Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig byrjaði galdrafárið á Íslandi og hvert var hlutverk almennings?

Már Jónsson

Hugtakið „galdrafár“ hlýtur að taka mið af ofsóknum í garð meintra galdranorna og galdrakarla, fremur en athöfnum þeirra sem slíkra. Slíkar ofsóknir urðu hvað ákafastar í flestum löndum Vestur-Evrópu á síðustu árum 16. aldar og fram eftir 17. öld, þannig að tugir þúsunda voru teknar af lífi, einkum konur. Á Íslandi fer best á því að miða upphaf galdrafársins við það þegar þrír karlar voru brenndir í Trékyllisvík haustið 1654. Reyndar hafði það gerst árið 1625 í Svarfaðardal að Jón Rögnvaldsson var brenndur fyrir að vekja upp draug og senda hann til að valda öðrum manni skaða og drepa hross. Sú brenna var á skjön við dóma í galdramálum á þeim árum, svo sem Jón Guðmundsson lærða sem „einungis“ var dæmdur til útlegðar af landinu. Hugsanleg skýring á brennunni er að Magnús Björnsson, sem var nýtekinn við sem sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og nýkominn frá námi í Danmörku, kann að hafa heillast af galdrabrennum þar, sem voru í hámæli einmitt þá. Einnig hefur hann þekkt konungsbréf frá árinu 1617 sem kvað á um ströng viðurlög við göldrum, en hafði enn ekki verið kynnt á Íslandi.

Á Íslandi fer best á því að miða upphaf galdrafársins við það þegar þrír karlar voru brenndir í Trékyllisvík haustið 1654. Á myndinni sjást þrjár nornir brenndar í Baden í Sviss seint á 16. öld.

Annálar greina frá því að haustið 1652 og fram eftir vetri hafi borið á óróleika af völdum ills anda eða draugs sem stundaði það við messugjörð í kirkjunni að Árnesi í Trékyllisvík að hlaupa ofan í kverkar fólks, svo það ropaði viðstöðulaust og kastaði upp. Einkum bitnaði þetta á ungum konum, sem varð að bera út úr kirkjunni. Böndin bárust að Þórði Guðbrandssyni bónda í Munaðarnesi, sem mun hafa verið um fimmtugt. Fyrir rétti í Árnesi 24. apríl 1654 var hann sakaður um að vera valdur að þeim „stóra óttasama krankdómi og pínu“ sem hefði þjakað konur í hreppnum „af óhreins anda ónáðan.“ Meginforsenda ákærunnar var að hann hafði ekki viljað að vinnukona hans Guðrún Hróbjartsdóttir færi heim til að hjálpa móður sinni. Tveir þeirra manna sem kærðu Þórð voru bræður Guðrúnar og þegar þeir höfðu sótt hana veiktist hún og þegar hún fór aftur að Munaðarnesi batnaði henni. Í framhaldinu hófust ósköpin og ekki ber á öðru en að allir sem komu að málinu á þessu stigi hafi verið sannfærðir um að einfaldasta og sennilega skýringin væru galdrar.

Sýslumaður hálfrar Strandasýslu var Þorleifur Kortsson, sem átti eftir að láta að sér kveða í galdramálum. Á þinginu kvaðst Þórður vera saklaus af öllum ákærum en viðstaddir töldu líklegt að hann hefði valdið óróleikanum. Hann var því dæmdur til að sverja tylftareið um sakleysi sitt. Málið var síðan sent til Magnúsar Björnssonar lögmanns, sem á sínum tíma hafði dæmt Jón Rögnvaldsson til dauða. Hann staðfesti dóminn 9. júní og hið sama gerðu lögréttumenn á alþingi á Þingvöllum 1. júlí. Tylftareiður fól það í sér að sýslumaður nefndi tólf menn úr sveitinni sem áttu að taka afstöðu til ákærunnar. Sjö þeirra urðu að vera sammála Þórði til þess að hann næði fram eiðnum og hann sjálfur yrði hinn áttundi, en að auki fékk hann að velja fjóra menn með sér til sönnunar, svonefnda fangavotta. Þetta var í samræmi við reglur í lögbókinni Jónsbók frá 1281 og menn urðu að gera það upp við samvisku sína gagnvart guði hvort þeir væru með eða á móti. Sýslumenn lögðu mönnum ekki til skoðanir en þrýstu oft á að afstaðan væri skýr. Greinilegt er að ekki vildi nokkur maður í sveitinni vinna eiðinn með Þórði, sem gefur til kynna að gervallt samfélagið, ef svo má segja, var á því að hann hefði beitt göldrum. Nokkrir sveitungar hans kærðu hann og aðrir dæmdu.

