Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mozart (1756-1791) var tvímælalaust eitt helsta óperutónskáld sögunnar. Hæfileikar hans fólust ekki síst í óvenjulegu næmi á innra líf sögupersónanna, sem gerði honum kleift að semja tónlist sem speglar hræringar sálarinnar hverju sinni. Hann greinir persónur sínar að hvað stíl snertir og gefur þannig persónusköpun verksins nýja vídd. Í Vínarborg samdi Mozart sex óperur á árunum 1782–91 og það í öllum helstu greinum listformsins – ítalskar óperur bæði í alvöru (seria) og gamni (buffa), svo og þýskar óperur (Singspiel) sem nutu einmitt vaxandi vinsælda um það leyti sem hann fluttist til borgarinnar. Þessar óperur eru:
Die Entführung aus dem Seraglio / Brottnámið úr kvennabúrinu (1782)
Le nozze di Figaro / Brúðkaup Fígarós (1786)
Don Giovanni (1787)
Così fan tutte / Svona gera þær allar (1790)
La clemenza di Tito / Mildi Títusar (1791)
Die Zauberflöte / Töfraflautan (1791)
Keisarinn sem ríkti í Vínarborg megnið af þeim tíma sem Mozart bjó þar var Jósef II. og var hann einn þeirra ráðamanna sem fylgdu stefnu upplýsingarinnar. Hann hafði haldið um stjórnartaumana frá árinu 1765 ásamt móður sinni, Maríu Theresíu, en fór einn með völd eftir að hún lést 1780. Smekkur keisarans gaf tóninn fyrir tónlistarlíf borgarinnar á árunum upp úr 1780. Hann hafði dálæti á gamanóperum en enga þolinmæði fyrir opera seria, alvarlegum óperum, og sama gilti um langar tónsetningar á messutextum.
Helst vildi keisarinn efla þýska óperu og lagði sitt af mörkum til að hún gæti staðið jafnfætis þeirri ítölsku. Í því augnamiði hafði hann stofnað árið 1778 sérstakt leikhús, Nationalsingspiel, sem aðeins sinnti óperum við þýska texta. Fyrir þennan hóp pantaði hann nýja óperu hjá Mozart, Brottnámið úr kvennabúrinu. Þýskar óperur eða Singspiel áttu það sameiginlegt með ítölskum að arían var þungamiðja tjáningar, en voru ólíkar að því leyti að í þýskum óperum var talað í stað þess að syngja resítatív. Þær voru með öðrum orðum „söngleikir“ í bókstaflegri merkingu, þar var sungið og spjallað til skiptis. Í Brottnáminu hefur yngismeynni Konstanze verið rænt af Tyrkjum ásamt þernu sinni. Unnustinn Belmonte hefur uppi á þeim í höll Pasha Selim og reynir að fá þær lausar en er sjálfur tekinn höndum. Jafnvel þótt faðir Belmontes sé erkióvinur Selims ákveður sá síðarnefndi að veita öllum frelsi í lokaatriði óperunnar. Þannig má öðrum þræði lesa verkið sem upphafningu á vitrum og miskunnsömum einvaldi, rétt eins og tíðkaðist í opera seria.
Mozart (fyrir miðri mynd) sækir uppfærslu á Brottnáminu úr kvennabúrinu í Berlín árið 1789.
Brottnámið var vinsælasta ópera Mozarts meðan hann sjálfur lifði og var færð upp víða um hinn þýskumælandi heim. Sópranaría Konstanze, Martern aller Arten (Píslir af öllum toga) er sú stærsta sem verkið hefur að geyma, tekur um tíu mínútur í flutningi og gerir miklar kröfur. Síðar kemur í ljós að Konstanze er alls ekki ein í sviðsljósinu heldur er arían eins konar konsert fyrir fimm sólóista – flautu, óbó, fiðlu og selló auk söngraddarinnar. Með hlutverk Konstönzu í frumuppfærslunni fór Catarina Cavalieri sem var frægasta sópransöngkona Vínarborgar og Mozart vissi fullkomlega hvers hún var megnug. Í bréfum sínum lofsyngur hann „kvikar kverkar“ hennar og með þessari tilþrifamiklu aríu fékk hún glæsistykki við hæfi. Eftir að hafa hlýtt á frumflutning óperunnar á Jósef II að hafa tjáð tónskáldinu að hún væri „allt of falleg fyrir eyru okkar, og gríðarlega margar nótur, kæri Mozart!“ Tónskáldið svaraði fyrir sig: „Nákvæmlega eins margar og þörf krefur, yðar hátign.“
Ári eftir frumflutning Brottnámsins gaf keisarinn upp á bátinn tilraun sína með þýskt söngleikjahús og því samdi Mozart ekki fleiri Singspiel um hríð. Nú beindist áhugi Jósefs að ítalskri gamanóperu og þar fór hann að fordæmi Katrínar miklu í Sankti Pétursborg, laðaði til sín hvert ítalska tónskáldið á fætur öðru. Forstöðumaður óperunnar var Antonio Salieri (1750–1825) og hafði hann öll völd í hendi sér. Ítalir áttu traust keisarans og voru honum til ráðgjafar um hvaðeina sem varðaði tónlist. Því áttu heimamenn oft erfiðara uppdráttar en hæfileikar þeirra gáfu tilefni til. Bæði Haydn og Mozart fengu að gjalda þess að vera utangarðs hvað þetta varðar.
