Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Sofia Kovalevskaja og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar?

Kristín Bjarnadóttir

Sofia Kovalevskaja (1850–1891) fæddist í Moskvu. Hún var önnur í röð þriggja barna Vasilíj Korvin-Krukovskíj, hershöfðingja riddaraliðs af pólskum ættum, og Yelizaveta Federovna Shubert af þýskum ættum. Foreldrarnir voru báðir vel menntaðir og komnir af hefðarfólki. Sofia hlaut menntun sína hjá einkakennurum og barnfóstrum. Fjölskyldan bjó fyrst á sveitasetri fjölskyldunnar en síðar í St. Pétursborg þar sem fjölskyldan umgekkst meðal annarra skáldið Dostojevskíj. Sofia heillaðist af stærðfræði þegar á unga aldri. Föðurbróðir hennar bar mikla virðingu fyrir stærðfræði og ræddi oft um hana. Sofia sagði í sjálfsævisögu sinni:

Ég skildi auðvitað ekki ennþá merkingu hugtakanna en þau verkuðu á ímyndunarafl mitt, innrættu mér lotningu fyrir stærðfræðinni sem upphöfnum og dularfullum vísindum sem ljúka upp dyrum að innvígðum heimi furðuverka, óaðgengilegum venjulegu dauðlegu fólki. (O'Connor og Robertson, 1996)

Sofia var aðeins 11 ára þegar veggirnir í herbergi hennar voru þaktir glósum úr fyrirlestrum Mikhails Ostrogradskis (1801–1862) um stærðfræðigreiningu. Viss atriði í glósunum minntu hana á það sem hún hafði heyrt frænda sinn tala um. Glósurnar á veggnum urðu fyrstu kynni Sofiu af örsmæðarreikningi, kalkúlus.

Fyrsta reglulega nám Sofiu í stærðfræði var undir handleiðslu heimiliskennara fjölskyldunnar, Y. I. Malevich, og hún segir frá því að hjá honum hafi hún fundið fyrir svo miklu aðdráttarafli frá stærðfræðinni að hún tók að vanrækja annað nám. Faðir Sofiu ákvað þá að láta staðar numið í stærðfræðinámi hennar. Hún fékk þá algebrubók að láni og las hana á nóttinni þegar aðrir á heimilinu höfðu gengið til náða. Ári síðar kynnti nágranni fyrir fjölskyldunni kennslubók í eðlisfræði sem hann hafði ritað. Sofia reyndi að lesa hana. Hún skildi ekki hornafræðiformúlurnar og reyndi að útskýra þær sjálf fyrir sér. Þrátt fyrir þessa viðleitni leyfði faðir hennar henni ekki fyrr en síðar að fara í einkatíma í stærðfræði.

Sofia Kovalevskaja (1850–1891).

Sofia neyddist til að gifta sig svo að hún kæmist til útlanda til að afla sér æðri menntunar. Faðir hennar vildi ekki leyfa henni að fara að heiman til að stunda háskólanám og konur í Rússlandi gátu ekki búið fjarri fjölskyldum sínum nema með skriflegu leyfi föður síns eða eiginmanns. Átján ára gömul gekk hún í málamyndahjónaband með Vladimir Kovalevski, ungum steingervingafræðingi. Vladimir varð síðar þekktur fyrir samstarf sitt við Darwin. Sofia tók þátt í stjórnmálum. Hún var útópíusósíalisti og þau hjónin ferðuðust til London og Parísar í pólitískum erindum. Hjónabandið, sem entist í fimmtán ár, varð henni til mikilla vandræða, sorgar, örvæntingar, truflunar á einbeitingu, deilna og misskilnings hjónanna á milli.

Sofia fór til Heidelberg árið 1869 til að nema stærðfræði og náttúruvísindi en komst þá að því að ekki mátti skrá konur í háskólann. Henni tókst þó að sannfæra yfirvöld skólans um að leyfa sér að sækja fyrirlestra óopinberlega þannig að hún fengi leyfi fyrirlesara hverju sinni. Þarna dvaldi hún í þrjár annir og vakti athygli prófessora sinna, til dæmis Königsbergers og Kirchhoffs, fyrir gáfur.

Sofia Kovalevskaja fluttist til Berlínar árið 1871 til að læra hjá Weierstrass sem hafði verið kennari Königsbergers. Bann öldungaráðs skólans við að hún sækti fyrirlestra varð til þess að hún naut einkakennslu Weierstrass í fjögur ár og varð henni þannig til happs.

Vorið 1874 hafði Sofia ritað þrjár fræðigreinar sem Weierstrass mat allar hæfar sem doktorsritgerðir. Greinarnar voru um hlutafleiðujöfnur, abelsk heildi og hringi Satúrnusar. Fyrsta greinin var birt í tímariti August Crelles fyrir fræðigreinar í hreinni og hagnýttri stærðfræði, Journal für die reine und angewandte Mathematik. Sofiu var veitt doktorsgráða með umsögninni summa cum laude frá Háskólanum í Göttingen árið 1874. Þá var hún tuttugu og fjögurra ára gömul. Þrátt fyrir þetta fékk Sofia ekki starf við háskóla af ýmsum ástæðum en þó aðallega þeirri að hún var kona. Við tók sex ára tímabil biturleika þar sem svo virtist að hið eina sem henni stæði til boða væri reikningskennsla við stúlknaskóla.