Mál Þórðar var aftur tekið fyrir í Árnesi 19. september og voru sýslumenn þá báðir viðstaddir, Þorleifur og Jón Magnússon. Næstu tvo daga var Þórður ítarlega yfirheyrður og tók séra Þorvarður Magnússon í Árnesi virkan þátt í því. Á endanum gekkst Þórður við því að einhvern daginn hefði hann séð djöfulinn í líki tófu nærri bænum á Munaðarnesi og hefði hann „þann sama djöful sært með þeim orðum illum og góðum sem hann frekast kunnað hefði fram til Víkur.“ Ekki var hann spurður frekar út í það hvernig þetta hefði átt að fara fram eða hvernig sendingin gat hafa valdið ókyrrðinni í Árneskirkju, heldur var hann rakleiðis dæmdur „undir þann dauða sem þeim ógjörningi hæfir og sannreyndum galdramönnum ber með að straffast.“

Þórður Guðbrandsson gekkst við því 19. september árið 1654 að hafa séð djöfulinn í líki tófu nálægt bænum á Munaðarnesi. Hann var brenndur á báli tveimur dögum síðar.

Á meðan Þórður var yfirheyrður birtist annar karl úr sveitinni, Egill Bjarnason, og beinlínis stærði sig af því á staðnum að hafa drepið nokkra sauði með göldrum, en jafnframt að hann hefði gert samkomulag við djöfulinn „með ristingum, blóðvökum og naglaskurði, og það hvorttveggja gefið andskotanum til sáttmála af sínum eigin líkama.“ Hann gat látið fjandann gera hvað sem var! Sýslumenn og þingmenn litu til nú Jónsbókar og konungsbréfsins frá 1617, með skýlausri niðurstöðu:

Þar fyrir dæmum vér nefndir dómsmenn í nafni drottins vors Jesú Kristi áðurgreindan mann Egil Bjarnason sannan óbótamann og undir þann dauða og straff sem réttum galdramanni ber og hæfir að hafa sem bæði hér í landi og öðrum framandi kristnum löndum viðgengist hefur hingað til dags.

Hér ýkja dómsmenn um fordæmi innanlands, því eiginlega kemur ekki til greina að fram að þessu hafi aðrir en Jón Rögnvaldsson verið brenndir fyrir galdra, en það mál hafa þeir þekkt.

Þann 21. september, strax að gengnum dómum, voru Þórður og Egill brenndir saman á einu báli. Þá kom þriðji maðurinn fram á sjónarsviðið, Grímur Jónsson, og var handtekinn, enda hafði Þórður lýst því „áður en honum var í eldinn kastað“ að hann væri mestur þeirra í göldrum. Grímur kom fyrir dóm 23. september og kemur fram að hann hafði áður legið undir grun eða sætt ámæli fyrir iðkun galdra: „öll þingsóknin í þessum Árneshrepp og jafnvel ærlegir utansveitar dánumenn leikir og lærðir meðkenna sig það heyrt hafa, og sjálfur Grímur sagði sig um galdra ryktaðan vera.“ Hann játaði þegar á sig ótrúlegustu sakir og enn frekar tveimur dögum síðar:
  • Á þinginu teiknaði hann galdrastaf sem hann nefndi augnaþurs og átti að verjast því að fiskur væri étinn úr hjöllum.
  • Einnig þuldi hans galdra-, bölvunar- og særingavers sem viðstaddir svo gátu ekki munað og hann harðneitaði að endurtaka nokkuð svo það fengist skrifað niður.
  • Hann hafði áður fengið galdrarúnarspjald hjá Þórði Guðbrandssyni til að verjast tófu sem beit lömb.
  • Hann hafði rist galdrastaf á fjöl og kastað á kind, sem drapst.
  • Hann hafði manað og sært djöfulinn til illra verka.
  • Hann hafði skilið eftir rúnaspjald á stað þar sem hann bjó, áður en hann flutti þaðan nauðugur, næsta ábúanda til skaða og tjóns.
  • Eftir rifrildi við mágkonu sína hafði hann valdið veikindum hennar og dauða.