Eftir fjögurra ára bið barst Mozart loks pöntun nýrrar óperu og þá valdi hann að semja við eldfimt leikrit, Brúðkaup Fígarós. Textann orti ítalskur ævintýramaður, Lorenzo da Ponte. Hann hafði verið gerður útlægur úr Feneyjum fyrir siðlaust líferni og hélt norður á bóginn þar sem Jósef II. gerði hann að hirðskáldi sínu. Da Ponte orti tvær óperur til viðbótar handa Mozart, – Don Giovanni og Così fan tutte, og samstarf þeirra þykir eitt hið farsælasta í óperusögunni. Með þessum þremur verkum lyfti Mozart ítölsku gamanóperunni í nýjar hæðir hvað snertir hugmyndaflug og persónusköpun, ekki síst í viðamiklum lokaatriðum hvers þáttar þar sem tónlistin flæðir fyrirhafnarlaust úr einu í annað. Í Brúðkaupi Fígarós telur finale annars þáttar alls tæpa 1000 takta sem skiptast í átta hluta og er hver ólíkur öðrum hvað snertir hraða, taktskipan og tóntegund.
Brúðkaup Fígarós hlaut ágætar viðtökur, sérstaklega í Prag þar sem óperan sló algjörlega í gegn.
Brúðkaup Fígarós hlaut misjafnar viðtökur í Vínarborg og fyrsta árið urðu sýningar aðeins níu. Almennt voru áhorfendur þó ánægðir, raunar svo mjög að næstum hvert einasta atriði var klappað upp og keisarinn sjálfur þurfti að skerast í leikinn; hann bannaði uppklapp á öllum númerum nema aríum „til að koma í veg fyrir að óperan vari óþarflega lengi“. Meiri hrifningu vakti óperan þó í Prag, slíkar undirtektir hafði Mozart ekki hlotið síðan á undrabarnsárum sínum. Hann lýsti hrifningu bæjarbúa í bréfi til föður síns:
Hér er ekki um annað talað en Fígaró; ekki annað leikið, blásið, sungið eða blístrað en – Fígaró. Hér vilja menn ekki sjá aðrar óperur en Fígaró, sí og æ Fígaró; vissulega mikill heiður fyrir mig.
Brúðkaup Fígarós naut slíkrar velgengni í Prag að óperustjórinn bað Mozart um nýtt verk; útkoman var Don Giovanni sem var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu þar haustið 1787. Verkið er byggt á alkunnri sögu um flagara sem hlýtur maklega refsingu fyrir siðlaust líferni sitt. Sagan hlaut fyrst leikbúning í verki spænsk munks sem ritaði undir höfundarnafninu Tirso de Molina á 17. öld, síðar orti franska skáldið Molière leikrit upp úr sögunni og Gluck samdi ballett um örlög flagarans. Þeir Mozart og da Ponte sóttu þó einkum í óperu sem hafði verið frumflutt í Feneyjum nokkrum mánuðum áður en þeir sjálfir hófu störf. Óperu sína kölluðu þeir dramma giocoso – gamandrama. Í slíkum verkum er dramatískur undirtónn og það á svo sannarlega við um Don Giovanni. Dauðdagar eru fremur fátíðir í óperum 18. aldar, jafnvel í opera seria, en hér deyja tveir. Óperan hefst á því að söguhetjan fremur morð, og skömmu áður en tjaldið fellur er Don Giovanni sjálfur dreginn niður í helvítisloga. Mozart kyndir líka undir dramatíkinni með tónlist sinni frekar en að draga úr.
Þriðja og síðasta ópera Mozarts í samstarfi við da Ponte var Così fan tutte (Svona gera þær allar), frumsýnd í janúar 1790. Sagan fjallar um ást og trygglyndi en efnistökin eru óvenjuleg. Kaldhæðinn öldungur hefur litla trú á ástinni og veðjar við tvo unga menn að jafnvel unnustur þeirra verði fljótar að gleyma þeim ef þeir láti sig hverfa. Þeir látast hafa verið kvaddir í herinn en snúa aftur í dulargervi og reyna hvor um sig að ná ástum þeirrar sem er lofuð hinum. Þeir hafa erindi sem erfiði og því eru endalok óperunnar beiskju blandin. Jafnvel þegar allt er fallið í ljúfa löð kemst áhorfandinn varla hjá því að spyrja sig hvert framhaldið verði þegar grafið hefur verið undan trausti elskendanna með þessu móti.
Sigrún Hjálmtýsdóttir í hlutverki Næturdrottningarinnar í uppsetningu Íslensku óperunnar á Töfraflautunni 2011.
