Svokölluð Full HD-sjónvörp hafa 1920x1080 upplausn og eru merkt HD Ready – 1080p. Sú upplausn verður einungis fáanleg á svonefndum HD-DVD eða Blu-ray spilurum, sem leysa munu DVD af hólmi, en sjónvarpsstöðvarnar hafa ekki í hyggju að senda út í þessari upplausn. Með þessari upplausn fást bíógæði heima í stofu, að því gefnu að tækið sé fært um að sýna 24 ramma á sekúndu, eins og í bíói. Þeir sem ætla að fá sér tæki með 1920x1080 upplausn ættu að spyrja seljandann hvort það geti sýnt 24 ramma á sekúndu, sem gefur tærustu og bestu myndina. Upplausnin er þá yfirleitt táknuð 1920x1080p 24. Gott er að hafa í huga að upplausnin skiptir meira máli í stærri tækjum, það er stærri en 42 tommur. Fæstir sjá mun á 37 tommu sjónvarpstæki með 1366x768 upplausn og 1920x1080 en fleiri taka eftir muninum sé um 50 tommu tæki að ræða. Þar verður sömuleiðis að hugsa um fjarlægðina frá skjánum. Ef setið er í fimm til sex metra fjarlægð frá 50 tommu sjónvarpi getur verið ansi erfitt að greina muninn á 1920x1080 og 1366x768, en auðveldara ef setið er í tveggja til þriggja metra fjarlægð frá skjánum. Að lokum er mikilvægt að hafa í huga að útsendingin eða merkið sem fer inn í tækið skiptir líka máli. Það er lítill hagur í því að horfa á sjónvarp með 1920x1080 upplausn ef útsendingin er aðeins 480 línur, myndin verður nefnilega ekkert skýrari þótt upplausnin sé hærri en merkið. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um sjónvörp, bæði LCD- og plasmasjónvörp og hefðbundin myndlampatæki:
- Hvað eru LCD- og plasmasjónvörp? eftir Sævar Helga Bragason og Kristján Leósson
- Hvort eyðir LCD- eða plasmasjónvarp meira rafmagni og hversu miklu rafmagni eyða þau? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvernig verka myndlampar í sjónvörpum? eftir Hildi Guðmundsdóttur
- Hvað eru sjónvarpsbylgjur og hvernig er hægt að senda mynd eða hljóð gegnum loftið? eftir ÞV