörpum til heimilisnota. Plasmasjónvörp eru venjulega ekki framleidd undir 42 tommum og aldrei undir 37 tommum. Vönduð plasmasjónvörp á stærðarbilinu 42-50 tommur sýna nánast hnökralausa mynd. Hvort fólk ætti að fá sér LCD- eða plasmasjónvarp er mikið til háð stærðinni sem verið er að leita eftir. Sé ætlunin að fá sér 32 tommu sjónvarpstæki er ekki um neitt annað að ræða en LCD-tæki. Sé ætlunin að fá sér stórt sjónvarpstæki, yfir 40 tommur, eru vönduð plasmasjónvörp í flestum tilvikum betri kostur. Í þessum stærðarflokki eru myndgæðin oftar en ekki betri í góðum plasmasjónvörpum en í sambærilegum stórum LCD-tækjum, burtséð frá upplausn. Sérfræðingar tímarita sem fjalla um sjónvörp eru flestir sammála um þetta. Hámarks orkuþörf plasmaskjáa er reyndar meiri en LCD-skjáa en meðalorkuþörfin er væntanlega svipuð þar sem eingöngu upplýstir punktar í plasmasjónvarpi draga straum en í LCD-skjá er hvítur lampi bakvið skjáinn sem lýsir þó myndin á skjánum sé að mestu svört. LCD-tæknin mun ekki leysa plasmasjónvörp af hólmi í bráð. Plasmasjónvörp eru ekki á undanhaldi og verða bara betri með árunum, alveg eins og LCD-sjónvörp verða betri með tímanum. Bæði LCD- og plasmasjónvörp eiga eftir að lifa góðu lífi á sjónvarpsmarkaði næsta áratuginn að minnsta kosti, eða þar til ný tækni leysir þau bæði af hólmi, til dæmis OLED tæknin sem nú er að ryðja sér til rúms. Þessi tækni sameinar að vissu leyti kosti TFT-LCD skjáa og plasmaskjáa og gæti gert framleiðendum kleift að bjóða hágæða skjái á þykkt við pappaspjald og jafnvel sveigjanlega skjái sem hægt er að rúlla upp. Heimildir:
- OLED-TV Display/Monitor Technology News
- Harm Tolner: Comments on the Power Consumption
- Advanced PDP Developement Center
- What Hi-Fi Sound & Vision, nóvember 2007.
- Mynd af flatskjám: Tom's Hardware
- Mynd af sveigjanlegum skjá:Product Reviews
Hér er einnig svarað spurningunum:
- Hver er munurinn á plasma og LCD og hvað þýðir LCD?
- Hvernig virka kristalla- og plasmaskjáir?
- Hvað er inni í LCD og plasma skjám?