Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér allt um hrúðurkarla?

Jón Már Halldórsson

Hrúðurkarlar eru öllum fjöruförum að góðu kunnir enda með mest áberandi dýrum í fjörum hérlendis. Það sem öllum er kannski ekki ljóst er að hrúðurkarlar eru krabbadýr (Crustacea) líkt og til dæmis krabbar, humrar, rækjur og margfætlur.

Hrúðurkarlar eru flokkaðir innan hóps skelskúfa (Cirripedia) og eru sennilega sá hópur dýra sem er mest ummyndaður frá upphaflegu grunnbyggingarlagi. Þeir eru svo frábrugðnir öðrum krabbadýrum að lengi vel voru þeir flokkaðir innan fylkingar lindýra (Mollusca), eða þar til fyrir um 150 árum þegar menn fundu þeim stað innan fylkingar krabbadýra. Þetta gerðist í kjölfar rannsókna á lirfum hrúðurkarla sem nefnast nauplius-lirfur og eru áþekkar lirfrum margra annarra krabbadýra í útliti, svo sem árfætla (Copepoda). Dýrafræðingurinn Louis Agassiz (1807-1873) orðaði það svo að hrúðurkarlar væru í rauninni ekkert annað en rækjur á hvolfi inni í kalkhúsi sem spörkuðu fæðunni í munninn á sér.



Fjörukarlar (Semibalanus balanoides) eru algengustu hrúðurkarlar við strendur Íslands.

Mest áberandi einkenni hrúðurkarla og flestra annarra skelskúfa er hin rammgerða skel sem umlykur þá að mestu. Skelin er gerð úr kalkplötum og minnir óneitanlega á skeljar lindýra (Mollusca) sem er helsta ástæða þess að skelskúfar voru áður taldir til þeirrar fylkingar. Innan við kalkplöturnar eru hreyfanlegar þynnri plötur sem dýrið notar til að loka sig alveg af inni í skelinni. Fætur skelskúfa eru ummyndaðir í bursta (e. cirri) og nýtast því ekki til gangs, en þegar skelskúfar eru á lirfustigi festa þeir sig varanlega við heppilegt undirlag. Burstarnir gera þeim kleyft að veiða smáar fæðuagnir úr vatninu.

Um 1.200 tegundir eru þekktar innan hóps skelskúfa. Þeir festa sig allir við eitthvað undirlag sem getur verið til dæmis klettur eða annað dýr. Innan hópsins hafa komið fram fjölmargar tegundir sem lifa sem sníkjudýr á ýmsum dýrum. Sem dæmi má nefna að tegundir innan hópsins Rhizocephala eru eingöngu sníkjudýr og lifa aðallega á tífættum kröbbum (Decapoda). Þessir skelskúfar eru mjög frábrugðnir þeim tegundum sem helst einkenna flokkinn, svo sem fjörukarlinum (sjá umfjöllun neðar). Þeir hafa ekki kalkskel og eru mjúkir og sekklaga. Þeir hafa jafnframt enga fætur né bursta.

Tegundin Lernaeodiscus procellanea tilheyrir hópi Rhizocephala. Eins og aðrar tegundir þessa hóps lifir hún sníkjulífi á öðrum krabbadýrum. Kvendýrin berast á lirfustigi í tálkn á kröbbum og festa sig þar. Þar fara þær gegnum ummyndunarstig og skjóta svo þráðum inn í hýsilinn. Þær mynda jafnframt einskonar æxlunarhol sem í fyllingu tímans er frjóvgað af karldýri. Hvernig karldýrin finna kvendýrin þegar þau hafa komið sér svo rækilega fyrir í tálknum hýsilkrabbans er ekki vitað en talið er að efnaboðskipti af einhverju tagi komi þar við sögu.

Þroskunarferill skelskúfa

Úr eggjum skelskúfa koma áðurnefndar nauplius-lirfur. Eftir að þær klekjast út synda þær um og éta smásæjar lífrænar agnir sem þær komast í snertingu við. Það lirfustig sem kemur næst er svokallað cypris-stig. Á þessu lirfustigi étur hrúðurkarlinn ekkert en syndir um í leit að heppilegum stað til að festa sig á. Rannsóknir hafa sýnt að cypris-lirfan getur lifað í allt að 13 daga. Hún festir sig við heppilegt undirlag með því að seyta límkenndu efni undan einum fætinum og getur þannig fest sig við grjót, rekavið eða skel, jafnvel í straumþungum fjörum.



Nauplius-lirfa er fyrsta þroskunarstig allra krabbadýra (Crustacea).

