Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru HeLa-frumur?

Arnar Pálsson

Árið 1951 innritaðist rúmlega þrítug kona, Henrietta Lacks (1920–1951), á John Hopkins-spítalann í Baltimore sem á þessum tíma var einn fárra spítala sem meðhöndluðu blökkufólk. Ástæða spítalavistarinnar var hnútur í kviðarholi sem læknar greindu síðan sem krabbamein á leginu. Því miður dugði meðferð ekki til að bjarga lífi hennar en hún lést október þetta sama ár. Seinna kom í ljós að orsökin var HPV-sýking sem er ein algengasta orsök leghálskrabbameins.

Henrietta Lacks (1920-1951)

Á meðan á meðferð Henríettu stóð voru frumur fjarlægðar úr æxlinu og setti vísindamaðurinn George Gey (1899-1970) þær í rækt, að Henríettu forspurðri. Á þeim tíma var vefjarækt ung fræðigrein. Frumur úr fólki og dýrum entust yfirleitt takmarkaðan tíma í rækt. Venjulegar líkamsfrumur geta bara skipt sér í nokkra daga eða vikur í ræktunarskál áður en þær sýna hrörnunarmerki og fara að deyja. Georg og félagar tóku hins vegar eftir því að æxlisfrumur Henríettu gátu skipt sér oftar, miklu oftar en aðrar frumur. Þær uxu hraðar og betur en allar aðrar frumur og áttu eftir að öðlast annað líf. Ástæðan fyrir því að þær entust lengur en aðrar frumur og virtust ekki hrörna er sú að æxlisfrumur brjóta reglur fjölfruma dýra þar sem þroskun og vöxtur er undir strangri stjórn (annars fara hlutföll vefja og líkamshluta úr böndum og fleira með).

Frumurnar hennar Henríettu Lacks hlutu nafnið HeLa-frumur. Þær hafa nú lifað í rúm 60 ár á tilraunastofu, sem er helmingi lengur en formóðir þeirra. Talað er um HeLa-frumulínur því þær eru allar komnar frá upprunalega sýninu úr krabbameini Henríettu Lacks. Þar sem hægt er að fjölga HeLa-frumum takmarkalaust má kalla þær ódauðlegar. Rót ódauðleikans er ensímflóki sem kallast telómerasi, sem verndar endalitninga. Ensímflókinn starfar ekki í líkamsfrumum en er ofvirkur í mörgum krabbameinsfrumum eins og HeLa.

Í vísindum skiptir miklu máli að gera tilraunir við staðalaðstæður. Frumulíffræðin fæddist um miðbik síðustu aldar og þarfnaðist vinnuhests sem reyndist vel á mismunandi tilraunastofum. HeLa-frumur urðu sá vinnuhestur. Frá 1951 hafa þær verið notaðar í meira en 67 þúsund rannsóknagreinar og liggja að baki um 11.000 einkaleyfa. Þær reyndust sérstaklega notadrjúgar fyrir rannsóknir á veirum. Jonas Salk (1914-1995) notaði til dæmis HeLa frumur til að þróa bóluefni gegn lömunarveiki. HeLa frumur hafa einnig reynst vel við rannsóknir á eitruðum efnum, krabbameinum, innviðum frumunnar og erfðasjúkdómum. Fjölmargar aðrar frumulínur eru nú í notkun, margar hverjar ættaðar úr æxlisvef sjúklinga. Frumurækt er flókinn búskapur og því selja einkafyrirtæki vottaðar frumur (HeLa og aðrar frumur) til að mæta þörf fyrir hreinleika og rekjanleika.

Mynd úr rafeindasmásjá af HeLa frumum sem hafa nýlokið skiptingu.

Nú er almennt viðurkennt að spyrja þurfi fólk hvort það vilji taka þátt í rannsóknum eða leyfi notkun á lífsýnum. Upplýst samþykki felur í sér að fólki er kynnt markmið rannsókna, væntanlegur ávinningur og mögulegar aðrar afleiðingar. Annað áður var og George Gey og aðrir veltu siðferðilegri hlið mála lítið fyrir sér þegar frumur Henríettu og annarra voru fyrst ræktaðar. Eins og áður kom fram var Henrietta ekki spurð og hvorki hún, eiginmaður hennar né börnin þeirra fimm vissu að frumur hefðu verið ræktaðar úr æxlinu og síðar orðið mikilvægar fyrir rannsóknir. Þótt Henrietta eða aðrir úr Lacks fjölskyldunni hafi ekki gefið leyfi fyrir notkun frumanna, úrskurðaði dómari í Kaliforníu að fyrirtækjum væri heimilt að selja HeLa-frumur. Röksemdin var sú að leifar sem falla til á spítölum væru ekki eign sjúklinga og mætti því hagnýta þær.

