Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvenær var Mozart uppi? Tengjast verk hans tónlist Bachs og Beethovens? Hvað áhrif höfðu tónskáldin hvert á annað?
Wolfgang Amadeus Mozart fæddist árið 1756 og dó 1791, hann lifði því og starfaði á þeim tíma sem kallast klassískatímabilið í tónlistarsögunni. Franz Joseph Haydn (1732-1809), Mozart og Ludwig van Beethoven (1770-1827) eru máttarstólpar þessa tímabils. Svarið við spurningunni er því í stuttu máli að tónlist Beethovens er framan af ferlinum í rökréttu framhaldi af tónlist Mozarts, en tónlist Johanns Sebastian Bachs (1685-1750) tilheyrði hins vegar barokktímabilinu og var komin úr tísku á dögum Mozarts sem fékkst við allt önnur form en Bach og notaði aðrar tónsmíðaaðferðir. Svarið er þó auðvitað ekki svona einfalt, klassískatímabilið hefði aldrei fætt af sér þær hugmyndir og nýjungar sem raun var hefði vestræn tónlist ekki verið búin að þróast í margar aldir og náð þeim hæðum sem hún gerði í meðförum Bachs.
Saga vestrænnar menningar og þar með talin saga tónlistar sýnir samfellda þróun hugmynda og aðferða. Tónskáld læra af fyrirrennurum sínum og samtímamönnum en þróa jafnframt tónmál og form áfram og setja þannig sitt persónulega mark á tónlistarsöguna. Sum tónskáld eru byltingarkenndari og frumlegri en önnur og af og til kollvarpast hefðin með einu verki og eitthvað alveg nýtt kviknar sem verður fyrirmynd næstu kynslóða, en stundum eru tengslin milli kynslóða í beinu og rökréttu framhaldi. Stundum er þó eins og þörfin fyrir breytingar liggi í loftinu, eins og búið sé að fullreyna ákveðnar hugmyndir, líkt og gerðist í byrjun 20. aldar.
Upphaf fúgunar Das Musikalische Opfer eða Tónafórn skrifað af Johann Sebastian Bach
Barokktímabilið í tónlist var frá um það bil 1600 til 1750 en það er dánarár J. S. Bachs. Á barokktímabilinu þróaðist meðal annars pólifónískur ritháttur sem talinn er hafa náð hæstum hæðum í meðförum Bachs og eru hinar margslungnu fúgur hans dæmi um það. Þessi tónlist fór svo úr tísku og er engu líkara en Bach hafi sjálfur gert sér grein fyrir því og oft heyrist sú fullyrðing, að verk þau er hann samdi undir lok ævi sinnar, og þá einkum verkin Tónafórn og Fúgulistin, sýni að hann hafi meðvitað verið að skrásetja kontrapunktísku fúgulistina í sinni flóknustu mynd, svo að listin glataðist ekki komandi kynslóðum. Þó að tónlist Bachs hafi vikið fyrir hinni nýju tónlist og fallið í gleymsku í um það bil 80 ár, eða þangað til Mendelssohn flutti Mattheusarpassíuna í Leipzig árið 1929, þá þekktu klassísku tónskáldin tónlist hans og bæði Mozart og Beethoven brugðu fyrir sig kontrapunktískum fúguskrifum. Fræg dæmi eru síðasti kaflinn í Júpítersinfóníu Mozarts og Grosse Fuge Beethovens.
Eftir dauða Bachs komu nýjar tónlistarstefnur fram, meðal annars hjá sonum hans Carl Philipp Emanuel (1714-1788) og Johann Christian (1735-1782). Það voru hins vegar Haydn, Mozart og Beethoven sem þróuðu klassísku formin, það er sínfóníuna, sónötuna, einleikskonsertinn, strengjakvartettinn og fleiri kammermúsíkform, sem enn þann dag í dag eru vinsælustu form tónleikasala.
