Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Líklegt er að landnámsmenn hafi flutt ketti með sér til Íslands strax á 9. öld líkt og önnur húsdýr; hunda, kindur, geitur, svín, nautgripi og hesta. Húsdýrin þjónuðu öll ákveðnum tilgangi en kettir hafa að líkindum verið fluttir til landsins til að hafa hemil á músagangi (Páll Hersteinsson, 2004). Til að fræðast meira um ketti til forna á Íslandi má skoða ritheimildir og fornleifar.
Kattabein finnast ekki oft í fornleifarannsóknum á Íslandi en þeim fer þó fjölgandi eftir því sem meira er greint af dýrabeinum og nú eru þekkt kattabein frá flestum tímabilum Íslandssögunnar og víða af landinu. Kattabein hafa fundist í þremur uppgröftum frá víkingaöld; á Alþingisreit, í kumlateig í Þegjandadal og á Hofstöðum í Mývatnssveit. Þess vegna er hægt að slá því föstu að kettir hafi verið ein af þeim dýrategundum sem landnemar komu með við landnám (Albína Hulda Pálsdóttir, 2013; Brewington, 2010; McGovern, 2009).
Sköflungur úr ketti sem fannst í gólflagi frá víkingaöld við uppgröft á Alþingisreit í miðbæ Reykjavíkur.
Á Hofstöðum í Mývatnssveit var grafinn upp skáli frá 10. – 12. öld ásamt jarðhýsum og ruslahaugum. Þar fannst mikið af vel varðveittum dýrabeinum en talið er að skálinn hafi meðal annars verið notaður til mikilla veisluhalda í kringum árið 1000. Þar fundust hauskúpur af nautgripum sem benda til þess að fram hafi farið blóðugar fórnir á þeim tíma sem heiðni og kristni eru að takast á í kringum árið 1000 (Lucas, 2009; Lucas og McGovern, 2007; McGovern, 2009). Kattabein fundust í jarðlögum frá 10. – 11. öld innan úr skálanum á Hofstöðum en einnig fundust kattabein í ruslahaugum tengdum skálanum. Alls fundust fundust 13 bein úr köttum á Hofstöðum (McGovern, 2009; McGovern o.fl., 2006, bls. 192).
Einn sköflungur úr fullvöxnum ketti fannst í gólflagi frá 10.-11. öld við fornleifauppgröft á Alþingisreit í miðbæ Reykjavíkur. Á víkingaöld var á Alþingisreit vinnusvæði þar sem meðal annars fór fram járnvinnsla (Albína Hulda Pálsdóttir, 2013, bls. 16, 39–40; Vala Björg Garðarsdóttir, 2013).
Merkilegasti kattabeinafundur á Íslandi er frá kumlateignum í Þegjandadal í grennd við bæinn Ingiríðarstaði við Skjálfandaflóa. Þar fannst beinagrind af ketti í holu ásamt brenndu broti af höfuðkúpu úr manni og óbrenndum beinum af kindum/geitum, nautgripum og einu svínsbeini (Brewington, 2010, bls. 5; Prehal, 2011, bls. 38–40; Roberts, Elín Hreiðarsdóttir og Unnsteinn Ingason, 2010, bls. 5). Ekki voru nein ummerki á kattarbeinunum sem bentu til þess að kötturinn hafi verið fláður og líklega var um að ræða heila beinagrind dýrs sem var sérstaklega grafið (Brewington, 2010, bls. 5). Kattabeinagrindin frá Þegjandadal vekur upp margar spurningar en kattabein hafa aldrei áður fundist í tengslum við kuml á Íslandi en beinagrindur hesta og hunda eru hins vegar algengar í íslenskum kumlum. Ef til vill hefur kettinum verið fórnað í tengslum við einhverskonar trúarathöfn. Kettir hafa verið tengdir Freyju sem var frjósemisgyðja og einnig er ýmislegt sem bendir til þess að kettir hafi verið stöðutákn á víkingaöld vegna þess hve sjaldgæfir þeir voru (Prehal, 2011). Uppgreftri á kumlateignum í Þegjandadal er ólokið og vel má vera að fleiri óvæntir fundir komi þar í ljós.
Kettir hafa verið tengdir Freyju sem var frjósemisgyðja í norrænni goðafræði. Hér er Freyja í vagni sem dreginn er af köttum.
Ekki er hægt að útiloka að kettir hafi verið fluttir til Íslands til að rækta og nýta af þeim skinnin. Víða í Evrópu hafa fundist kattabein með skurðarförum sem benda til þess að kettir hafi verið fláðir og skinnin nýtt til dæmis í fatnað. Í Óðinsvéum í Danmörku fannst pyttur frá því í kringum árið 1000 með nokkrum fjölda kattabeina af 68 einstaklingum. Flestir kettirnir voru um árs gamlir en að auki voru nokkrar eldri læður í safninu sem höfðu sennilega verið nýttar til undaneldis. Köttunum var líklega öllum slátrað á svipuðum tíma og flest bendir til þess að þeir hafi verið ræktaðir sérstaklega til að nýta af þeim skinnin. Á útlimum og höfuðkúpum var mikið af skurðarförum en beinin voru flest heilleg að öðru leyti (Hatting, 1990).