Lengi vel var lítill gaumur gefinn að sögu HeLa-frumna en undir lok síðustu aldar var farið að skoða uppruna þeirra. Árið 1996 var framlag Henríettu heiðrað af Morehouse-læknaskólanum í Atlanta, af yfirvöldum í Atlanta og Georgíufylki. Seinna hafa aðrir fylgt í kjölfarið og heiðrað framlag hennar. Árið 2010 kom út bók um Henríettu og frumurnar eftir Rebecca L. Skloot, Hið ódauðlega líf Henríettu Lacks (The Immortal Life of Henrietta Lacks). Þar er sagt frá því hversu fjölskyldan vissi lítið um frumurnar og eðli þeirra, og hversu sjaldan vísindamennirnir ræddu við fjölskylduna. Í bókinni spyr Deborah elsta dóttirin til að mynda „fyrst frumur móður okkar hafa gert svo mikið fyrir læknisfræðina, hví hafa börn hennar ekki efni á læknisþjónustu?“

Skjöldur til minningar um Henríettu Lacks í Clover í Virginíufylki.

Fyrir tveimur árum raðgreindu vísindamenn við EMBL-rannsóknarstofnunina í Heidelberg í Þýskalandi erfðamengi HeLa-frumnanna. Markmiðið var að birta gögnin opinberlega. Ætla mætti að þeir hefðu lært af mistökum fortíðar, en þeir ráðfærðu sig ekki við Lacks-fjölskylduna eins og eðlilegt hefði verið í þessu tilfelli. Erfðaupplýsingar eru nefnilega einkaupplýsingar sem njóta friðhelgis. Í kjölfar opinberrar gagnrýni var mynduð sex manna nefnd, með tveimur fulltrúum fjölskyldunnar, sem á að fjalla um siðferðileg álitamál tengd hagnýtingu erfðaupplýsinga HeLa-frumnanna. Málið snýst nefnilega ekki bara um friðhelgi Henríettu Lacks sem lést fyrir meira en 60 árum heldur einnig um afkomendur þar sem í erfðamengi foreldris eru miklar upplýsingar um erfðamengi afkvæmis.

Samantekt

  • Henrietta Lacks lést úr leghálskrabbamein 31 árs gömul.
  • Úr æxli hennar ræktuðust frumur, nefndar HeLa, sem kalla má ódauðlegar.
  • HeLa-frumur hafa verið nýttar í fjölmargar og merkilegar rannsóknir.
  • Henrietta Lacks var ekki spurð að því hvort nýta mætti lífsýni hennar.
  • Rétt er að fá upplýst samþykki áður en lífsýni eru nýtt til rannsókna.

Myndir:

Höfundur

Arnar Pálsson

erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við HÍ

Útgáfudagur

9.3.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Arnar Pálsson. „Hvað eru HeLa-frumur?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2015, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69338.

Arnar Pálsson. (2015, 9. mars). Hvað eru HeLa-frumur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69338

Arnar Pálsson. „Hvað eru HeLa-frumur?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2015. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69338>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru HeLa-frumur?
Árið 1951 innritaðist rúmlega þrítug kona, Henrietta Lacks (1920–1951), á John Hopkins-spítalann í Baltimore sem á þessum tíma var einn fárra spítala sem meðhöndluðu blökkufólk. Ástæða spítalavistarinnar var hnútur í kviðarholi sem læknar greindu síðan sem krabbamein á leginu. Því miður dugði meðferð ekki til að bjarga lífi hennar en hún lést október þetta sama ár. Seinna kom í ljós að orsökin var HPV-sýking sem er ein algengasta orsök leghálskrabbameins.

Henrietta Lacks (1920-1951)

Á meðan á meðferð Henríettu stóð voru frumur fjarlægðar úr æxlinu og setti vísindamaðurinn George Gey (1899-1970) þær í rækt, að Henríettu forspurðri. Á þeim tíma var vefjarækt ung fræðigrein. Frumur úr fólki og dýrum entust yfirleitt takmarkaðan tíma í rækt. Venjulegar líkamsfrumur geta bara skipt sér í nokkra daga eða vikur í ræktunarskál áður en þær sýna hrörnunarmerki og fara að deyja. Georg og félagar tóku hins vegar eftir því að æxlisfrumur Henríettu gátu skipt sér oftar, miklu oftar en aðrar frumur. Þær uxu hraðar og betur en allar aðrar frumur og áttu eftir að öðlast annað líf. Ástæðan fyrir því að þær entust lengur en aðrar frumur og virtust ekki hrörna er sú að æxlisfrumur brjóta reglur fjölfruma dýra þar sem þroskun og vöxtur er undir strangri stjórn (annars fara hlutföll vefja og líkamshluta úr böndum og fleira með).

Frumurnar hennar Henríettu Lacks hlutu nafnið HeLa-frumur. Þær hafa nú lifað í rúm 60 ár á tilraunastofu, sem er helmingi lengur en formóðir þeirra. Talað er um HeLa-frumulínur því þær eru allar komnar frá upprunalega sýninu úr krabbameini Henríettu Lacks. Þar sem hægt er að fjölga HeLa-frumum takmarkalaust má kalla þær ódauðlegar. Rót ódauðleikans er ensímflóki sem kallast telómerasi, sem verndar endalitninga. Ensímflókinn starfar ekki í líkamsfrumum en er ofvirkur í mörgum krabbameinsfrumum eins og HeLa.

