Svona lítur höfuðlúsin út í víðsjá.
Fullorðin höfuðlús er 2-3 millimetrar að stærð (svipað og sesamfræ), gráhvít eða ljósbrún á lit. Lífsferill hennar hefst í eggi sem kallað er nit. Á sex til tíu dögum klekst út úr nitinni pínulítil unglús (nymph), sem á 9-12 dögum þroskast og verður að fullorðinni karl- eða kvenlús. Fullorðnar lýs maka sig aðeins einu sinni og innan 24 klukkustunda frá mökun byrjar kvenlúsin að verpa og festa nitina á hár. Lúsin hefur sex fætur og sérhannaðar klær sem auðvelda henni að komast um í hárinu. Lúsiðn getur skriðið 6-30 cm á mínútu en getur ekki flogið, stokkið né synt. Lífslengd lúsa er allt að 30 dagar, en ef þær detta úr hárinu og lenda fjarri hlýjum, rökum og blóðríkum hársverðinum, veslast þær upp og deyja á 15-20 klukkustundum. Nit – lúsaregg
Egg lúsa kallast nit og getur kvendýrið verpt allt að tíu eggjum á dag. Hún "límir" þau við höfuðhár um það bil 1 cm frá hársverði með sérstöku efni sem hún framleiðir. Til þess að þau klekist út þarf hitinn að vera um 22 °C. Nit er um það bil 0,8 mm löng og sést með berum augum. Hún getur litið út eins og flasa en ólíkt flösu er nitin föst í hárinu. Þegar lúsin hefur klakist út sitja tóm egghylki áfram í hárinu og erfitt getur verið að sjá hvort þau eru full eða tóm. Ef þau eru hins vegar langt frá hársverðinum er líklegt að þau séu tóm eða lúsin í þeim dauð. Algengast er að finna nit í hárinu ofan við eyrun og við hárlínuna aftan á hnakkanum. Ekki er hægt að smitast af lús með nitinni. Smitleiðir
Lúsin getur farið á milli hausa ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli, en lúsin getur hvorki stokkið, flogið né synt. Höfuðlús sem fallið hefur úr höfði og út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þar af leiðandi ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Þess vegna er talið að smit með fatnaði og innanstokksmunum sé afar ólíklegt. Það er þó ekki hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli. Einkenni smits
Tveir af hverjum þremur sem smitaðir eru af höfuðlús hafa engin einkenni. Einn af hverjum þremur fær kláða. Kláðinn stafar af ofnæmi sem myndast með tímanum (frá nokkrum vikum að þremur mánuðum) gegn munnvatni lúsarinnar. Lúsin spýtir munnvatninu í hársvörðinn þegar hún sýgur blóð. Kláðinn getur orðið mikill og húðin roðnað og bólgnað þegar viðkomandi klórar sér. Í einhverjum tilfellum geta myndast sár sem sýking getur komist í. Greining
Leita þarf að lús í hárinu með nákvæmri skoðun, en það er best gert með kembingu með lúsakambi yfir hvítum fleti eða spegli. Nauðsynlegt er að hafa góða birtu. Mörgum finnst þægilegra að kemba blautt hár sem í er hárnæring (sjá nánari lýsingu um kembingu) en öðrum finnst þægilegra að kemba hárið þurrt. Finnist lús, jafnvel bara ein, er það merki um að viðkomandi er með höfuðlús og þarf meðferð með lúsadrepandi efni.
Nauðsynlegt er að eiga lúsakamb til að kemba hár í lúsaleit.
Ef lús finnst í hárinu er mælt með að setja efni í hárið sem drepur lúsina og endurtaka þá meðferð þegar 7 dagar eru liðnir frá fyrstu meðferð. Nokkur lúsadrepandi efni eru seld í íslenskum lyfjaverslunum án lyfseðils, til dæmis:
- Malathion-húðlausn 5 mg/ml í ísóprópýl alkóhóli (Prioderm®)
- Malathion-hársápa 10 mg/ml (Prioderm®)
- Permethrinum-hársápa 10 mg/ml (Nix®)
- Húðfleyti með dísúlfram 2 g og bensýlbensoat 22,5 g í 100 g (Tenutex®)
Rannsóknir hafa sýnt að jurtaseyði og ýmis gömul húsráð, svo sem að setja júgursmyrsli eða vaselín í hárið, majónes, ólívuolíu eða jurtaolíu, drepa ekki höfuðlýs. Ekki er hægt að mæla með notkun ilmolía í baráttunni við höfuðlús og líklegt að slíkt geri ekkert gagn, en engar rannsóknir eru til að styðja áhrif af notkun slíkra efna. Aldrei skal setja eldfim efni eða eitruð í hárið, svo sem bensín eða kerósón, né efni sem ætluð eru til nota á dýrum. Hvað skal gera ef meðferð bregst
Ef meðferð ber ekki árangur er líklegast að ekki hafi verið rétt staðið að henni, svo sem að ekki hafi verið notað rétt efni, ekki hafi verið sett nægilegt magn eða efnið ekki haft nógu lengi í hárinu. Einnig getur verið að endursmit hafi orðið frá sýktum einstaklingum í umhverfinu. Á Vesturlöndum hefur gætt ónæmis hjá höfuðlús fyrir öllum lúsalyfjum. Til að draga úr líkum á því að lúsin myndi ónæmi gegn lúsalyfjum er afar mikilvægt að meðhöndla aðeins þá sem greinast með lús og fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum um notkun efnanna. Ef lifandi lús er enn í hárinu eftir rétt framkvæmda meðferð getur hugsast að um ónæmi höfuðlúsarinnar gegn viðkomandi lúsalyfi sé að ræða. Í slíkum tilfellum skal hefja aðra meðferð með annarri tegund höfuðlúsadrepandi efnis og fara nákvæmlega eftir notkunarleiðbeiningum. Þrif í umhverfi
Ekki er þörf á sérstökum umhverfisþrifum til að ráða niðurlögum lúsasmits. Höfuðlýs eru til lítils megnugar þegar þær njóta ekki lengur hlýju höfuðhárs og hafa ekki aðgang að mannsblóði. Án þessa deyja þær á 15-20 tímum eða á innan við sólarhring. Ef talin er þörf á, til dæmis þar sem um ræðir sameiginlega greiðu eða bursta, er rétt að þvo slík áhöld með heitu sápuvatni eða hella yfir það heitu vatni og láta standa í nokkrar mínútur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig varð höfuðlúsin til? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvers vegna klæjar mann? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? eftir Karl Skírnisson
- Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra? eftir Jón Má Halldórsson
Þessi grein birtist upphaflega á vefsíðu Landlæknisembættisins og er birt hér í örlítið breyttri mynd með góðfúslegu leyfi.