Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers konar tónlistarmaður var Mozart og hvernig kynnti hann sér verk barrokkmeistaranna?

Árni Heimir Ingólfsson

Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) er frægasta undrabarn sögunnar og einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður sem uppi hefur verið. Óperur hans, sinfóníur, konsertar og kórverk eru lykilverk klassíska skeiðsins (þess tímabils tónlistarsögunnar sem varði frá um 1740–1820) og hann er almennt talinn einn mesti tónlistarmaður sem sögur fara af.

Mozart var tvímælalaust eitt helsta óperutónskáld sögunnar. Hæfileikar hans fólust ekki síst í óvenjulegu næmi á innra líf sögupersónanna, sem gerði honum kleift að semja tónlist sem speglar hræringar sálarinnar hverju sinni. Fjallað er um nokkrar frægustu óperur Mozarts í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um óperur Mozarts?

Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791). Mynd frá 1782 eftir mág hans Joseph Lange.

Þótt óperusmíðar væru eftirlætisiðja Mozarts gat hann ekki lifað af þeim eingöngu. Um árabil var það einkum í píanókonsertunum sem snilligáfa Mozarts fékk að blómstra og þeir voru jafnframt hans helsta tekjulind. Konsertarnir sem Mozart samdi í Vínarborg eru með merkustu tónsmíðum hans og þeir opnuðu honum dyr að frægð og frama. Sem píanóleikari stóðst honum enginn snúning og í konsertum sínum kannaði hann möguleika hljóðfærisins bæði hvað snerti tækni og tjáningu. Athygli tónleikagesta hélt hann með því að bjóða upp á eitthvað nýtt í hvert sinn og því samdi hann alls 14 konserta á fjórum árum, frá 1782 til 1786. Hann hitti á hárrétta formúlu eins og hann ritaði föður sínum sigri hrósandi undir lok árs 1782:

Konsertarnir eru einmitt miðja vegu milli þess að vera of flóknir og of auðmeltir – þeir eru glæsilegir, láta vel í eyrum, blátt áfram án þess að vera innantómir. Hér og þar eru kaflar sem aðeins kunnáttufólk getur notið til fulls, en þó með þeim hætti að einnig hinir fávísari hljóta að vera ánægðir þótt þeir viti ekki hvers vegna.

Píanókonsertinn var á uppleið einmitt um það leyti sem Mozart samdi meistaraverk sín. Um 1780 heyrðust píanókonsertar sjaldnar en til dæmis konsertar fyrir fiðlu, flautu, klarínett eða horn, en áratug síðar var hljóðfærið komið í hóp þeirra vinsælustu í þessari tónlistargrein. Framlagi Mozarts til konsertformsins má með réttu líkja við framlag Haydns til sinfóníunnar – hann lagði grunn að nýju tónlistarformi til framtíðar.

Á síðustu árum sínum kappkostaði Mozart að dýpka klassíska stílinn með þykkari tónavef og auknum kontrapunkti, eins og lokaþáttur Júpíter-sinfóníunnar (í C-dúr, K. 551) er til marks um. Hann kynnti sér eftir megni tónlist barokkmeistaranna þótt slíkt væri vandkvæðum bundið enda var flest verka þeirra aðeins að finna í handritum. Mozart gat aftur á móti treyst á vináttu sína við lærdómsmann sem veitti honum frjálsan aðgang að ómetanlegu nótnasafni sínu. Gottfried van Swieten var barón að tign og í miklum metum meðal aðalsins í Vínarborg, faðir hans var lyflæknir keisaraynjunnar og sjálfur gegndi Gottfried háum stöðum í embættiskerfinu. Hann fór með menntamál í keisaradæminu en stundaði tónlist af kappi þegar næði gafst. Í apríl 1782 ritaði Mozart föður sínum: „Á hverjum sunnudegi klukkan 12 fer ég til van Swietens baróns, þar sem ekkert er spilað nema Händel og Bach.“ Swieten safnaði einnig saman hópi aðalsmanna í félagsskapinn Gesellschaft der Associierten og lét undir merkjum hans flytja í Vínarborg óratoríur eftir Händel og önnur barokkskáld. Frá 1788–91 fékk hann Mozart til að útsetja þessi verk fyrir „nútíma“ hljómsveit með fullri áhöfn tréblásturshljóðfæra til viðbótar við strengi, til dæmis Messías árið 1789. Það var ekki síst fyrir áhrif Swietens að Mozart komst í tæri við barokktónlist sem annars lá ekki á lausu.

Mozart var ótrúlega afkastamikið og fjölhæft tónskáld og einn mesti tónlistarsnillingur sögunnar.