Í vísindum skiptir miklu máli að gera tilraunir við staðalaðstæður. Frumulíffræðin fæddist um miðbik síðustu aldar og þarfnaðist vinnuhests sem reyndist vel á mismunandi tilraunastofum. HeLa-frumur urðu sá vinnuhestur. Frá 1951 hafa þær verið notaðar í meira en 67 þúsund rannsóknagreinar og liggja að baki um 11.000 einkaleyfa. Þær reyndust sérstaklega notadrjúgar fyrir rannsóknir á veirum. Jonas Salk (1914-1995) notaði til dæmis HeLa frumur til að þróa bóluefni gegn lömunarveiki. HeLa frumur hafa einnig reynst vel við rannsóknir á eitruðum efnum, krabbameinum, innviðum frumunnar og erfðasjúkdómum. Fjölmargar aðrar frumulínur eru nú í notkun, margar hverjar ættaðar úr æxlisvef sjúklinga. Frumurækt er flókinn búskapur og því selja einkafyrirtæki vottaðar frumur (HeLa og aðrar frumur) til að mæta þörf fyrir hreinleika og rekjanleika.

Mynd úr rafeindasmásjá af HeLa frumum sem hafa nýlokið skiptingu.

Nú er almennt viðurkennt að spyrja þurfi fólk hvort það vilji taka þátt í rannsóknum eða leyfi notkun á lífsýnum. Upplýst samþykki felur í sér að fólki er kynnt markmið rannsókna, væntanlegur ávinningur og mögulegar aðrar afleiðingar. Annað áður var og George Gey og aðrir veltu siðferðilegri hlið mála lítið fyrir sér þegar frumur Henríettu og annarra voru fyrst ræktaðar. Eins og áður kom fram var Henrietta ekki spurð og hvorki hún, eiginmaður hennar né börnin þeirra fimm vissu að frumur hefðu verið ræktaðar úr æxlinu og síðar orðið mikilvægar fyrir rannsóknir. Þótt Henrietta eða aðrir úr Lacks fjölskyldunni hafi ekki gefið leyfi fyrir notkun frumanna, úrskurðaði dómari í Kaliforníu að fyrirtækjum væri heimilt að selja HeLa-frumur. Röksemdin var sú að leifar sem falla til á spítölum væru ekki eign sjúklinga og mætti því hagnýta þær.

Lengi vel var lítill gaumur gefinn að sögu HeLa-frumna en undir lok síðustu aldar var farið að skoða uppruna þeirra. Árið 1996 var framlag Henríettu heiðrað af Morehouse-læknaskólanum í Atlanta, af yfirvöldum í Atlanta og Georgíufylki. Seinna hafa aðrir fylgt í kjölfarið og heiðrað framlag hennar. Árið 2010 kom út bók um Henríettu og frumurnar eftir Rebecca L. Skloot, Hið ódauðlega líf Henríettu Lacks (The Immortal Life of Henrietta Lacks). Þar er sagt frá því hversu fjölskyldan vissi lítið um frumurnar og eðli þeirra, og hversu sjaldan vísindamennirnir ræddu við fjölskylduna. Í bókinni spyr Deborah elsta dóttirin til að mynda „fyrst frumur móður okkar hafa gert svo mikið fyrir læknisfræðina, hví hafa börn hennar ekki efni á læknisþjónustu?“

Skjöldur til minningar um Henríettu Lacks í Clover í Virginíufylki.

Fyrir tveimur árum raðgreindu vísindamenn við EMBL-rannsóknarstofnunina í Heidelberg í Þýskalandi erfðamengi HeLa-frumnanna. Markmiðið var að birta gögnin opinberlega. Ætla mætti að þeir hefðu lært af mistökum fortíðar, en þeir ráðfærðu sig ekki við Lacks-fjölskylduna eins og eðlilegt hefði verið í þessu tilfelli. Erfðaupplýsingar eru nefnilega einkaupplýsingar sem njóta friðhelgis. Í kjölfar opinberrar gagnrýni var mynduð sex manna nefnd, með tveimur fulltrúum fjölskyldunnar, sem á að fjalla um siðferðileg álitamál tengd hagnýtingu erfðaupplýsinga HeLa-frumnanna. Málið snýst nefnilega ekki bara um friðhelgi Henríettu Lacks sem lést fyrir meira en 60 árum heldur einnig um afkomendur þar sem í erfðamengi foreldris eru miklar upplýsingar um erfðamengi afkvæmis.

Samantekt

  • Henrietta Lacks lést úr leghálskrabbamein 31 árs gömul.
  • Úr æxli hennar ræktuðust frumur, nefndar HeLa, sem kalla má ódauðlegar.
  • HeLa-frumur hafa verið nýttar í fjölmargar og merkilegar rannsóknir.
  • Henrietta Lacks var ekki spurð að því hvort nýta mætti lífsýni hennar.
  • Rétt er að fá upplýst samþykki áður en lífsýni eru nýtt til rannsókna.

Myndir:

...