Til þess að skjaldbökur geti makast þurfa kynin að samhæfa mjög líkamsstöðu sína vegna skjaldarins. Auk þess þurfa þau að vefja saman hölum sínum til þess að þarfagangar þeirra nái að snertast. Þegar þessir tálmar tveir, skjöldurinn og halinn, eru frá þá getur karldýrið komið getnaðarlim sínum inn í þarfagang kvendýrsins og skilað sæði sínu þangað þannig að frjóvgun geti orðið. Þess má geta getnaðarlimur skjaldbaka er venjulega inni í þarfaganginum nema við æxlun. Áður en að sjálfri æxluninni kemur, þá fer oft fram flókið mökunaratferli sem getur verið mjög breytilegt eftir tegundum, allt frá nokkuð grófri árás karldýranna á kvendýr, til hljóðmerkja sem eiga að örva eða vekja kvendýrið til mökunar. Sem dæmi má nefna að karldýr af ættkvísl geislaskjaldbaka (Geochelone spp.) berjast um hylli kvendýra með því að slá saman hausunum. Sá sem sigrar ræðst með ofbeldisfullum hætti að kvendýrinu sem baráttan stóð um, bítur hana í hnakkann og heldur henni meðan hann æxlast við hana. Þetta minnir mjög á mökun kattardýra.
Öfugt við ofbeldisfullt mökunaratferli geislaskjaldbaka eru biðilsleikir tegunda af ættkvísl blesskjaldbaka (Trachemysmun) blíðlegri. Karldýrin synda afturábak fyrir framan kvendýrin með framfæturna sperrta, snerta laust hausinn á þeim og mynda sérkennilegan titring. Þetta leiðir til örvunar hjá kvendýrunum og gerir þau áhugasöm um mökun. Litmerki eru einnig hluti af mökunaratferli nokkurra tegunda svo sem hinnar asísku batagur-skjaldböku (Batagus baska) og argentínsku snúðhálsunnar (Phrynops hilarii). Á mökunartímanum fá höfuð og fætur karldýranna skærlitaðan blæ sem merkir að þau eru á biðilsbuxunum og það á að örva kvendýrin. Slíkt þekkist víðar í dýraríkinu svo sem hjá löxum svo algengt dæmi sé tekið. Vísindavefurinn hefur orðið var við nokkurn áhuga á því hvernig hin ýmsu dýr auka kyn sitt. Þeir sem vilja fræðast meira á þessu sviði geta skoðað eftirfarandi svör:
- Hvernig fjölga fuglar sér?
- Hvernig hafa fuglar mök?
- Hvað geta krókódílar orðið stórir og hvernig æxlast þeir?
- Hvernig fjölga hvalir sér?
- Hvernig fjölga flugur sér?
- Hvernig æxlast smokkfiskar?
- Hvernig flokkast skjaldbökur?
- Getið þið sagt mér það helsta um skjaldbökur?
- Af hverju eru skjaldbökur með skjöld?
- Dupre, A. 2006. Turtles of the World. A & C Black Publishers Ltd.
- Ernst, C.H., og Barbour, R.W. 1989. Turtles of the World. Smithsonian Inst. Press, Washington, D.C.
- Mynd: The Pacific Islands Regional Office of the National Marine Fisheries Service - ljósmyndari Malia Rivera
- Mynd: Australian Marine Conservation Society
- Með því að smella hér má sjá myndir af æxlun snákhálsa.