Kynni Mozarts af tónlist Bachs voru meðal þess sem helst setti svip á tónlist hans síðustu árin; með kontrapunkti og fúguskrifum opnuðust honum nýjar leiðir í sköpun sinni. Þegar hann átti leið um Leipzig árið 1789 kom hann við í Tómasarkirkjunni þar sem Bach hafði sjálfur starfað. Þegar Mozart steig inn í kirkjuna heyrði hann kórinn syngja tveggja kóra mótettu Bachs, Singet dem Herrn ein neues Lied (Syngið Drottni nýjan söng). Mótettur Bachs voru Mozart með öllu ókunnar enda höfðu þær þá ekki ratað á prent. Sjónarvottur sagði að Mozart hefði sperrt eyrun og sett upp undrunarsvip um leið og söngurinn hófst. „Eftir nokkra takta í viðbót hrópaði hann: „Hvað er þetta?“ Og nú var eins og sál hans öll hefði tekið sér búsetu í eyrunum. Þegar söngurinn var á enda kallaði hann glaður upp yfir sig: „Loksins eitthvað sem hægt er að læra af!“.“

Það voru þó ekki aðeins kynnin af tónlist Bachs sem settu svip á verk Mozarts á síðasta skeiði ævinnar. Hann tefldi djarft í tónsmíðum sínum, notaði ómstríða tóna og krómatík í meiri mæli en flestir samtímamenn hans. Á síðustu æviárum sínum fékk Mozart það orð á sig að vera „erfitt“ tónskáld. Árið 1788 birtist í tónlistartímaritinu Magazin der Musik klausa þar sem fréttaritari blaðsins fullyrðir að Mozart sé „hæfileikaríkasti og besti hljómborðslistamaður sem ég hef nokkru sinni heyrt“ en þó stefni hann „of hátt“ í listrænum tónsmíðum sínum. Nýir strengjakvartettar hans voru „of sterkt kryddaðir“ að mati skríbentsins, „og hvaða bragðlaukar geta þolað slíkt til lengdar?“ Jafnvel var haft eftir sjálfum keisaranum að tónlist Mozarts væri „of erfið til söngs“.

Mozart hafði tekið út feiknarlegan músíkalskan þroska á örfáum árum og gerði í tónlist sinni bæði tilfinningalegar og vitsmunalegar kröfur sem fáir samtímamenn hans gátu staðið undir. Það tók Vínarbúa ein 15 ár að taka Mozart í sátt – um aldamótin 1800 var hann orðinn goðsögn í tónlistarlífinu þar eins og annars staðar. Því miður naut hann ekki góðs af því sjálfur.

Mynd

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

4.12.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvers konar tónlistarmaður var Mozart og hvernig kynnti hann sér verk barrokkmeistaranna?“ Vísindavefurinn, 4. desember 2014, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68487.

Árni Heimir Ingólfsson. (2014, 4. desember). Hvers konar tónlistarmaður var Mozart og hvernig kynnti hann sér verk barrokkmeistaranna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68487

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvers konar tónlistarmaður var Mozart og hvernig kynnti hann sér verk barrokkmeistaranna?“ Vísindavefurinn. 4. des. 2014. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68487>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers konar tónlistarmaður var Mozart og hvernig kynnti hann sér verk barrokkmeistaranna?
Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) er frægasta undrabarn sögunnar og einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður sem uppi hefur verið. Óperur hans, sinfóníur, konsertar og kórverk eru lykilverk klassíska skeiðsins (þess tímabils tónlistarsögunnar sem varði frá um 1740–1820) og hann er almennt talinn einn mesti tónlistarmaður sem sögur fara af.

Mozart var tvímælalaust eitt helsta óperutónskáld sögunnar. Hæfileikar hans fólust ekki síst í óvenjulegu næmi á innra líf sögupersónanna, sem gerði honum kleift að semja tónlist sem speglar hræringar sálarinnar hverju sinni. Fjallað er um nokkrar frægustu óperur Mozarts í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um óperur Mozarts?

Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791). Mynd frá 1782 eftir mág hans Joseph Lange.

Þótt óperusmíðar væru eftirlætisiðja Mozarts gat hann ekki lifað af þeim eingöngu. Um árabil var það einkum í píanókonsertunum sem snilligáfa Mozarts fékk að blómstra og þeir voru jafnframt hans helsta tekjulind. Konsertarnir sem Mozart samdi í Vínarborg eru með merkustu tónsmíðum hans og þeir opnuðu honum dyr að frægð og frama. Sem píanóleikari stóðst honum enginn snúning og í konsertum sínum kannaði hann möguleika hljóðfærisins bæði hvað snerti tækni og tjáningu. Athygli tónleikagesta hélt hann með því að bjóða upp á eitthvað nýtt í hvert sinn og því samdi hann alls 14 konserta á fjórum árum, frá 1782 til 1786. Hann hitti á hárrétta formúlu eins og hann ritaði föður sínum sigri hrósandi undir lok árs 1782:

Konsertarnir eru einmitt miðja vegu milli þess að vera of flóknir og of auðmeltir – þeir eru glæsilegir, láta vel í eyrum, blátt áfram án þess að vera innantómir. Hér og þar eru kaflar sem aðeins kunnáttufólk getur notið til fulls, en þó með þeim hætti að einnig hinir fávísari hljóta að vera ánægðir þótt þeir viti ekki hvers vegna.