Haydn hefur oft verið kallaður faðir sinfóníunnar, og þó að slík nafngift hljómi sem alhæfing þá er þessi býsna sönn. Staðreyndin er sú að fjögurra kafla sinfónían með fyrsta kafla í sónötuformi, hægan kafla, menúett og tríói og viðamikinn fjórða kafla þróaðist í meðförum hans. Sama má segja um klassísku einleikssónötuna og strengjakvartettinn. Þessar tónsmíðar voru mjög skírar í formi og stíl og oft er talað um heiðríkjuna í tónlist klassískatímabilsins. Þetta þýðir þó ekki að tónlistin hafi ekki verið margbreytileg, því að innan formanna var rúm fyrir margs konar hljóma- og tóntegundaflækjur og mismunandi útfærslur. Mozart, sem var 24 árum yngri en Haydn, tók upp merkið og hélt áfram að semja í þessum formum og fórst það afburðavel úr hendi eins og þekkt er. Tónsmíðar hans hafa sinn persónulega stíl þó að hann hafi kannski ekki umbylt formunum.
Beethoven, sem var 14 árum yngri en Mozart, kom til Vínarborgar tæplega 22 ára gamall í nóvember 1792, ári eftir dauða Mozarts. Haydn var þá á hátindi frægðar sinnar og var hann kennari unga mannsins um tíma. Beethoven hóf því tónsmíðaferil sinn þegar klassískatímabilið var á hápunkti og í byrjun tileinkaði hann sér form og aðferðir hinna frægu fyrirrennara sinna. Það kom hins vegar í hlut hans að verða einn af byltingarseggjum tónlistarsögunnar og fljótlega upp úr aldamótunum 1800 fór að gæta breytinga í tónsmíðum hans. Sinfóníska formið varð hjá honum sífellt stærra og flóknara í sniðum og gætti þess fyrst í 3. sinfóníu hans (Eroica), þar sem til dæmis form 1. kaflans er víkkað út og hefur fleiri stef en áður tíðkaðist og jafnframt heyrist nýtt stef á stað í kaflanum sem ekki hafði áður þótt við hæfi að setja fram ný stef. Í 6. sinfóníunni, Pastoral, eru fimm kaflar í stað fjögurra og bera þeir auk þess heiti sem lýsa svipmyndum úr sveitinni, með öðrum orðum var búið að sá fræi sem síðar bar uppskeru í margvíslegri prógramtónlist 19. aldarinnar.
Beethoven notaði einnig fyrstur manna texta í sinfóníu, það er þeirri níundu Óðinum til gleðinnar, þar sem hann teflir fram einsöngvurum og kór. Síðustu píanósónöturnar og strengjakvartettarnir eru ólíkir öðru sem áður hafði verið samið og ekki var lengur hægt að tala um fyrirfram ákveðin form eða að tónlistin væri sett saman eftir viðtekinni aðferð. Þessar nýjungar vörðuðu veginn fyrir rómantískar tónsmíðar 19. aldarinnar, samanber tónaljóð Liszt og Richards Strauss, risasinfóníur Mahlers, sem fannst eðlilegt að nota texta í sinfóníum, og óteljandi fleiri tónsmíðar í frjálsu formi.
Klassískatímabilið er dæmi um hvernig tónskáld fæðast inn í umhverfi þar sem er eins og þau fái ákveðið hlutverk. Nýjungar voru í deiglunni þegar Haydn var ungur maður og það kom því í hans hlut að þróa þær áfram, Mozart kom inn í þá hefð á hápunkti hennar, en á dögum Beethovens var aftur orðin þörf á að brjóta upp hefðina og halda inn á nýjar brautir.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Karólína Eiríksdóttir. „Tengjast verk Mozarts tónlist Bachs og Beethovens?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5697.
Karólína Eiríksdóttir. (2006, 9. mars). Tengjast verk Mozarts tónlist Bachs og Beethovens? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5697
Karólína Eiríksdóttir. „Tengjast verk Mozarts tónlist Bachs og Beethovens?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5697>.