Síðasta árið sem Mozart lifði samdi hann tvær óperur sem gætu vart verið ólíkari. Töfraflautan er Singspiel, alþýðuópera á þýsku fyrir fólk af öllum stéttum og stigum; La clemenza di Tito (Mildi Títusar) er ítölsk opera seria, samin fyrir hátíðahöld í Prag þegar Leópold II. var krýndur konungur Bæheims. Sú síðarnefnda er síðasta seria-óperan sem lifað hefur á fjölum óperuhúsa allt til þessa dags. Textinn var upphaflega eftir Metastasio og við hann höfðu verið samdar hátt í 40 óperur þegar hér var komið sögu. Þaulreyndur leikhúsmaður eins og Mozart gerði sér þó fulla grein fyrir þeim vanköntum sem plöguðu óperur af gamla skólanum. Því kallaði hann til annað skáld, Caterino Mazzolà, til að breyta textanum í það sem hann kallaði „sanna óperu“. Mazzolà skar burt hvorki fleiri né færri en 18 einsöngsaríur en setti í staðinn dúetta, tríó og miklar hópsenur í lok hvors þáttar. Aðeins með svo viðamiklum breytingum náðist það leikræna flæði sem var forsenda þess að Mozart fékkst til þess að dýfa fjöður sinni í blek.
Eins og flestar seria-óperur sýnir þessi keisara í dýrðarljóma, hér er það Títus Vespasíanus sem ríkti í Rómaborg á árunum 79–81. Hin tiginborna Vitellía þráir ekkert heitar en að Títus taki sig fyrir konu en þykist sjá að svo verði ekki. Sextus, góðvinur Títusar, sér ekki sólina fyrir Vítellíu og hún fær hann til að takast á hendur að myrða keisarann og kveikja í höllinni á Kapítólhæð. Hann er rétt horfinn á braut til að fremja ódæðið þegar Vítellíu er tjáð að keisarinn hafi valið hana fyrir konu. Ein áhrifamesta aría óperunnar er þegar hún áttar sig á aðstæðum, sér að hún sé líklega búin að fyrirgera draumi sínum með klækjabrögðum. Allt fer þó vel að lokum. Títus lifir af og tilkynnir í sögulok að hann muni þyrma lífi þeirra sem vildu hann feigan.
Die Zauberflöte (Töfraflautan) var síðasta óperan sem Mozart lauk við. Hann hafði þegar samið megnið af henni áður en hann hélt til Prag vegna Mildi Títusar en fullgerði síðustu atriðin þegar heim var komið. Verkið er Singspiel, fyrsta ópera Mozarts við þýskan texta frá því að hann samdi Brottnámið úr kvennabúrinu níu árum fyrr. Þessar tvær óperur eru þó ólíkar um margt. Brottnámið var samin fyrir hirðóperuhús keisarans en Töfraflautan er alþýðuópera, samin með það fyrir augum að skemmta almenningi af öllum stéttum.
Í úthverfum Vínarborgar voru starfrækt nokkur gamanleikhús og eitt þeirra var Theater auf der Wieden, vígt árið 1787. Þar sat við stjórnvölinn Emanuel Schikaneder, leikari og söngvari sem hafði um árabil ferðast um álfuna með leikflokk sinn. Þeim Mozart hafði orðið vel til vina þegar hann lék í Salzburg áratug fyrr. Mozart samdi megnið af Töfraflautunni í maí og júní 1791, og eflaust hefur hann einnig haft hönd í bagga þegar kom að því að semja söguþráð og söngtexta verksins. Pamínu hefur verið rænt af æðstaprestinum Sarastró. Móðir hennar, Næturdrottningin, felur prinsinum Tamínó að bjarga henni. Í fylgd hefur hann fuglaveiðarann Papagenó sem er indæll einfeldningur. Brátt kemur í ljós að Sarastró vill vel og þegar upp er staðið er þeim Tamínó og Pamínu boðið að þreyta eldskírn sem gerir þau fullgilda meðlimi í Reglu sólarinnar.
Engin önnur ópera Mozarts – eða samtímamanna hans ef út í það er farið – hefur að geyma jafn breitt litróf stíls og strauma. Persónurnar eru af ýmsum toga og tónlistin eftir því. Mozart semur dramatískar virtúósaaríur fyrir Næturdrottninguna, háfleyga sálma fyrir Sarastró, léttúðug alþýðulög fyrir Papagenó og ljóðræna ástarsöngva fyrir Pamínu og Tamínó. Andstæðurnar birtast hvað skýrast í valdamestu persónum óperunnar, Næturdrottningunni og Sarastró. Himinn og haf skilja þau að hvað tónlistina snertir. Næturdrottningin fer alla leið upp á F fyrir ofan háa C, hún kraumar af hatri og illvild og tónlist hennar er öll á iði. Sarastró dvelur á dýpstu tónum bassaraddarinnar og er friðsældin uppmáluð.
Myndir:
Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað getið þið sagt mér um óperur Mozarts?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67843.
Árni Heimir Ingólfsson. (2014, 25. nóvember). Hvað getið þið sagt mér um óperur Mozarts? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67843
Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað getið þið sagt mér um óperur Mozarts?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67843>.