Eftir að lirfan hefur komið sér fyrir gengur hún í gegnum nokkur þroskastig. Hún fer að seyta efnum sem verða uppistaðan í kalkskelinni sem verður vörn hennar gegn afræningjum, þurrki og fleiri þáttum sem kunna að ógna tilvist hennar.

Það fylgja því nokkur vandræði að vera fastur á sama stað allt sitt fullorðinslífs. Þetta getur ekki síst verið vandamál þegar kemur að æxlun. Skelskúfar eru tvíkynja (e. hermaphrodite) en frjóvga yfirleitt ekki sjálfan sig þannig að tveir einstaklingar verða að ná saman til að æxlun eigi sér stað. Skelskúfar leysa þennan vanda á tvennan hátt. Í fyrsta lagi virðast þeir setjast að þar sem margir skelskúfar eru til staðar. Hér er um einhvers konar efnasamskipti að ræða milli áfastra skelskúfa og cypris-lirfunnar. Í öðru lagi er getnaðarlimur karldýranna mun lengri en dýrið sjálft. Við æxlun virðist limur getað leitað uppi heppilegan nágranna og frjóvgað hann.

Flokkun

Skelskúfar skiptast í fjóra flokka:
  • Thoracica: Þessar tegundir lifa oftar en ekki gistilífi á annarri dýrategund. Flokkurinn greinist frekar í undirflokkana:
    • Lepadomorpha: Þessar tegundir hafa stilk sem þær festa við undirlag. Dæmi um tegundir eru helsingjanef (Lepas anatifera).
    • Verrucomorpha: Ósamhverfir botnlægir hrúðurkarlar, umluktir kalkplötum. Dæmi um tegundir sem finnast hér við land er vörtukarl (Verruca stroemia).
    • Balanomorpha: Samhverfir botnlægir hrúðurkarlar. Dæmi um tegundir er fjörukarlinn (Semibalanus balanoides).

  • Acrothoracica: Skellausir hrúðurkarlar sem oftar en ekki finnast grafnir inni í kóröllum eða samlokum.
  • Ascothiracica: Skellausir hrúðurkarlar sem lifa sem sníkjudýr á skrápdýrum og kóröllum.
  • Rhizocephala: Skellausir hrúðukarlar sem lifa fyrst og fremst sem sníkjudýr á tífættum kröbbum og mönduldýrum.

Íslenskir skelskúfar

Sá hrúðurkarl sem er mest áberandi í íslenskum fjörum er fjörukarl (Semibalanus balanoides). Útbreiðslusvæði hans afmarkast af lagnarís í norðri og sjávarhita í suðri, en til að fjörukarlinn geti þroskast eðlilega þarf hitastig sjávar að vera undir 7,2 °C. Hann finnst því allt frá Svalbarða og Finnmörku í Noregi suður til Spánar, og er meðal annars algengur við strendur Bretlandseyja. Fjörukarlinn er um það bil 2,5 til 7,5 cm á lengd. Eins og aðrir skelskúfar er hann er tvíkynja en getur þó ekki frjóvgað sig sjálfur. Hann æxlast með svokallaðri krossæxlun þar sem tveir fjörukarlar frjóvga hvor annan samtímis.

Helsingjanef (Lepas anatifera).

Víða á útbreiðslusvæði sínu, til dæmis á Íslandi, er fjörukarlinn ráðandi tegund í klettafjörum. Hann kemur sér iðulega fyrir neðarlega í fjörunni eða festir sig við annað hart undirlag svo sem skipsskrokka, hvali eða skildi sæskjaldbaka. Ekki er vitað með vissu hvað stýrir helst staðavali hans en talið er að þættir eins og vatnsflæði, birta og gerð undirlags hafi þar áhrif.

Helstu afræningjar fjörukarlsins eru ýmsir fjörusniglar. Hér á landi er það einkum nákuðungurinn (Nucella lapillus) sem nýtir sér hann til matar.

Helsingjanef (Lepas anatifera) er mjög frábrugðin fjörukörlum, en ólíkt þeim festa þau sig við undirlagið með nokkur konar stilk. Skelinn er einnig nokkuð frábrugðin en hún minnir á fuglsgogg. Algengast er að helsingjanef komi sér fyrir á talsverðu dýpi, en það þekkist þó að þau komi sér fyrir á einhverju rekaldi og geta þá borist með því upp í fjöru.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild:
  • Barnes. 1987. Invertebrate Zoology. Saunder College publishing.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

15.11.2007

Síðast uppfært

29.6.2018

Spyrjandi

Thelma Lind Jóhannsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um hrúðurkarla?“ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2007, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6905.

