Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig varð höfuðlúsin til?

Jón Már Halldórsson

Höfuðlúsin (Pediculus humanus capitis) og fatalúsin sem einnig er nefnd búklús (Pediculus humanus humanus) eru dæmi um útsníkla, en svo nefnast sníkjudýr sem lifa utan á öðrum lífverum. Ekki er mikill munur á þessum tveimur deilitegundum en vistfræði þeirra er nokkuð ólík. Eins og nafnið gefur til kynna lifa höfuðlýs í hári manna. Fatalúsin lifir hins vegar mestan hluta ævi sinnar í fatnaði en skríður reglulega að hörundinu til að éta skinnagnir og sjúga blóð. Nitina festir hún við fataþræði en höfuðlúsin festir sín nit við hárið. Hérlendis hefur fatalúsinni verið útrýmt en höfuðlúsin lætur reglulega á sér kræla í hári landsmanna.

Höfuðlúsin hefur að öllum líkindum fylgt mannskepnunni alla tíð. Lýs lifa sníkjulífi á öllum loðnum dýrategundum, meðal annars á náskyldum frændum okkar, öpunum. Fræðimenn telja að höfuðlúsin og lús sem á fræðimáli kallast Pediculus schaeffi og lifir á simpönsum nánustu ættingjum okkar, hafi verið ein og sama tegundin fyrir milljónum ára. Þegar forfeður manna greindust frá sameiginlegum forföður okkar og simpansa fyrir rúmum 5,5 milljónum ára aðgreindust lýsnar um leið. Með tímanum leiddi sá aðskilnaður til tveggja lúsategunda, Pediculus humanus og Pediculus schaeffi.


Milljónum árum seinna fóru menn að klæðast fötum. Sá áfangi var ekki aðeins merkilegur fyrir okkur mennina heldur einnig lýsnar. Á fötunum gátu lýsnar numið ný lönd og með tímanum varð svokölluð vistfræðileg aðgreining milli „gömlu“ höfuðlúsanna og þeirra sem settust að í fatnaði. Þá varð til ný deilitegund sem nefnist á fræðimáli Pediculus humanus humanus eða fatalús.

Aðskilnaður höfuðlúsa og fatalúsa hefur verið notaður til þess að reyna að áætla hvenær menn fóru að klæðast fötum. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem fólst í að bera saman erfðaefni (DNA) þessara tveggja deilitegunda og beita svokallaðri sameinda-klukkugreiningu (e. molecular clock analysis) út frá breytileika á erfðaefninu, benda til þess að viðskilnaður höfuð- og fatalúsa hafi orðið fyrir um 72 þúsund árum, að vísu með miklum skekkjumörkum, eða +/- 42 þúsund ár. Þar með er komið viðmið til að áætla hvenær menn tóku að klæðast fötum.


Þrátt fyrir að höfuðlúsin og fatalúsin séu mjög líkar í útliti telja fræðimenn að aðgreining þeirra sé algjör. Æxlunarrannsóknir hafa sýnt að ungviði af blönduðum uppruna eru að mestu ófrjó, en það styður þá tilgátu að hér sé um tvær aðskildar tegundir að ræða.

Þess má geta að til er enn ein tegund lúsa sem lifir sníkjulífi á okkur mönnunum. Það er hin alræmda flatlús (Phthirus pubis). Þessi tegund finnst yfirleitt á skapahárunum en getur einnig unað hag sínum vel í skeggi og jafnvel í augabrúm. Við rannsóknir á fornleifum í Reykholti frá síðari hluta miðalda hafa fundist flatlýs.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um sníkjudýr, til dæmis svör Karls Skírnissonar við spurningunum:

Heimildir og myndir:
  • Schmidt G. D og Roberts L, S. 1996. Foundations of Parasitology 5th. ed. W.C. Brown Publishers.
  • Kittler Ralf, Kayser, Manfred og Stoneking Mark. 2003. Molecular Evolution of Pediculus humanus and the Origin of Clothing. Current Biology, Vol 13, 1414-1417.
  • Barker, S. C. Whiting, M., Johnson, K. P. & Murrell, A. 2003. Phylogeny of the lice (Insecta: Phthiraptera) inferred from small subunit rRNA. — Zoologica Scripta, 32.
  • PiedPiper Northern Limited
  • The National Pediculosis Association

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

20.9.2004

Spyrjandi

Eva Örk Árnadóttir, f. 1996

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig varð höfuðlúsin til?“ Vísindavefurinn, 20. september 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4518.