Viðstaddir voru sannfærðir um að Grímur með þessu væri uppvís að göldrum og enginn vildi mæla honum bót „eða hann afsaka þessum aðskiljanlegum atvikum og galdrahnykkjum.“ Hvar sem hann hafði deilt við menn hafði eitthvað gerst, og þetta vissu allir: „hvör atvik almennilega voru af öllum í aðskiljanlegan máta framsögð héðan og þaðan.“ Um refsinguna vísuðu dómsmenn fyrst í 2. Mósebók, þar sem kveðið er á um dauðarefsingu fyrir hvers kyns galdra, en síðan í konungsbréf 1617, Jónsbók og kristinrétt Grágásar. Og af því Grímur játaði þurfti heldur ekki frekari vitna við og hann var „í nafni heilagrar þrenningar“ dæmdur til dauða „svo að hann skuli í eldi brenndur verða sem réttur særinga- og galdramaður.“ Hann var brenndur samdægurs.

Óróleikinn hélt reyndar áfram og var Margrét dóttir Þórðar sökuð um að bera ábyrgð á því, en flúði og tókst nokkrum árum síðar að komast frá málinu með eiði. Allt þetta mál sýnir ótvírætt að galdratrú var landlæg, jafnt meðal ráðamanna sem almennings. Menn gátu valdið veikindum og jafnvel dauða, sært djöfulinn og teiknað stafi til að verjast óhöppum. Almenningur varð fyrir barðinu á þessu og fólk var ekki feimið við að kæra meinta galdramenn, jafnvel þótt dauðadómur og aftaka blöstu við. Tugir galdramála sem heimildir eru varðveittar um næstu áratugi sýna það sama. Nægir að nefna fullyrðingar í garð Ara Pálssonar í Arnarfirði, svo sem það að 17. október 1680 átti að hafa komið að Bjarna nokkrum Guðmundssyni mikill ótti „með yfirnáttúrlegum hita, sem og myrkri fyrir augunum.“ Samtímis drapst hundur með þeim hætti „að hann hafi fram undan pallinum á höfuðið hrotið og að baðstofudyrunum þaðan aftur og fram í göngin, þar teygðist hann sundur og saman, og síðan dauður lá.“ Nú á dögum væri fólk ávítt og skammað fyrir að segja svona vitleysu, en Ari var brenndur á Þingvöllum sumarið 1681. Galdrafárinu linnti fáum árum síðar en galdratrú lifði lengur, jafnvel nokkuð fram á 19. öld.

Heimildir:
  • Galdrar og siðferði í Strandasýslu á síðari hluta 17. aldar. Már Jónsson bjó til prentunar. Hólmavík: Strandagaldur 2008.
  • Ólafur Davíðsson, Galdur og galdramál á Íslandi. Reykjavík: Sögufélag 1940–1943.
  • Ólína Þorvarðardóttir, Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2000.

Myndir:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

4.12.2019

Spyrjandi

María Lilja Tryggvadóttir

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvernig byrjaði galdrafárið á Íslandi og hvert var hlutverk almennings?“ Vísindavefurinn, 4. desember 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69800.

