Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim?

Magnús Jóhannsson

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvers vegna fær fólk nýrnasteina og hvers vegna leggjast þeir fekar á eldra fólk? Er einhver leið til að sporna við þeim?

Nýrnasteinar eru einn af þeim sjúkdómum sem valda hvað sárustum verkjum. Erfitt er að bera saman verki en margir telja nýrnasteinaverki vera þá verstu sem þekkjast. Nýrnasteinar hafa hrjáð mannkynið frá alda öðli og hafa meðal annars fundist í um 7000 ára gamalli múmíu í Egyptalandi.

Nýrnasteinar eru einn algengasti sjúkdómurinn í þvagfærum og ætla má að tíundi hver einstaklingur fái nýrnasteina einhvern tíma ævinnar. Sjúkdómurinn er töluvert algengari í körlum en konum og algengast er að fólk fái nýrnasteina á aldrinum 20-40 ára. Algengast er að fólk fái nýrnastein einu sinni og svo aldrei framar en sumir fá steina aftur og aftur. Á síðustu 20 árum hefur tíðni nýrnasteina farið vaxandi, ekki síst meðal kvenna, en ástæður þessarar aukningar eru óþekktar.

Í þvagi er svo mikið af torleystum söltum að þau geta fallið út, myndað kristalla og steina. Til að hindra þetta eru í þvaginu sérstök lífræn efni sem koma í veg fyrir slíkar útfellingar. Ef þessi efni skortir eða þau starfa ekki rétt á viðkomandi einstaklingur það á hættu að fá nýrnasteina. Önnur ástæða fyrir nýrnasteinum er þegar óeðlilega mikið af þeim efnum sem mynda steinana er í þvaginu.

Nýrnasteinar eru aðallega af fjórum gerðum. Lang algengastir eru kalsíumsteinar (kalsíumoxalat og kalsíumfosfat), miklu sjaldgæfari eru steinar sem orsakast af þvagfærasýkingu og ennþá sjaldgæfari eru steinar sem eingöngu eru myndaðir úr lífrænum efnum (þvagsýra eða sýstín). Kalsíumsteinar gefa skugga á röntgenmynd en hinir ekki. Mikilvægt er að greina á milli þessara tegunda steina vegna þess að meðferðin er allt önnur. Einnig þarf að útiloka vissa sjúkdóma, til dæmis í kalkkirtlum, hjá þeim sem fá síendurtekna kalsíumsteina.

Frá nýrunum liggja þvagpípur niður í þvagblöðru og þaðan liggur síðan þvagrásin út á yfirborð líkamans. Steinar myndast næstum alltaf í nýrunum en valda mestum verkjum á leið sinni niður þvagpípurnar. Reyndar er talið að mjög margir nýrnasteinar séu svo litlir þegar þeir ganga niður að sjúklingurinn verði þeirra ekki var.

Ferð steins niður þvagpípuna getur tekið frá fáeinum klukkustundum upp í nokkra daga eða jafnvel vikur. Á þeim tíma hefur sjúklingurinn meiri eða minni verki. Verkirnir geta verið svo miklir að sjúklingurinn er ósjálfbjarga, liggur og engist og kastar upp en þeir geta í öðrum tilvikum verið aðeins seiðingur eða ónot. Í byrjun er verkurinn venjulega staðsettur í síðunni aftantil en þegar steinninn færist niður undir þvagblöðru verða óþægindi frá blöðrunni og verkinn getur leitt niður í nára. Sjúklingurinn getur haft mikla þörf fyrir að pissa og þvaglátum fylgja oft sviði og verkir. Önnur einkenni nýrnasteina geta verið blóð í þvagi og sýking.

Ef steinn stíflar alveg rennsli um þvagpípu blæs nýrað út, hættir fljótlega að starfa og fer að skemmast ef þetta ástand stendur lengur en fáeinar vikur. Ef slíkri stíflu fylgir þvagfærasýking er ástandið miklu alvarlegra, jafnvel getur skapast hættuástand og varanleg skemmd á nýranu getur orðið á einum eða fáeinum sólarhringum. Í slíkum tilfellum er mjög mikilvægt að meðhöndla fljótt bæði stífluna og sýkinguna. Sýkingin er meðhöndluð með sýklalyfjum og steininn verður að fjarlægja, mola sundur eða þræða slöngu framhjá honum.

