Milljónum árum seinna fóru menn að klæðast fötum. Sá áfangi var ekki aðeins merkilegur fyrir okkur mennina heldur einnig lýsnar. Á fötunum gátu lýsnar numið ný lönd og með tímanum varð svokölluð vistfræðileg aðgreining milli „gömlu“ höfuðlúsanna og þeirra sem settust að í fatnaði. Þá varð til ný deilitegund sem nefnist á fræðimáli Pediculus humanus humanus eða fatalús. Aðskilnaður höfuðlúsa og fatalúsa hefur verið notaður til þess að reyna að áætla hvenær menn fóru að klæðast fötum. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem fólst í að bera saman erfðaefni (DNA) þessara tveggja deilitegunda og beita svokallaðri sameinda-klukkugreiningu (e. molecular clock analysis) út frá breytileika á erfðaefninu, benda til þess að viðskilnaður höfuð- og fatalúsa hafi orðið fyrir um 72 þúsund árum, að vísu með miklum skekkjumörkum, eða +/- 42 þúsund ár. Þar með er komið viðmið til að áætla hvenær menn tóku að klæðast fötum.
Þrátt fyrir að höfuðlúsin og fatalúsin séu mjög líkar í útliti telja fræðimenn að aðgreining þeirra sé algjör. Æxlunarrannsóknir hafa sýnt að ungviði af blönduðum uppruna eru að mestu ófrjó, en það styður þá tilgátu að hér sé um tvær aðskildar tegundir að ræða. Þess má geta að til er enn ein tegund lúsa sem lifir sníkjulífi á okkur mönnunum. Það er hin alræmda flatlús (Phthirus pubis). Þessi tegund finnst yfirleitt á skapahárunum en getur einnig unað hag sínum vel í skeggi og jafnvel í augabrúm. Við rannsóknir á fornleifum í Reykholti frá síðari hluta miðalda hafa fundist flatlýs. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um sníkjudýr, til dæmis svör Karls Skírnissonar við spurningunum:
- Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar?
- Hvaða dýr leynast í rúmum og teppum landsmanna?
- Hvaða ormar lifa í meltingarvegi fólks á Íslandi?
- Hversu algengur er bandormur í mönnum á Íslandi?
- Schmidt G. D og Roberts L, S. 1996. Foundations of Parasitology 5th. ed. W.C. Brown Publishers.
- Kittler Ralf, Kayser, Manfred og Stoneking Mark. 2003. Molecular Evolution of Pediculus humanus and the Origin of Clothing. Current Biology, Vol 13, 1414-1417.
- Barker, S. C. Whiting, M., Johnson, K. P. & Murrell, A. 2003. Phylogeny of the lice (Insecta: Phthiraptera) inferred from small subunit rRNA. — Zoologica Scripta, 32.
- PiedPiper Northern Limited
- The National Pediculosis Association