Már Jónsson. (2019, 4. desember). Hvernig byrjaði galdrafárið á Íslandi og hvert var hlutverk almennings? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69800

Már Jónsson. „Hvernig byrjaði galdrafárið á Íslandi og hvert var hlutverk almennings?“ Vísindavefurinn. 4. des. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69800>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig byrjaði galdrafárið á Íslandi og hvert var hlutverk almennings?
Hugtakið „galdrafár“ hlýtur að taka mið af ofsóknum í garð meintra galdranorna og galdrakarla, fremur en athöfnum þeirra sem slíkra. Slíkar ofsóknir urðu hvað ákafastar í flestum löndum Vestur-Evrópu á síðustu árum 16. aldar og fram eftir 17. öld, þannig að tugir þúsunda voru teknar af lífi, einkum konur. Á Íslandi fer best á því að miða upphaf galdrafársins við það þegar þrír karlar voru brenndir í Trékyllisvík haustið 1654. Reyndar hafði það gerst árið 1625 í Svarfaðardal að Jón Rögnvaldsson var brenndur fyrir að vekja upp draug og senda hann til að valda öðrum manni skaða og drepa hross. Sú brenna var á skjön við dóma í galdramálum á þeim árum, svo sem Jón Guðmundsson lærða sem „einungis“ var dæmdur til útlegðar af landinu. Hugsanleg skýring á brennunni er að Magnús Björnsson, sem var nýtekinn við sem sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og nýkominn frá námi í Danmörku, kann að hafa heillast af galdrabrennum þar, sem voru í hámæli einmitt þá. Einnig hefur hann þekkt konungsbréf frá árinu 1617 sem kvað á um ströng viðurlög við göldrum, en hafði enn ekki verið kynnt á Íslandi.

Á Íslandi fer best á því að miða upphaf galdrafársins við það þegar þrír karlar voru brenndir í Trékyllisvík haustið 1654. Á myndinni sjást þrjár nornir brenndar í Baden í Sviss seint á 16. öld.

Annálar greina frá því að haustið 1652 og fram eftir vetri hafi borið á óróleika af völdum ills anda eða draugs sem stundaði það við messugjörð í kirkjunni að Árnesi í Trékyllisvík að hlaupa ofan í kverkar fólks, svo það ropaði viðstöðulaust og kastaði upp. Einkum bitnaði þetta á ungum konum, sem varð að bera út úr kirkjunni. Böndin bárust að Þórði Guðbrandssyni bónda í Munaðarnesi, sem mun hafa verið um fimmtugt. Fyrir rétti í Árnesi 24. apríl 1654 var hann sakaður um að vera valdur að þeim „stóra óttasama krankdómi og pínu“ sem hefði þjakað konur í hreppnum „af óhreins anda ónáðan.“ Meginforsenda ákærunnar var að hann hafði ekki viljað að vinnukona hans Guðrún Hróbjartsdóttir færi heim til að hjálpa móður sinni. Tveir þeirra manna sem kærðu Þórð voru bræður Guðrúnar og þegar þeir höfðu sótt hana veiktist hún og þegar hún fór aftur að Munaðarnesi batnaði henni. Í framhaldinu hófust ósköpin og ekki ber á öðru en að allir sem komu að málinu á þessu stigi hafi verið sannfærðir um að einfaldasta og sennilega skýringin væru galdrar.