Jón Már Halldórsson. (2004, 20. september). Hvernig varð höfuðlúsin til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4518

Jón Már Halldórsson. „Hvernig varð höfuðlúsin til?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4518>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig varð höfuðlúsin til?
Höfuðlúsin (Pediculus humanus capitis) og fatalúsin sem einnig er nefnd búklús (Pediculus humanus humanus) eru dæmi um útsníkla, en svo nefnast sníkjudýr sem lifa utan á öðrum lífverum. Ekki er mikill munur á þessum tveimur deilitegundum en vistfræði þeirra er nokkuð ólík. Eins og nafnið gefur til kynna lifa höfuðlýs í hári manna. Fatalúsin lifir hins vegar mestan hluta ævi sinnar í fatnaði en skríður reglulega að hörundinu til að éta skinnagnir og sjúga blóð. Nitina festir hún við fataþræði en höfuðlúsin festir sín nit við hárið. Hérlendis hefur fatalúsinni verið útrýmt en höfuðlúsin lætur reglulega á sér kræla í hári landsmanna.

Höfuðlúsin hefur að öllum líkindum fylgt mannskepnunni alla tíð. Lýs lifa sníkjulífi á öllum loðnum dýrategundum, meðal annars á náskyldum frændum okkar, öpunum. Fræðimenn telja að höfuðlúsin og lús sem á fræðimáli kallast Pediculus schaeffi og lifir á simpönsum nánustu ættingjum okkar, hafi verið ein og sama tegundin fyrir milljónum ára. Þegar forfeður manna greindust frá sameiginlegum forföður okkar og simpansa fyrir rúmum 5,5 milljónum ára aðgreindust lýsnar um leið. Með tímanum leiddi sá aðskilnaður til tveggja lúsategunda, Pediculus humanus og Pediculus schaeffi.


Milljónum árum seinna fóru menn að klæðast fötum. Sá áfangi var ekki aðeins merkilegur fyrir okkur mennina heldur einnig lýsnar. Á fötunum gátu lýsnar numið ný lönd og með tímanum varð svokölluð vistfræðileg aðgreining milli „gömlu“ höfuðlúsanna og þeirra sem settust að í fatnaði. Þá varð til ný deilitegund sem nefnist á fræðimáli Pediculus humanus humanus eða fatalús.

Aðskilnaður höfuðlúsa og fatalúsa hefur verið notaður til þess að reyna að áætla hvenær menn fóru að klæðast fötum. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem fólst í að bera saman erfðaefni (DNA) þessara tveggja deilitegunda og beita svokallaðri sameinda-klukkugreiningu (e. molecular clock analysis) út frá breytileika á erfðaefninu, benda til þess að viðskilnaður höfuð- og fatalúsa hafi orðið fyrir um 72 þúsund árum, að vísu með miklum skekkjumörkum, eða +/- 42 þúsund ár. Þar með er komið viðmið til að áætla hvenær menn tóku að klæðast fötum.


Þrátt fyrir að höfuðlúsin og fatalúsin séu mjög líkar í útliti telja fræðimenn að aðgreining þeirra sé algjör. Æxlunarrannsóknir hafa sýnt að ungviði af blönduðum uppruna eru að mestu ófrjó, en það styður þá tilgátu að hér sé um tvær aðskildar tegundir að ræða.

Þess má geta að til er enn ein tegund lúsa sem lifir sníkjulífi á okkur mönnunum. Það er hin alræmda flatlús (Phthirus pubis). Þessi tegund finnst yfirleitt á skapahárunum en getur einnig unað hag sínum vel í skeggi og jafnvel í augabrúm. Við rannsóknir á fornleifum í Reykholti frá síðari hluta miðalda hafa fundist flatlýs.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um sníkjudýr, til dæmis svör Karls Skírnissonar við spurningunum:

Heimildir og myndir:
  • Schmidt G. D og Roberts L, S. 1996. Foundations of Parasitology 5th. ed. W.C. Brown Publishers.
  • Kittler Ralf, Kayser, Manfred og Stoneking Mark. 2003. Molecular Evolution of Pediculus humanus and the Origin of Clothing. Current Biology, Vol 13, 1414-1417.
  • Barker, S. C. Whiting, M., Johnson, K. P. & Murrell, A. 2003. Phylogeny of the lice (Insecta: Phthiraptera) inferred from small subunit rRNA. — Zoologica Scripta, 32.
  • PiedPiper Northern Limited
  • The National Pediculosis Association

...