Eru Íslendingar hátt á heimslista yfir tíðni hjarta- og æðasjúkdóma?Kransæðasjúkdómar sem valda blóðþurrð eru algeng birtingarmynd hjarta- og æðasjúkdóma. Nýgengi kransæðasjúkdóma á Íslandi hefur farið stöðugt lækkandi undanfarna þrjá áratugi. Samkvæmt gögnum úr Hjartaáfallaskrá Landlæknisembættisins sem er í umsjá Hjartaverndar og nær til allra tilfella kransæðasjúkdóms á landinu meðal karla og kvenna á aldrinum 25-74 ára, hefur nýgengi kransæðasjúkdóms lækkað um 65% frá 1981-2007 eða að jafnaði um 3,8% á ári. Sú lækkun samræmist þróun í dánartíðni vegna blóðþurrðar-hjartasjúkdóma (e. ischemic heart disease) en þá lækkun má að miklu leyti skýra með hagstæðri þróun áhættuþátta svo sem blóðþrýstings, kólesteróls og reykinga.[1] Í nýlegri evrópskri úttekt á 50 löndum kemur fram að dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma hefur almennt lækkað mikið í Evrópu á tíu ára tímabili en þó mismikið milli landa [2]. Hjá körlum lækkaði dánartíðnin vegna hjarta- og æðasjúkdóma að jafnaði um 20% en 21% hjá konum. Samsvarandi tíu ára lækkun á Íslandi var 31% og 34% sem er svipað meðallækkun innan Norðurlandanna. Dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi er áþekk því sem sést á hinum Norðurlöndunum. Norðurlöndin teljast almennt hafa fremur lága tíðni eða ríflega tvöfalt lægri en heildarmeðaltal allra Evrópulandanna og eru í lægri helmingnum hvað varðar dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Austur-Evrópulönd hafa hæstu tíðnina en lægsta tíðnin er í Suður-Evrópu til dæmis á Frakklandi og Spáni. Það er enn svigrúm til frekari lækkunar í nýgengi kransæðasjúkdóma, bæði á Íslandi sem og annars staðar, því er mikilvægt er að viðhalda áreiðanlegum skráningum á kransæðasjúkdómum og að fylgjast áfram með þróun áhættuþátta. Tilvísanir:
- ^ Aspelund T. et al. Analysing the Large Decline in Coronary Heart Disease Mortality in the Icelandic Population Aged 25-74 between the Years 1981 and 2006. PLoS ONE 5(11).
- ^ Nichols M, Townsend N, Scarborough P, Rayner M. Cardiovascular disease in Europe 2014: epidemiological update. Eur Heart J. 35(42):2950-9.
- Hjartavernd 2015.
- Mynd unnin upp úr Nichols 2014.