Píanókonsertinn var á uppleið einmitt um það leyti sem Mozart samdi meistaraverk sín. Um 1780 heyrðust píanókonsertar sjaldnar en til dæmis konsertar fyrir fiðlu, flautu, klarínett eða horn, en áratug síðar var hljóðfærið komið í hóp þeirra vinsælustu í þessari tónlistargrein. Framlagi Mozarts til konsertformsins má með réttu líkja við framlag Haydns til sinfóníunnar – hann lagði grunn að nýju tónlistarformi til framtíðar.

Á síðustu árum sínum kappkostaði Mozart að dýpka klassíska stílinn með þykkari tónavef og auknum kontrapunkti, eins og lokaþáttur Júpíter-sinfóníunnar (í C-dúr, K. 551) er til marks um. Hann kynnti sér eftir megni tónlist barokkmeistaranna þótt slíkt væri vandkvæðum bundið enda var flest verka þeirra aðeins að finna í handritum. Mozart gat aftur á móti treyst á vináttu sína við lærdómsmann sem veitti honum frjálsan aðgang að ómetanlegu nótnasafni sínu. Gottfried van Swieten var barón að tign og í miklum metum meðal aðalsins í Vínarborg, faðir hans var lyflæknir keisaraynjunnar og sjálfur gegndi Gottfried háum stöðum í embættiskerfinu. Hann fór með menntamál í keisaradæminu en stundaði tónlist af kappi þegar næði gafst. Í apríl 1782 ritaði Mozart föður sínum: „Á hverjum sunnudegi klukkan 12 fer ég til van Swietens baróns, þar sem ekkert er spilað nema Händel og Bach.“ Swieten safnaði einnig saman hópi aðalsmanna í félagsskapinn Gesellschaft der Associierten og lét undir merkjum hans flytja í Vínarborg óratoríur eftir Händel og önnur barokkskáld. Frá 1788–91 fékk hann Mozart til að útsetja þessi verk fyrir „nútíma“ hljómsveit með fullri áhöfn tréblásturshljóðfæra til viðbótar við strengi, til dæmis Messías árið 1789. Það var ekki síst fyrir áhrif Swietens að Mozart komst í tæri við barokktónlist sem annars lá ekki á lausu.

Mozart var ótrúlega afkastamikið og fjölhæft tónskáld og einn mesti tónlistarsnillingur sögunnar.

Kynni Mozarts af tónlist Bachs voru meðal þess sem helst setti svip á tónlist hans síðustu árin; með kontrapunkti og fúguskrifum opnuðust honum nýjar leiðir í sköpun sinni. Þegar hann átti leið um Leipzig árið 1789 kom hann við í Tómasarkirkjunni þar sem Bach hafði sjálfur starfað. Þegar Mozart steig inn í kirkjuna heyrði hann kórinn syngja tveggja kóra mótettu Bachs, Singet dem Herrn ein neues Lied (Syngið Drottni nýjan söng). Mótettur Bachs voru Mozart með öllu ókunnar enda höfðu þær þá ekki ratað á prent. Sjónarvottur sagði að Mozart hefði sperrt eyrun og sett upp undrunarsvip um leið og söngurinn hófst. „Eftir nokkra takta í viðbót hrópaði hann: „Hvað er þetta?“ Og nú var eins og sál hans öll hefði tekið sér búsetu í eyrunum. Þegar söngurinn var á enda kallaði hann glaður upp yfir sig: „Loksins eitthvað sem hægt er að læra af!“.“

Það voru þó ekki aðeins kynnin af tónlist Bachs sem settu svip á verk Mozarts á síðasta skeiði ævinnar. Hann tefldi djarft í tónsmíðum sínum, notaði ómstríða tóna og krómatík í meiri mæli en flestir samtímamenn hans. Á síðustu æviárum sínum fékk Mozart það orð á sig að vera „erfitt“ tónskáld. Árið 1788 birtist í tónlistartímaritinu Magazin der Musik klausa þar sem fréttaritari blaðsins fullyrðir að Mozart sé „hæfileikaríkasti og besti hljómborðslistamaður sem ég hef nokkru sinni heyrt“ en þó stefni hann „of hátt“ í listrænum tónsmíðum sínum. Nýir strengjakvartettar hans voru „of sterkt kryddaðir“ að mati skríbentsins, „og hvaða bragðlaukar geta þolað slíkt til lengdar?“ Jafnvel var haft eftir sjálfum keisaranum að tónlist Mozarts væri „of erfið til söngs“.

Mozart hafði tekið út feiknarlegan músíkalskan þroska á örfáum árum og gerði í tónlist sinni bæði tilfinningalegar og vitsmunalegar kröfur sem fáir samtímamenn hans gátu staðið undir. Það tók Vínarbúa ein 15 ár að taka Mozart í sátt – um aldamótin 1800 var hann orðinn goðsögn í tónlistarlífinu þar eins og annars staðar. Því miður naut hann ekki góðs af því sjálfur.

Mynd

...