Jón Már Halldórsson. (2007, 15. nóvember). Getið þið sagt mér allt um hrúðurkarla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6905

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um hrúðurkarla?“ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2007. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6905>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér allt um hrúðurkarla?
Hrúðurkarlar eru öllum fjöruförum að góðu kunnir enda með mest áberandi dýrum í fjörum hérlendis. Það sem öllum er kannski ekki ljóst er að hrúðurkarlar eru krabbadýr (Crustacea) líkt og til dæmis krabbar, humrar, rækjur og margfætlur.

Hrúðurkarlar eru flokkaðir innan hóps skelskúfa (Cirripedia) og eru sennilega sá hópur dýra sem er mest ummyndaður frá upphaflegu grunnbyggingarlagi. Þeir eru svo frábrugðnir öðrum krabbadýrum að lengi vel voru þeir flokkaðir innan fylkingar lindýra (Mollusca), eða þar til fyrir um 150 árum þegar menn fundu þeim stað innan fylkingar krabbadýra. Þetta gerðist í kjölfar rannsókna á lirfum hrúðurkarla sem nefnast nauplius-lirfur og eru áþekkar lirfrum margra annarra krabbadýra í útliti, svo sem árfætla (Copepoda). Dýrafræðingurinn Louis Agassiz (1807-1873) orðaði það svo að hrúðurkarlar væru í rauninni ekkert annað en rækjur á hvolfi inni í kalkhúsi sem spörkuðu fæðunni í munninn á sér.



Fjörukarlar (Semibalanus balanoides) eru algengustu hrúðurkarlar við strendur Íslands.

Mest áberandi einkenni hrúðurkarla og flestra annarra skelskúfa er hin rammgerða skel sem umlykur þá að mestu. Skelin er gerð úr kalkplötum og minnir óneitanlega á skeljar lindýra (Mollusca) sem er helsta ástæða þess að skelskúfar voru áður taldir til þeirrar fylkingar. Innan við kalkplöturnar eru hreyfanlegar þynnri plötur sem dýrið notar til að loka sig alveg af inni í skelinni. Fætur skelskúfa eru ummyndaðir í bursta (e. cirri) og nýtast því ekki til gangs, en þegar skelskúfar eru á lirfustigi festa þeir sig varanlega við heppilegt undirlag. Burstarnir gera þeim kleyft að veiða smáar fæðuagnir úr vatninu.

Um 1.200 tegundir eru þekktar innan hóps skelskúfa. Þeir festa sig allir við eitthvað undirlag sem getur verið til dæmis klettur eða annað dýr. Innan hópsins hafa komið fram fjölmargar tegundir sem lifa sem sníkjudýr á ýmsum dýrum. Sem dæmi má nefna að tegundir innan hópsins Rhizocephala eru eingöngu sníkjudýr og lifa aðallega á tífættum kröbbum (Decapoda). Þessir skelskúfar eru mjög frábrugðnir þeim tegundum sem helst einkenna flokkinn, svo sem fjörukarlinum (sjá umfjöllun neðar). Þeir hafa ekki kalkskel og eru mjúkir og sekklaga. Þeir hafa jafnframt enga fætur né bursta.

Tegundin Lernaeodiscus procellanea tilheyrir hópi Rhizocephala. Eins og aðrar tegundir þessa hóps lifir hún sníkjulífi á öðrum krabbadýrum. Kvendýrin berast á lirfustigi í tálkn á kröbbum og festa sig þar. Þar fara þær gegnum ummyndunarstig og skjóta svo þráðum inn í hýsilinn. Þær mynda jafnframt einskonar æxlunarhol sem í fyllingu tímans er frjóvgað af karldýri. Hvernig karldýrin finna kvendýrin þegar þau hafa komið sér svo rækilega fyrir í tálknum hýsilkrabbans er ekki vitað en talið er að efnaboðskipti af einhverju tagi komi þar við sögu.

Þroskunarferill skelskúfa

Úr eggjum skelskúfa koma áðurnefndar nauplius-lirfur. Eftir að þær klekjast út synda þær um og éta smásæjar lífrænar agnir sem þær komast í snertingu við. Það lirfustig sem kemur næst er svokallað cypris-stig. Á þessu lirfustigi étur hrúðurkarlinn ekkert en syndir um í leit að heppilegum stað til að festa sig á. Rannsóknir hafa sýnt að cypris-lirfan getur lifað í allt að 13 daga. Hún festir sig við heppilegt undirlag með því að seyta límkenndu efni undan einum fætinum og getur þannig fest sig við grjót, rekavið eða skel, jafnvel í straumþungum fjörum.



