Hvers vegna fær fólk nýrnasteina og hvers vegna leggjast þeir fekar á eldra fólk? Er einhver leið til að sporna við þeim?Nýrnasteinar eru einn af þeim sjúkdómum sem valda hvað sárustum verkjum. Erfitt er að bera saman verki en margir telja nýrnasteinaverki vera þá verstu sem þekkjast. Nýrnasteinar hafa hrjáð mannkynið frá alda öðli og hafa meðal annars fundist í um 7000 ára gamalli múmíu í Egyptalandi. Nýrnasteinar eru einn algengasti sjúkdómurinn í þvagfærum og ætla má að tíundi hver einstaklingur fái nýrnasteina einhvern tíma ævinnar. Sjúkdómurinn er töluvert algengari í körlum en konum og algengast er að fólk fái nýrnasteina á aldrinum 20-40 ára. Algengast er að fólk fái nýrnastein einu sinni og svo aldrei framar en sumir fá steina aftur og aftur. Á síðustu 20 árum hefur tíðni nýrnasteina farið vaxandi, ekki síst meðal kvenna, en ástæður þessarar aukningar eru óþekktar. Í þvagi er svo mikið af torleystum söltum að þau geta fallið út, myndað kristalla og steina. Til að hindra þetta eru í þvaginu sérstök lífræn efni sem koma í veg fyrir slíkar útfellingar. Ef þessi efni skortir eða þau starfa ekki rétt á viðkomandi einstaklingur það á hættu að fá nýrnasteina. Önnur ástæða fyrir nýrnasteinum er þegar óeðlilega mikið af þeim efnum sem mynda steinana er í þvaginu. Nýrnasteinar eru aðallega af fjórum gerðum. Lang algengastir eru kalsíumsteinar (kalsíumoxalat og kalsíumfosfat), miklu sjaldgæfari eru steinar sem orsakast af þvagfærasýkingu og ennþá sjaldgæfari eru steinar sem eingöngu eru myndaðir úr lífrænum efnum (þvagsýra eða sýstín). Kalsíumsteinar gefa skugga á röntgenmynd en hinir ekki. Mikilvægt er að greina á milli þessara tegunda steina vegna þess að meðferðin er allt önnur. Einnig þarf að útiloka vissa sjúkdóma, til dæmis í kalkkirtlum, hjá þeim sem fá síendurtekna kalsíumsteina. Frá nýrunum liggja þvagpípur niður í þvagblöðru og þaðan liggur síðan þvagrásin út á yfirborð líkamans. Steinar myndast næstum alltaf í nýrunum en valda mestum verkjum á leið sinni niður þvagpípurnar. Reyndar er talið að mjög margir nýrnasteinar séu svo litlir þegar þeir ganga niður að sjúklingurinn verði þeirra ekki var.
Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim?
Útgáfudagur
12.8.2004
Síðast uppfært
3.2.2021
Spyrjandi
Sandra Ólafsdóttir, f. 1986
Tilvísun
Magnús Jóhannsson. „Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn, 12. ágúst 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4459.
Magnús Jóhannsson. (2004, 12. ágúst). Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4459
Magnús Jóhannsson. „Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn. 12. ágú. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4459>.