Sýslumaður hálfrar Strandasýslu var Þorleifur Kortsson, sem átti eftir að láta að sér kveða í galdramálum. Á þinginu kvaðst Þórður vera saklaus af öllum ákærum en viðstaddir töldu líklegt að hann hefði valdið óróleikanum. Hann var því dæmdur til að sverja tylftareið um sakleysi sitt. Málið var síðan sent til Magnúsar Björnssonar lögmanns, sem á sínum tíma hafði dæmt Jón Rögnvaldsson til dauða. Hann staðfesti dóminn 9. júní og hið sama gerðu lögréttumenn á alþingi á Þingvöllum 1. júlí. Tylftareiður fól það í sér að sýslumaður nefndi tólf menn úr sveitinni sem áttu að taka afstöðu til ákærunnar. Sjö þeirra urðu að vera sammála Þórði til þess að hann næði fram eiðnum og hann sjálfur yrði hinn áttundi, en að auki fékk hann að velja fjóra menn með sér til sönnunar, svonefnda fangavotta. Þetta var í samræmi við reglur í lögbókinni Jónsbók frá 1281 og menn urðu að gera það upp við samvisku sína gagnvart guði hvort þeir væru með eða á móti. Sýslumenn lögðu mönnum ekki til skoðanir en þrýstu oft á að afstaðan væri skýr. Greinilegt er að ekki vildi nokkur maður í sveitinni vinna eiðinn með Þórði, sem gefur til kynna að gervallt samfélagið, ef svo má segja, var á því að hann hefði beitt göldrum. Nokkrir sveitungar hans kærðu hann og aðrir dæmdu.

Mál Þórðar var aftur tekið fyrir í Árnesi 19. september og voru sýslumenn þá báðir viðstaddir, Þorleifur og Jón Magnússon. Næstu tvo daga var Þórður ítarlega yfirheyrður og tók séra Þorvarður Magnússon í Árnesi virkan þátt í því. Á endanum gekkst Þórður við því að einhvern daginn hefði hann séð djöfulinn í líki tófu nærri bænum á Munaðarnesi og hefði hann „þann sama djöful sært með þeim orðum illum og góðum sem hann frekast kunnað hefði fram til Víkur.“ Ekki var hann spurður frekar út í það hvernig þetta hefði átt að fara fram eða hvernig sendingin gat hafa valdið ókyrrðinni í Árneskirkju, heldur var hann rakleiðis dæmdur „undir þann dauða sem þeim ógjörningi hæfir og sannreyndum galdramönnum ber með að straffast.“

Þórður Guðbrandsson gekkst við því 19. september árið 1654 að hafa séð djöfulinn í líki tófu nálægt bænum á Munaðarnesi. Hann var brenndur á báli tveimur dögum síðar.

Á meðan Þórður var yfirheyrður birtist annar karl úr sveitinni, Egill Bjarnason, og beinlínis stærði sig af því á staðnum að hafa drepið nokkra sauði með göldrum, en jafnframt að hann hefði gert samkomulag við djöfulinn „með ristingum, blóðvökum og naglaskurði, og það hvorttveggja gefið andskotanum til sáttmála af sínum eigin líkama.“ Hann gat látið fjandann gera hvað sem var! Sýslumenn og þingmenn litu til nú Jónsbókar og konungsbréfsins frá 1617, með skýlausri niðurstöðu:

Þar fyrir dæmum vér nefndir dómsmenn í nafni drottins vors Jesú Kristi áðurgreindan mann Egil Bjarnason sannan óbótamann og undir þann dauða og straff sem réttum galdramanni ber og hæfir að hafa sem bæði hér í landi og öðrum framandi kristnum löndum viðgengist hefur hingað til dags.

Hér ýkja dómsmenn um fordæmi innanlands, því eiginlega kemur ekki til greina að fram að þessu hafi aðrir en Jón Rögnvaldsson verið brenndir fyrir galdra, en það mál hafa þeir þekkt.

