Þegar Xanþippa sá okkur hljóðaði hún upp yfir sig og talaði líkt og konum er títt: „Ó, Sókrates! Nú tala vinir þínir við þig í síðasta sinn og þú við þá!“ Þá leit Sókrates til Krítons og mælti: „Kríton, láttu einhvern fara með hana heim.“ Einhverjir förunautar Krítons fóru þá burt með hana, en hún hljóðaði og barði sér á brjóst. (Fædon 60A, þýð. Sigurðar Nordal)Annar kunningi og lærisveinn Sókratesar, sem einnig ritaði um kennara sinn, var herforinginn og rithöfundurinn Xenofon (428 – 354 f.Kr.). Hann minnist á Xanþippu í rit sínu Samdrykkjunni (II.9-10). Þar er Sókrates að segja félögum sínum að konur standi körlum ekki að baki að neinu leyti nema að vísu hvað dómgreind og líkamlegt hreysti varðar og hann hvetur þá til að fræða eiginkonur sínar og kenna þeim hvaðeina sem þeir vilja að þær kunni. Þá spyr Antisþenes, einn viðstaddra, hvers vegna Sókrates geri þá ekki slíkt hið sama sjálfur og fræði Xanþippu sína í stað þess að búa með jafn erfiðri konu. Sókrates svarar því til að líkt og tamningamenn hafi meiri áhuga á skapstórum hestum og halda að ef þeir ráði við þá ráði þeir við hvaða hest sem er, telji hann sjálfur að ef hann geti búið með Xanþippu geti hann sömuleiðis átt vingott við hvern sem er.
Frá því á 4. öld f.Kr. þekktist sú saga að Sókrates hafi átt tvær eiginkonur, Xanþippu og Myrtó Aristídesardóttur. Hvorki Xenofon né Platon minnist á Myrtó en Platon nefnir að Sókrates hafi átt þrjá syni. Díogenes Laertíos (uppi á fyrri hluta 3. aldar) segir í ævisögu Sókratesar að hann hafi átt soninn Lamprókles með Xanþippu en synina Sófróniskos og Menexenos með Myrtó, síðari eiginkonu sinni (D.L. II.26). Díogenes kveðst styðjast við Aristóteles (384 – 322 f.Kr.) sem heimildarmann sinn en getur þess þó að í öðrum heimildum sé Myrtó talin fyrri eiginkona Sókratesar og Xanþippa síðari eiginkona hans. Enn aðrir, þar á meðal Satýros og Híeronýmos frá Ródos (báðir uppi á 3. öld f.Kr.), héldu því fram að sögn Díogenesar að Sókrates hafi verið kvæntur báðum konunum í einu, enda hafi verið skortur á körlum í Aþenu og lög hafi verið sett sem leyfðu aþenskum borgurum að kvænast einni aþenskri konu og eiga einnig börn með annarri. Í ævisögu Aristídesar segir sagnaritarinn Plútarkos (46 – 120) að Myrtó hafi verið barnabarn Aristódesar og að hún hafi búið með Sókratesi eftir að hún varð ekkja þrátt fyrir að hann hafi verið kvæntur annarri konu; hann hafi tekið hana undir sinn verndarvæng af því að hún var fátæk og gat ekki séð fyrir sér sjálf. Plútarkos nefnir sem heimildarmenn sína Demetríos frá Faleron (350 – 283 f.Kr.), Híeronýmos frá Ródos, Aristóxenos (fæddur milli 375 og 360 f.Kr.) og Aristóteles, hafi ritið Um ættgöfgi á annað borð verið réttilega eignað honum. Um ættgöfgi er á lista Díogenesar yfir ritverk Aristótelesar en það er því miður ekki að finna meðal varðveittra verka Aristótelesar. Þess má geta að á Myrtó er einnig minnst ásamt Xanþippu í ritinu Halkýónu (Halk. 8) sem er frá um 150 f.Kr. – 50 e.Kr. og er ranglega eignað Platoni. Öllum heimildum ber því saman um að kona Sókratesar hafi heitið Xanþippa en um Myrtó er á hinn bóginn vandi að segja með vissu. Svör um tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvenær var Sókrates uppi og hverjir voru foreldrar hans? eftir HMH
- Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? eftir Hrannar Baldursson
- Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? eftir Hauk Má Helgason
- „Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi? eftir Geir Þ. Þórarinsson