Í raun má segja að öll dýr séu hæf til átu, það er vöðvar og aðrir mjúkir vefir. Stundum þarf að gera ýmis niðurbrotsefni óskaðleg svo sem ammoníum í hákarlakjöti. Þetta á einnig við um eitur sem dýr beita sér til varnar eða til þess að veiða önnur dýr, svo sem hjá ýmsum skriðdýrum og froskdýrum. Fjölmargir kannast við frásagnir Vilhjálms Stefánssonar (1879-1962) af leiðöngrum hans á norðurhjarann snemma á síðustu öld. Þar segir hann meðal annars frá því hvernig leiðangursmenn veiddu oft og suðu úlf og fannst Vilhjálmi úlfakjöt afar ljúft. Hundakjöt þykir einnig lostæti og er algengt að það sé á boðstólum í Suður-Kóreu og Kína. Víða er erfitt að nálgast kjöt rándýra, því oftar en ekki eru dýrin strangfriðuð (til dæmis birnir, kattardýr og úlfar) eða það þykir siðlaust að slátra þeim sér til matar eins og til dæmis á við um ketti og hunda á Vesturlöndum. Reyndar er hægt að fá úlfakjöt á veitingastöðum á nokkrum stöðum í Kanada og Alaska en það þykir vera nokkuð keimlíkt kjúklingakjöti. Skógarbjarnarkjöt er hægt að fá víða í Austur-Evrópu. Erfiðara er að nálgast kjöt smærri rándýra eða kattadýra, en þau eru þó vel æt líkt og aðrir fjarskyldari frændur þeirra. Til dæmis er ekki algengt að fólk leggi sér til munns mink eða ref hér á landi þó báðar tegundir séu talsvert veiddar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju eru til rándýr? eftir Pál Hersteinsson
- Af hverju éta rándýr kjöt en ekki plöntur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Eru háhyrningar hvalategund? Eru hvalir rándýr? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvaða kosti hefur kjötát fram yfir grænmetisát (ef mjólkurvarnings er neytt líka)? eftir Björn Sigurð Gunnarsson
- Hvað þurfa krókódílar að vera stórir til að við getum borðað þá? eftir JGÞ