Sjúklingar á stigi III hafa dreifðari sjúkdóm, stærri æxli og dreifingu til fjarlægari eitlastöðva. Suma þeirra er hægt að lækna með aðgerð en ekki alla og er það einstaklingsbundið mat í öllum tilvikum. Sjúklingar á stigi IV hafa dreifingu sjúkdómsins (meinvörp) til annarra líffæra eins og til dæmis hins lungans, lifrar, nýrnahetta eða beina. Í þeim tilvikum er ekki hægt að fjarlægja æxlin með skurðaðgerð. Erfitt er að alhæfa um lífslíkur allra sjúklinga með lungnakrabbamein þar sem stigin eru mörg og einstaklingar eru mishraustir fyrir greiningu. Flestir eða um það bil 75% greinast á efri stigum sjúkdómsins (stigi III og IV) og beinist þá meðferðin að því að halda sjúkdómnum í skefjum, annað hvort með krabbameinslyfjagjöf og/eða geislameðferð ásamt annarri stuðningsmeðferð. Hin síðari ár hafa komið fram nýjungar í meðferð sem geta lengt lífstíma sjúklinga með lungnakrabbamein. Ef allir lungnakrabbameinssjúklingar eru teknir saman sem ein heild eru aðeins um 11-12% þeirra lifandi eftir 5 ár. Þessa tölu er þó ekki hægt að nota fyrir einstaklinga því lifitími fer algjörlega eftir aldri við greiningu, útbreiðslu sjúkdómsins, hvernig sjúkdómurinn svarar meðferð og fyrra heilsufari einstaklingsins. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um krabbamein, til dæmis:
- Hvernig myndast lungnakrabbamein? eftir Höllu Skúladóttur
- Hvert er algengasta krabbameinið af völdum reykinga? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Er allt krabbamein lífshættulegt? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvernig er krabbamein læknað? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Af hverju fær fólk krabbamein ef það reykir? eftir Jóhannes Björnsson