Þann 21. september, strax að gengnum dómum, voru Þórður og Egill brenndir saman á einu báli. Þá kom þriðji maðurinn fram á sjónarsviðið, Grímur Jónsson, og var handtekinn, enda hafði Þórður lýst því „áður en honum var í eldinn kastað“ að hann væri mestur þeirra í göldrum. Grímur kom fyrir dóm 23. september og kemur fram að hann hafði áður legið undir grun eða sætt ámæli fyrir iðkun galdra: „öll þingsóknin í þessum Árneshrepp og jafnvel ærlegir utansveitar dánumenn leikir og lærðir meðkenna sig það heyrt hafa, og sjálfur Grímur sagði sig um galdra ryktaðan vera.“ Hann játaði þegar á sig ótrúlegustu sakir og enn frekar tveimur dögum síðar:
  • Á þinginu teiknaði hann galdrastaf sem hann nefndi augnaþurs og átti að verjast því að fiskur væri étinn úr hjöllum.
  • Einnig þuldi hans galdra-, bölvunar- og særingavers sem viðstaddir svo gátu ekki munað og hann harðneitaði að endurtaka nokkuð svo það fengist skrifað niður.
  • Hann hafði áður fengið galdrarúnarspjald hjá Þórði Guðbrandssyni til að verjast tófu sem beit lömb.
  • Hann hafði rist galdrastaf á fjöl og kastað á kind, sem drapst.
  • Hann hafði manað og sært djöfulinn til illra verka.
  • Hann hafði skilið eftir rúnaspjald á stað þar sem hann bjó, áður en hann flutti þaðan nauðugur, næsta ábúanda til skaða og tjóns.
  • Eftir rifrildi við mágkonu sína hafði hann valdið veikindum hennar og dauða.

Viðstaddir voru sannfærðir um að Grímur með þessu væri uppvís að göldrum og enginn vildi mæla honum bót „eða hann afsaka þessum aðskiljanlegum atvikum og galdrahnykkjum.“ Hvar sem hann hafði deilt við menn hafði eitthvað gerst, og þetta vissu allir: „hvör atvik almennilega voru af öllum í aðskiljanlegan máta framsögð héðan og þaðan.“ Um refsinguna vísuðu dómsmenn fyrst í 2. Mósebók, þar sem kveðið er á um dauðarefsingu fyrir hvers kyns galdra, en síðan í konungsbréf 1617, Jónsbók og kristinrétt Grágásar. Og af því Grímur játaði þurfti heldur ekki frekari vitna við og hann var „í nafni heilagrar þrenningar“ dæmdur til dauða „svo að hann skuli í eldi brenndur verða sem réttur særinga- og galdramaður.“ Hann var brenndur samdægurs.

Óróleikinn hélt reyndar áfram og var Margrét dóttir Þórðar sökuð um að bera ábyrgð á því, en flúði og tókst nokkrum árum síðar að komast frá málinu með eiði. Allt þetta mál sýnir ótvírætt að galdratrú var landlæg, jafnt meðal ráðamanna sem almennings. Menn gátu valdið veikindum og jafnvel dauða, sært djöfulinn og teiknað stafi til að verjast óhöppum. Almenningur varð fyrir barðinu á þessu og fólk var ekki feimið við að kæra meinta galdramenn, jafnvel þótt dauðadómur og aftaka blöstu við. Tugir galdramála sem heimildir eru varðveittar um næstu áratugi sýna það sama. Nægir að nefna fullyrðingar í garð Ara Pálssonar í Arnarfirði, svo sem það að 17. október 1680 átti að hafa komið að Bjarna nokkrum Guðmundssyni mikill ótti „með yfirnáttúrlegum hita, sem og myrkri fyrir augunum.“ Samtímis drapst hundur með þeim hætti „að hann hafi fram undan pallinum á höfuðið hrotið og að baðstofudyrunum þaðan aftur og fram í göngin, þar teygðist hann sundur og saman, og síðan dauður lá.“ Nú á dögum væri fólk ávítt og skammað fyrir að segja svona vitleysu, en Ari var brenndur á Þingvöllum sumarið 1681. Galdrafárinu linnti fáum árum síðar en galdratrú lifði lengur, jafnvel nokkuð fram á 19. öld.

Heimildir:
  • Galdrar og siðferði í Strandasýslu á síðari hluta 17. aldar. Már Jónsson bjó til prentunar. Hólmavík: Strandagaldur 2008.
  • Ólafur Davíðsson, Galdur og galdramál á Íslandi. Reykjavík: Sögufélag 1940–1943.
  • Ólína Þorvarðardóttir, Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2000.

Myndir:...