Nauplius-lirfa er fyrsta þroskunarstig allra krabbadýra (Crustacea).

Eftir að lirfan hefur komið sér fyrir gengur hún í gegnum nokkur þroskastig. Hún fer að seyta efnum sem verða uppistaðan í kalkskelinni sem verður vörn hennar gegn afræningjum, þurrki og fleiri þáttum sem kunna að ógna tilvist hennar.

Það fylgja því nokkur vandræði að vera fastur á sama stað allt sitt fullorðinslífs. Þetta getur ekki síst verið vandamál þegar kemur að æxlun. Skelskúfar eru tvíkynja (e. hermaphrodite) en frjóvga yfirleitt ekki sjálfan sig þannig að tveir einstaklingar verða að ná saman til að æxlun eigi sér stað. Skelskúfar leysa þennan vanda á tvennan hátt. Í fyrsta lagi virðast þeir setjast að þar sem margir skelskúfar eru til staðar. Hér er um einhvers konar efnasamskipti að ræða milli áfastra skelskúfa og cypris-lirfunnar. Í öðru lagi er getnaðarlimur karldýranna mun lengri en dýrið sjálft. Við æxlun virðist limur getað leitað uppi heppilegan nágranna og frjóvgað hann.

Flokkun

Skelskúfar skiptast í fjóra flokka:
  • Thoracica: Þessar tegundir lifa oftar en ekki gistilífi á annarri dýrategund. Flokkurinn greinist frekar í undirflokkana:
    • Lepadomorpha: Þessar tegundir hafa stilk sem þær festa við undirlag. Dæmi um tegundir eru helsingjanef (Lepas anatifera).
    • Verrucomorpha: Ósamhverfir botnlægir hrúðurkarlar, umluktir kalkplötum. Dæmi um tegundir sem finnast hér við land er vörtukarl (Verruca stroemia).
    • Balanomorpha: Samhverfir botnlægir hrúðurkarlar. Dæmi um tegundir er fjörukarlinn (Semibalanus balanoides).

  • Acrothoracica: Skellausir hrúðurkarlar sem oftar en ekki finnast grafnir inni í kóröllum eða samlokum.
  • Ascothiracica: Skellausir hrúðurkarlar sem lifa sem sníkjudýr á skrápdýrum og kóröllum.
  • Rhizocephala: Skellausir hrúðukarlar sem lifa fyrst og fremst sem sníkjudýr á tífættum kröbbum og mönduldýrum.

Íslenskir skelskúfar

Sá hrúðurkarl sem er mest áberandi í íslenskum fjörum er fjörukarl (Semibalanus balanoides). Útbreiðslusvæði hans afmarkast af lagnarís í norðri og sjávarhita í suðri, en til að fjörukarlinn geti þroskast eðlilega þarf hitastig sjávar að vera undir 7,2 °C. Hann finnst því allt frá Svalbarða og Finnmörku í Noregi suður til Spánar, og er meðal annars algengur við strendur Bretlandseyja. Fjörukarlinn er um það bil 2,5 til 7,5 cm á lengd. Eins og aðrir skelskúfar er hann er tvíkynja en getur þó ekki frjóvgað sig sjálfur. Hann æxlast með svokallaðri krossæxlun þar sem tveir fjörukarlar frjóvga hvor annan samtímis.

Helsingjanef (Lepas anatifera).

Víða á útbreiðslusvæði sínu, til dæmis á Íslandi, er fjörukarlinn ráðandi tegund í klettafjörum. Hann kemur sér iðulega fyrir neðarlega í fjörunni eða festir sig við annað hart undirlag svo sem skipsskrokka, hvali eða skildi sæskjaldbaka. Ekki er vitað með vissu hvað stýrir helst staðavali hans en talið er að þættir eins og vatnsflæði, birta og gerð undirlags hafi þar áhrif.

Helstu afræningjar fjörukarlsins eru ýmsir fjörusniglar. Hér á landi er það einkum nákuðungurinn (Nucella lapillus) sem nýtir sér hann til matar.

Helsingjanef (Lepas anatifera) er mjög frábrugðin fjörukörlum, en ólíkt þeim festa þau sig við undirlagið með nokkur konar stilk. Skelinn er einnig nokkuð frábrugðin en hún minnir á fuglsgogg. Algengast er að helsingjanef komi sér fyrir á talsverðu dýpi, en það þekkist þó að þau komi sér fyrir á einhverju rekaldi og geta þá borist með því upp í fjöru.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild:
  • Barnes. 1987. Invertebrate Zoology. Saunder College publishing.
...