Talið er að talsvert yfir 90% allra nýrnasteina gangi niður hjálparlaust. Sumir steinar verða hins vegar svo stórir í nýranu að þeir eiga engan möguleika á að ganga niður og slíka steina verður að fjarlægja. Nú er orðið mjög algengt að steinar séu brotnir með steinbrjót en af slíkum tækjum eru til nokkrar gerðir. Flest slík tæki senda hljóðbylgjur í gegnum húðina og er þeim beint rakleitt að steininum með hjálp röntgenmyndavélar. Þegar vel tekst til molnar steinninn smám saman í sundur og brotin geta þá auðveldlega gengið niður. Við þetta sleppur sjúklingurinn við aðgerð og getur oftast farið heim samdægurs. Svona steinbrot geta tekið nokkurn tíma, þau eru heldur ekki sársaukalaus og sjúklingurinn fær deyfingu eða létta svæfingu á meðan.

Mikil bót er að slíkum steinbrjótum og þeir hafa bætt mjög mikið meðferð nýrnasteina. Þetta gengur þó ekki alltaf svona einfaldlega fyrir sig og þá verður að grípa til annarra ráða sem krefjast svæfingar, aðgerðar og sjúkrahúsvistar.

Besta ráðið til að hindra myndun nýrnasteina er að drekka nógu mikinn vökva til að þvagið verði meira en 2 lítrar á sólarhring. Þetta hljómar einfalt en reynist flestum erfitt til lengdar. Í kalsíumsteinum er oftast oxalat og þá er ráð að neyta ekki mikils magns af fæðutegundum sem innihalda mikið af því efni. Mikið af oxalati er til dæmis í ýmsum tegundum berja, súkkulaði, kakói, kaffi, kóladrykkjum, spínati og rabarbara. C-vítamín breytist að hluta til í oxalat í líkamanum en það er mjög einstaklingsbundið. Ekki er ástæða til að hætta neyslu þessara fæðutegunda og efna heldur gæta hófs.

Of lítið er vitað um ástæður nýrnasteina og þess vegna vitum við heldur ekki gjörla hvernig á að koma í veg fyrir myndun þeirra. Með áframhaldandi rannsóknum á þessu sviði getum við þó vænst árangurs á næstu árum.

Mynd: Jonny Pham Webpage

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

12.8.2004

Síðast uppfært

3.2.2021

Spyrjandi

Sandra Ólafsdóttir, f. 1986

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn, 12. ágúst 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4459.

Magnús Jóhannsson. (2004, 12. ágúst). Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4459

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn. 12. ágú. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4459>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru nýrnasteinar og hvað veldur þeim?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvers vegna fær fólk nýrnasteina og hvers vegna leggjast þeir fekar á eldra fólk? Er einhver leið til að sporna við þeim?

Nýrnasteinar eru einn af þeim sjúkdómum sem valda hvað sárustum verkjum. Erfitt er að bera saman verki en margir telja nýrnasteinaverki vera þá verstu sem þekkjast. Nýrnasteinar hafa hrjáð mannkynið frá alda öðli og hafa meðal annars fundist í um 7000 ára gamalli múmíu í Egyptalandi.

Nýrnasteinar eru einn algengasti sjúkdómurinn í þvagfærum og ætla má að tíundi hver einstaklingur fái nýrnasteina einhvern tíma ævinnar. Sjúkdómurinn er töluvert algengari í körlum en konum og algengast er að fólk fái nýrnasteina á aldrinum 20-40 ára. Algengast er að fólk fái nýrnastein einu sinni og svo aldrei framar en sumir fá steina aftur og aftur. Á síðustu 20 árum hefur tíðni nýrnasteina farið vaxandi, ekki síst meðal kvenna, en ástæður þessarar aukningar eru óþekktar.

Í þvagi er svo mikið af torleystum söltum að þau geta fallið út, myndað kristalla og steina. Til að hindra þetta eru í þvaginu sérstök lífræn efni sem koma í veg fyrir slíkar útfellingar. Ef þessi efni skortir eða þau starfa ekki rétt á viðkomandi einstaklingur það á hættu að fá nýrnasteina. Önnur ástæða fyrir nýrnasteinum er þegar óeðlilega mikið af þeim efnum sem mynda steinana er í þvaginu.

Nýrnasteinar eru aðallega af fjórum gerðum. Lang algengastir eru kalsíumsteinar (kalsíumoxalat og kalsíumfosfat), miklu sjaldgæfari eru steinar sem orsakast af þvagfærasýkingu og ennþá sjaldgæfari eru steinar sem eingöngu eru myndaðir úr lífrænum efnum (þvagsýra eða sýstín). Kalsíumsteinar gefa skugga á röntgenmynd en hinir ekki. Mikilvægt er að greina á milli þessara tegunda steina vegna þess að meðferðin er allt önnur. Einnig þarf að útiloka vissa sjúkdóma, til dæmis í kalkkirtlum, hjá þeim sem fá síendurtekna kalsíumsteina.

