Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nýrun byrja að þroskast nokkuð snemma á fósturskeiði og þroskast hratt. Þroskun þeirra er líklega eitt besta dæmið um þróunarsögu mannsins á leið til nútímagerðar hans.
Nýru koma fyrst fram sem fornýru (e. pronephros) þegar fóstrið hefur þroskast í um þrjár vikur. Svipað fyrirbæri finnst í frumstæðum hryggdýrum og fara nýru nánast allra hryggdýra í gegnum þetta þroskastig. Fornýrað er ekki starfhæft en markar upphaf nýrnaþroskans sem fer af stað í byrjun fjórðu viku fósturþroskunar. Þetta fyrsta stig myndast á svokölluðu hálsasvæði fósturvísis, á framenda nýrnamyndunarstrengs (e. nephrogenic cord).
Næsta þroskunarstig er miðnýru (e. mesonephros). Þau eru fullkomnari gerð af nýrum og er að finna í bæði fiskum og froskdýrum. Miðnýru koma fram í lok fjórðu viku fyrir aftan hrörnandi fornýrun. Þessi vefur myndar súlu baklægt í líkamsveggnum og teygir sig fram í átt að hálsinum. Hann inniheldur svokallaða miðnýrarás sem opnast inn í þvag- og kynfærastokk. Æðhnoðrar eru til staðar og eru þeir með stuttar píplur sem tengjast miðnýrarásinni.
Myndin sýnir uppbyggingu fullþroska nýra.
Að lokum myndast síðnýru (e. metanephros) sem þroskast í hina endanlegu nýrnagerð. Þetta lokastig nýrnaþroskunar byrjar að myndast í fimmtu viku fósturþroskans og eru nýrun orðin að fullu starfhæf í kringum þá níundu.
Þroskun síðnýra hefst á því að knappur vex frá botni miðnýrarásarinnar og vex inn í miðlag miðnýrans. Þvagpípuknappurinn örvar þroskun nýrans úr miðlaginu sem þjappast í kringum hann. Eftir því sem vöxturinn heldur áfram lengist þvagpípuknappurinn til að halda í við líkamsvöxtinn. Nýrað færist þannig í raun upp úr grindarholinu í kviðarholið. Þvagpípuknappurinn klofnar í tvennt og myndar meginnýrabikara, síðan minni bikara og loks safnrásir. Síðnýramiðlagið verður að píplum og hver pípla festist á öðrum endanum við safnrás en á hinum myndast dæld fyrir æðhnoðra.
Þvagpípuknappurinn er nauðsynlegur til að virkja þroskun miðlags miðnýra og þvagpípuhetta er forsenda þess að knappurinn klofni í tvennt. Safnrásirnar eru nauðsynlegar til að sérhæfing nýrunga komi fram.
Hægt er að skoða tölvugerða mynd af þroskun þvagfæra (og þar með talið nýrna) og kynfæra karla hér og kvenna hér.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvenær á fósturgöngunni myndast nýrun?“ Vísindavefurinn, 3. desember 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6939.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2007, 3. desember). Hvenær á fósturgöngunni myndast nýrun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6939
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvenær á fósturgöngunni myndast nýrun?“ Vísindavefurinn. 3. des. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6939>.