Sambærileg dæmi frá Íslandi er til dæmis að heyra í þjóðlögum sem sungin eru í samstígum fimmundum eins og Ísland farsælda frón og Séra Magnús settist upp á Skjóna.
Fljótlega fór mönnum þó að detta í hug að láta raddirnar hreyfast í gagnstæðar áttir og að tefla saman mismunandi lengdargildum.
Upphaflega voru raddirnar tvær en þriðja og fjórða röddin bættust við og dæmi eru um sex radda og allt upp í átta radda kontrapunkt. Kontrapunktískar tónsmíðaaðferðir þróuðust í margar aldir og voru alls ráðandi á seinni hluta miðalda, endurreisnartímabilinu og að hluta til á barokktímabilinu. Almennt er talið að kontrapunktslistin hafi náð mestri fullkomnun í tónsmíðum J. S. Bach á 18. öld. Sextánda öldin er einnig mikið blómaskeið kontrapunktsins, en þá er Ítalinn Giovanni Palestrina (1514-1594) jafnan talinn í fararbroddi tónskálda. Þó að raddir í kontrapunktískri tónsmíð séu sjálfstæðar þá þurfa þær samt að hljóma saman, þannig þarf tónskáldið að hafa í huga að hin hljómræna framvinda sé samkvæmt hljómfræðireglum samtíma síns. Þess vegna krefst þessi tónsmíðaaðferð mikillar kunnáttu og þróuðust flóknar reglur innan greinarinnar. Þrátt fyrir flóknar reglur rúmast fjölbreytni innan kontrapunktslistarinnar, til eru tónsmíðar í frjálsum kontrapunktískum stíl, þar sem raddirnar eru innbyrðis ólíkar en einnig er til eftirhermukontrapunktur, þá eru raddirnar byggðar á sama stefinu sem er þó ekki í gangi samtímis, hver röddin tekur við af annarri í eins konar keðjusöng. Fúgur eru dæmi um hið síðara og enn er það J. S. Bach sem þykir hafa náð meistaralegustum tökum á aðferðinni. Má þar nefna Das Wohltemperierte Klavier en þar er að finna 48 prelúdíur og fúgur fyrir hljómborð (sembal eða píanó) og einnig Die Kunst der Fuge (Fúgulistin) og Musikalisches Opfer (Tónafórn). Tvö síðasttöldu verkin eru eins konar alfræðirit um kontrapunktískar tónsmíðaaðferðir í öllum sínum margbreytileika. Fyrir utan fúgur og kanóna (keðjusöngva) af ýmsu tagi er þar að finna verk þar sem raddir ganga með sjálfum sér í speglaðri mynd, í mismunandi lyklum (tónhæðum) og afturábak, svo einhver af gömlu brögðunum séu nefnd.
Eftir daga Bachs fór kontrapunktur úr tísku og yngri tónskáld, þar á meðal synir hans, tileinkuðu sér nýtískulegri tónsmíðaaðferðir. Tónskáld eins og Mozart og Beethoven þekktu þó vel til tónsmíða gamla mannsins og dáðu hann. Kontrapunktískum köflum bregður fyrir í tónsmíðum þeirra beggja eins og í Sinfóníu Mozarts nr. 41, Júpíter og strengjakvartettskafla Beethovens, Grosse Fuge. Nú á dögum geta tónskáld brugðið fyrir sig alls konar kontrapunkti ef þau kæra sig um, en hann er þá yfirleitt ekki samkvæmt hinum gömlu tónfræðireglum heldur í nýjum búningi. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Tengjast verk Mozarts tónlist Bachs og Beethovens? eftir Karólínu Eiríksdóttur
- Getið þið sagt mér helstu atriðin um Johann Sebastian Bach? eftir Elvar G. Bjarkason
- Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er? eftir Árna Heimi Ingólfsson
- Hvernig var tónlistin á árunum 1400-1600? eftir Karólínu Eiríksdóttur
- Hvernig er fimmundarkerfið í tónlist? eftir Karólínu Eiríksdóttur
CD1 - Bach - Well Tempered Clavier Book 2 by Katherine Roberts Perl