Frá nýrunum liggja þvagpípur niður í þvagblöðru og þaðan liggur síðan þvagrásin út á yfirborð líkamans. Steinar myndast næstum alltaf í nýrunum en valda mestum verkjum á leið sinni niður þvagpípurnar. Reyndar er talið að mjög margir nýrnasteinar séu svo litlir þegar þeir ganga niður að sjúklingurinn verði þeirra ekki var.

Ferð steins niður þvagpípuna getur tekið frá fáeinum klukkustundum upp í nokkra daga eða jafnvel vikur. Á þeim tíma hefur sjúklingurinn meiri eða minni verki. Verkirnir geta verið svo miklir að sjúklingurinn er ósjálfbjarga, liggur og engist og kastar upp en þeir geta í öðrum tilvikum verið aðeins seiðingur eða ónot. Í byrjun er verkurinn venjulega staðsettur í síðunni aftantil en þegar steinninn færist niður undir þvagblöðru verða óþægindi frá blöðrunni og verkinn getur leitt niður í nára. Sjúklingurinn getur haft mikla þörf fyrir að pissa og þvaglátum fylgja oft sviði og verkir. Önnur einkenni nýrnasteina geta verið blóð í þvagi og sýking.

Ef steinn stíflar alveg rennsli um þvagpípu blæs nýrað út, hættir fljótlega að starfa og fer að skemmast ef þetta ástand stendur lengur en fáeinar vikur. Ef slíkri stíflu fylgir þvagfærasýking er ástandið miklu alvarlegra, jafnvel getur skapast hættuástand og varanleg skemmd á nýranu getur orðið á einum eða fáeinum sólarhringum. Í slíkum tilfellum er mjög mikilvægt að meðhöndla fljótt bæði stífluna og sýkinguna. Sýkingin er meðhöndluð með sýklalyfjum og steininn verður að fjarlægja, mola sundur eða þræða slöngu framhjá honum.

Talið er að talsvert yfir 90% allra nýrnasteina gangi niður hjálparlaust. Sumir steinar verða hins vegar svo stórir í nýranu að þeir eiga engan möguleika á að ganga niður og slíka steina verður að fjarlægja. Nú er orðið mjög algengt að steinar séu brotnir með steinbrjót en af slíkum tækjum eru til nokkrar gerðir. Flest slík tæki senda hljóðbylgjur í gegnum húðina og er þeim beint rakleitt að steininum með hjálp röntgenmyndavélar. Þegar vel tekst til molnar steinninn smám saman í sundur og brotin geta þá auðveldlega gengið niður. Við þetta sleppur sjúklingurinn við aðgerð og getur oftast farið heim samdægurs. Svona steinbrot geta tekið nokkurn tíma, þau eru heldur ekki sársaukalaus og sjúklingurinn fær deyfingu eða létta svæfingu á meðan.

Mikil bót er að slíkum steinbrjótum og þeir hafa bætt mjög mikið meðferð nýrnasteina. Þetta gengur þó ekki alltaf svona einfaldlega fyrir sig og þá verður að grípa til annarra ráða sem krefjast svæfingar, aðgerðar og sjúkrahúsvistar.

Besta ráðið til að hindra myndun nýrnasteina er að drekka nógu mikinn vökva til að þvagið verði meira en 2 lítrar á sólarhring. Þetta hljómar einfalt en reynist flestum erfitt til lengdar. Í kalsíumsteinum er oftast oxalat og þá er ráð að neyta ekki mikils magns af fæðutegundum sem innihalda mikið af því efni. Mikið af oxalati er til dæmis í ýmsum tegundum berja, súkkulaði, kakói, kaffi, kóladrykkjum, spínati og rabarbara. C-vítamín breytist að hluta til í oxalat í líkamanum en það er mjög einstaklingsbundið. Ekki er ástæða til að hætta neyslu þessara fæðutegunda og efna heldur gæta hófs.

Of lítið er vitað um ástæður nýrnasteina og þess vegna vitum við heldur ekki gjörla hvernig á að koma í veg fyrir myndun þeirra. Með áframhaldandi rannsóknum á þessu sviði getum við þó vænst árangurs á næstu árum.

Mynd: Jonny Pham Webpage

...