Spurningin í heild sinni hljóðaði svona: Ég er að safna kröbbum og mig langar að vita á hverju þeir lifa. Ég fann þá undir steinum í fjörunni heima hjá mér.Af stórum tífættum kröbbum (decapoda) er algengast að rekast á bogkrabba (Carcinus menas) í fjörunni en einnig sjást þar trjónukrabbar (Hyas araneus) og kuðungakrabbi (Pagurus bernardus).
Trjónukrabbinn þekkist á skildi sem mjókkar fram í trjónu og af því dregur hann nafn sitt. Trjónukrabbar eru nokkuð stórir. Skjöldur karldýra getur orðið 8 cm langur og rúmir 6 cm hjá kvendýrum. Trjónukrabbar eru rándýr og éta allt úr dýraríkinu sem þeir ráða við. Þeir eru einnig hræætur og auðvelt er að lokka þá í gildru ef beitt er fiskúrgangi. Bogkrabbinn, sem stundum er nefndur strandkrabbi, er af svipaðri stærð og trjónukrabbi. Hann þekkist á bogadregnum skildi sem er breiðastur að framan. Hann er einnig rándýr og hrææta og étur allt sem kló á festir. Hann lifir neðarlega í fjörunni þar sem hitastig er hentugra fyrir hann en á veturna leitar hann dýpra niður í sjóinn. Kuðungakrabbinn er stundum nefndur einbúakrabbi. Hann heldur sig vanalega inni í kuðungi, þar sem hann leitar skjóls fyrir afræningjum. Fullorðnir krabbar velja sér oftast kuðunga beitukóngsins en minni krabbar koma sér fyrir í kuðungum smærri tegunda eins og þangdoppunnar. Þegar þeir stækka skipta þeir um kuðunga. Líkt og gildir um hinar tegundirnar eru þeir rándýr og hræætur.
Myndirnar eru fengnar af vefsetri Reykjavíkurhafnar og Csiro Marine Research