Áætlað er að reykingar hafi árlega kostað að meðaltali 263 Íslendinga lífið á tímabilinu 1995-2004.
Heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn á Alþingi um dauðsföll af völdum reykinga og var það svar unnið upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands, Lýðheilsustöð og Hjartavernd. Í því kemur fram að á tíu ára tímabili, frá 1995 til 2004, létust árlega að meðaltali 1.483 Íslendingar á aldrinum 30-89 ára. Áætlað er að á þessu tímabili megi að jafnaði rekja 263 dauðsföll á ári til reykinga, eða 17,7%. Eðli málsins samkvæmt er það nokkuð breytilegt á milli aldurshópa hversu algeng dauðsföll af völdum reykinga eru. Hlutfallslega eru reykingar algengari orsök dauðsfalla í yngri aldurshópunum. Sem dæmi þá er talið að á þessu tíu ára tímabili hafi að jafnaði um 30% (7 af 23) árlegra dauðsfalla kvenna á aldrinum 30-39 ára tengst reykingum en um 11,5% (21 af 185) dauðsfalla á ári í aldurshópnum 80-89 ára. Það er líka breytileiki eftir kyni. Frá 1995 til 2004 mátti rekja um fimmta hvert dauðsfall karla á aldrinum 30-69 ára til reykinga og nærri fjórða hvert dauðsfall kvenna. Þrátt fyrir að reykingar eigi þátt í svona mörgum dauðsföllum þá hefur þróunin verið í rétta átt. Til samanburðar var skoðað hvað reykingar hefðu átt þátt í mörgum dauðsföllum áratuginn á undan, 1985 til 1994. Þá kom í ljós að um 366 dauðsföll urðu vegna reykinga á ári að jafnaði fyrir alla aldurshópa, eða eitt dauðsfall á dag. Þessi fækkun dauðsfalla af völdum reykinga skýrist væntanlega að verulegu leyti af því að nokkuð hefur dregið úr reykingum á undanförnum áratugum eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað reykja margir á Íslandi? Hluti skýringarinnar kann líka að liggja í framförum í læknavísindum og greiningu og meðferð sjúkdóma. Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör um reykingar og sjúkdóma sem þeim tengjast, til dæmis:
- Hversu margir reykja? eftir EDS
- Eru óbeinar reykingar óhollar? eftir Jakobínu H. Árnadóttur
- Hversu margir deyja úr óbeinum reykingum? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Ef fólk greinist með krabbamein í lungum, hver eru stigin og hver er áætlaður líftími? eftir Höllu Skúladóttur
- Er allt krabbamein lífshættulegt? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Af hverju fær fólk krabbamein ef það reykir? eftir Jóhannes Björnsson
- Hvers vegna geta sumir reykt tóbak í 70-80 ár án þess að það hafi sýnileg áhrif til heilsubrests á þá? eftir Magnús Jóhannsson
- Eru sígarettur skaðlegri en vindlar, pípa eða munntóbak? eftir Öldu Ásgeirsdóttur og Emilía Dagnýju Sveinbjörnsdóttur