Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þær tegundir bjarndýra sem nú lifa á jörðinni voru sennilega til á síðasta jökulskeiði ísaldar. Útbreiðslusvæði þeirra hefur sjálfsagt breyst töluvert vegna breytinga í umhverfinu. Ísöld lauk fyrir um tíu þúsund árum, þá hlýnaði í veðri og úrkoma minnkaði, loftslag varð þurrara og í kjölfarið fylgdu breytingar á gróðurfari.
Samhliða breytingunum hurfu fjölmargar tegundir stórra spendýra, þar með taldar einhverjar tegundir bjarndýra sem voru á ferli á síðasta jökulskeiði. Meðal þeirra bjarndýrategunda sem lifðu á ísöld en hafa síðan dáið út eru tvær tegundir af ættkvíslinni Arctodus, A. pristinum og A. simus. Á ensku nefnast ættkvíslin 'short faced bear' sem mætti kannski nefna andlitsstutta bjarndýrið á íslensku. Nafnið er væntanlega dregið af því að trýnið var ekki eins ílangt og hjá núlifandi bjarndýrum.
Talið er að dýr af tegundinni Arctodus simus hafi verið á hæð við menn.
Þessir birnir lifðu í Norður-Ameríku og hafa beinagrindur af þeim meðal annars fundist í La Brea-tjörupyttunum í Kaliforníu. Þetta voru óvenju stórvaxnar skepnur sem gátu orðið allt 150-180 cm á herðakamb eða jafn háir og menn. Uppréttir voru þeir allt að 350 cm á hæð og jafnvel stærri og hafa sjálfsagt vegið allt að einu tonni. Þeir voru því marktækt stærri en hvítabirnir (Ursus maritimus) sem er stærsta bjarndýrategundin sem lifir í dag. Þetta hafa því verið óárennilegar skepnur. Þeir virðast hafa verið grannvaxnari en birnir dagsins í dag og með lengri lappir sem er greinileg aðlögun að hlaupum. Þessi líkamsbygging gæti bent til þess að þeir hafi hlaupið uppi bráð sína, grasbíta eins og villihesta og antilópur, en það er þó umdeilt meðal fræðimanna hver aðalfæðutegund þeirra var og hvernig þeir öfluðu sér matar.
Norðlægari tegundin, A. simus, er talin hafa komið fram fyrir um 800 þúsund árum og dáið út fyrir um 11,6 þúsund árum. Heimkynni hennar voru frá Alaska til Mississippi en fyrst fundust steingervingar af þessu bjarndýri í Potter Creek-hellunum í Kaliforníu. Þessi skepna er að öllum líkindum stærsta rándýr af meiði spendýra sem hefur farið um Norður-Ameríku.
Talið er að upprétt bjarndýr af tegundinni Arctodus simus hafi verið allt að 3,5 m.
A. pristinum var litlu minni en leifar af þessu bjarndýri hafa fundist í Suðurríkjum Bandaríkjanna, í Texas, austur til Flórída og á einum stað í norðurhluta Mexíkó.
Evrópa átti líka sinn stóra björn á ísöld og hefur sá verið kallaður hellabjörn (Ursus spelaeus). Eins og latneska nafnið gefur til kynna var hann náskyldur þeim bjarndýrategundum sem finnast í Evrasíu í dag, það er brúnbirni, asískum svartbirni og hvítabirni.
Hellabjörn (Ursus spelaeus.
Vísindamenn telja að hellabjörninn hafi dáið út nokkuð fyrr en Arcodus tegundirnar eða þegar síðasta jökulskeið var í hámarki fyrir tæpum 30 þúsund árum. Hellabirnir hafa sennilega verið áþekkir stærstu brúnbjörnum í dag, karldýrin um 400 til 500 kg og birnurnar nokkuð minni.
Hellabirnir og brúnbirnir eiga sér sameiginlegan forföður í tegund sem nefnist etrúski björninn (Ursus etruscus). Hann var uppi fyrr rúmum 5 milljón árum og lifði samhliða brúnbjörnum og hellabjörnum þar til fyrir 11 þúsund árum. Á síðasta jökulskeiði var hann að finna í norðurhluta Ítalíu, á Balkanskaga og allt austur til Mið-Asíu og telst einnig til ísaldabjarna. Etrúski björninn virðist hafa verið nokkuð áþekkur brúnbirni í vaxtalagi og nokkuð minni en hellabirnirnir eða 2-300 kg.
Helstu heimildir:
Churcher, C. S., A. V. Morgan, og L. D. Carter. 1993. Arctodus simus from the Alaskan Arctic Slope. Canadian Journal of Earth Sciences 30(5):1007-1013.
Stuart, A. J. (1996). Vertebrate faunas from the early Middle Pleistocene of East Anglia. Í Turner, C. (ritstj.): The Early Middle Pleistocene in Europe, 9–24. A. A. Balkema, Rotterdam.
Jón Már Halldórsson. „Hvaða tegundir bjarndýra lifðu á ísöld?“ Vísindavefurinn, 30. apríl 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69804.
Jón Már Halldórsson. (2015, 30. apríl). Hvaða tegundir bjarndýra lifðu á ísöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69804
Jón Már Halldórsson. „Hvaða tegundir bjarndýra lifðu á ísöld?“ Vísindavefurinn. 30. apr. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69804>.