Í Grágás er getið um kattarskinn sem lögmætan gjaldeyri (Mál og menning, 1992, bls. 476, 478) sem getur bent til þess að þetta hafi einnig tíðkast hér á landi þó ekki hafi enn fundist fornleifar sem styðja það. Fræg er einnig lýsing af útbúnaði Þorbjargar lítilvölvu spákonu á Grænlandi í Eiríks sögu rauða. Hún hafði hatt klæddan að innan með kattarskinni og „... hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.“ (Netútgáfan, 1997). Ekkert af þeim kattarbeinum sem fundist hafa á Íslandi til þessa er með neinum ummerkjum um fláningu og því virðist líklegast að kettir hafi fyrst og fremst verið nýttir til að halda músum í skefjum hér á landi. Þó er ekki hægt að útiloka að þeir hafi tengst helgisiðum í einhverjum tilfellum.
Í Grágás, elsta varðveitta íslenska lagasafninu, eru kettir sérstaklega nefndir sem eitt af þeim dýrum sem ekki má leggja sér til munns en einnig eru þar talin upp hross, hundar, refir og hræfuglar og er refsingin fjörbaugsgarður (Mál og menning, 1992, bls. 32). Sjaldgæft er að ummerki finnist um að kettir hafi verið étnir en við fornleifauppgröft á Cambridge í Englandi fundust bein úr 79 köttum í brunni frá 13. öld en á beinunum var mikið af skurðar- og höggförum. Talið er að kettirnir hafi verið hálfvilltir og hafi verið veiddir og étnir, hugsanlega þegar hungursneyð gekk yfir (Luff og García, 1995).
Heimildir:
Albína Hulda Pálsdóttir. (2013). Dýrabeinin frá Alþingisreit IV. fasi (871-1226): Uppgröftur 2008-2012 (nr. 2013-1). Skýrslur Íslenskra fornleifarannsókna ehf. Reykjavík: Íslenskar fornleifarannsóknir ehf.
Brewington, S. (2010). Report: Analysis of Animal Bones Recovered During 2010 Excavations at Ingiríðarstaðir (ING), N Iceland (nr. 51). NORSEC Zooarchaeology Laboratories Report (bls. 8). NABO Research Cooperative.
Hatting, T. (1990). Cats from Viking Age Odense. Journal of Danish Archaeology, 9(1), 179–193. doi:10.1080/0108464X.1990.10590042.
Lucas, G. (2009). Hofstaðir: Excavations of a Viking Age Feasting Hall in North-Eastern Iceland. Institute of Archaeology Monograph series. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands.
Lucas, G. og McGovern, T. (2007). Bloody Slaughter: Ritual Decapitation and Display At the Viking Settlement of Hofstaðir, Iceland. European Journal of Archaeology, 10(7), 7–30. doi:DOI: 10.1177/1461957108091480.
Luff, R. M. og García, M. M. (1995). Killing Cats in the Medieval Period. An unusual episode in the history of Cambridge, England. Archaeofauna, 4, 93–114.
Mál og menning. (1992). Grágás: lagasafn íslenska þjóðveldisins. Reykjavík.
McGovern, T. (2009). Chapter 4: The Archaeofauna. Í G. Lucas (Ritstj.), Hofstaðir: Excavations of a Viking Age Feasting Hall in North-Eastern Iceland, Institute of Archaeology Monographs (bls. 168–252). Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands.
McGovern, T. H., Perdikaris, S., Einarsson, A. og Sidell, J. (2006). Coastal connections, local fishing, and sustainable egg harvesting: patterns of Viking Age inland wild resource use in Myvatn district, Northern Iceland. Environmental Archaeology, 11(2), 187–205.
Páll Hersteinsson. (2004). Heimilisköttur. Í Páll Hersteinsson (Ritstj.), Íslensk spendýr (bls. 110–111). Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Prehal, B. (2011). Freyja’s Cats: Perspectives on Recent Viking Age Finds in?Þegjandadalur North Iceland (Masters thesis ). Hunter College, The City University of New York, New York.
Albína Hulda Pálsdóttir. „Hvenær komu kettir fyrst til Íslands?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68850.
Albína Hulda Pálsdóttir. (2015, 25. mars). Hvenær komu kettir fyrst til Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68850
Albína Hulda Pálsdóttir. „Hvenær komu kettir fyrst til Íslands?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68850>.