Sofia eignaðist dóttur árið 1878 en árið 1880 fór hún aftur að stunda rannsóknir í stærðfræði í vaxandi mæli. Hún tók að rannsaka ljósbrot árið 1882 og ritaði þrjár greinar um efnið. Árið 1916 var sýnt fram á villu í rannsóknum sem Sofia byggði tvær greinanna á. Fyrsta greinin af þessum þremur, sem var byggð á kenningum Weierstrass um hlutafleiðujöfnur, er hins vegar enn í fullu gildi.

Vladimir eiginmaður Sofiu lenti í fjárhagskröggum og framdi sjálfsmorð vorið 1883 en þau höfðu þá verið skilin að borði og sæng í tvö ár. Sektarkennd sótti á hana og hún sökkti sér niður stærðfræðirannsóknir. Gösta Mittag-Leffler, sem hafði numið hjá Weierstrass í Berlín vorið 1875, tókst að yfirvinna andstöðu við ráðningu Sofiu að Háskólanum í Stokkhólmi þar sem Mittag-Leffler var prófessor. Hann stofnaði tímaritið Acta Mathematica árið 1882 og var aðalritstjóri þess í 45 ár. Sofia hlaut stöðu privat-dozents sem þýddi að hún varð sjálf að innheimta laun sín hjá nemendum. Hún hóf störf í Stokkhólmi snemma árs 1884 en síðar sama ár hækkaði hún í tign og varð árið 1889 fyrsta konan til að hljóta prófessorsstöðu við evrópskan háskóla á eftir eðlisfræðingnum Laura Bassi og stærðfræðingnum Maríu Gaetana Agnesi. Sofia hélt fyrirlestra í Stokkhólmi um hið nýjasta á sviði stærðfræðigreiningar og hún var einnig ritstjóri Acta Mathematica. Hún varð tengiliður við stærðfræðinga í París og Berlín og tók þátt í að skipuleggja alþjóðlegar ráðstefnur.

Sofia Kovalevskaja skrifaði ekki aðeins um stærðfræði. Eitt þekkasta verk hennar er Nigilistka (Níhilistastúlkan) sem talin er byggð á hennar eigin reynslu.

Sofia ritaði minningar sínar, sjálfsævilega skáldsögu og leikrit eins sem hún hafði gert á unglingsárunum. Eitt þekktasta verk hennar er Nigilistka, Níhilistastúlkan, sem kom fyrst út í Genf árið 1892 að henni látinni. Vinir Sofiu, Anna Carlotta Leffler, systir Gösta Mittag-Leffler, og Ellen Key, ásamt unnusta Sofiu, Maksim Kovalevski, unnu verkið upp úr tveimur drögum, á sænsku og rússnesku, frá hendi Sofiu. Maksim var fjarskyldur ættingi Vladimirs Kovaleskis, fyrrum eiginmanns Sofiu, en Sofia tók upp samband við Maksim nokkru fyrir dauða sinn. Bókin hefur nýlega verið gefið út í vandaðri enskri þýðingu, Nihilist Girl. Söguhetjan er stúlka, Vera Barantsova, sem er komin af aðalsfólki og sprottin upp úr sama umhverfi og Sofia. Sagan greinir frá því er bændaánauðinni var aflétt árið 1861 og áhrifum þess á samfélagið og kjör landeigenda en einnig frá pólitískum hræringum. Vera gengur í málamyndahjónaband með dæmdum mótmælanda sem hún þekkir ekki. Hún vill með því leggja sitt á vogaskálarnar til að þyrma lífi mannsins sem annars hefði verið sendur í þrælkunarbúðir og aldrei losnað þaðan lifandi.

Árið 1886, hlaut Sofia verðlaun frönsku vísindaakademíunnar, kennd við Bordin, fyrir ritgerð um snúning hlutar úr föstu efni um fastan punkt, Mémoire sur un cas particulier du problème de le rotation d'un corps pesant autour d'un point fixe, où l'intégration s'effectue à l'aide des fonctions ultraelliptiques du temps. Frekari rannsóknir um sama efni öfluðu Sofiu verðlauna sænsku vísindaakademíunnar árið 1889 og sama ár var hún kjörin bréfafélagi í keisaralegu rússnesku akademíunni.

Síðasta útgefna verk Sofiu var stutt grein, Sur un théorème de M. Bruns, þar sem hún setti fram einfaldari sönnun á setningu Bruns. Snemma árs árið 1891, þegar Sofia stóð á hátindi getu sinnar og orðstírs, lést hún af völdum inflúensu og lungnabólgu í kjölfar hennar.

Heimildir og myndir

Höfundur

Kristín Bjarnadóttir

prófessor emerita

Útgáfudagur

21.11.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Kristín Bjarnadóttir. „Hver var Sofia Kovalevskaja og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68423.

Kristín Bjarnadóttir. (2014, 21. nóvember). Hver var Sofia Kovalevskaja og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68423

Kristín Bjarnadóttir. „Hver var Sofia Kovalevskaja og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68423>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Sofia Kovalevskaja og hvert var framlag hennar til stærðfræðinnar?
Sofia Kovalevskaja (1850–1891) fæddist í Moskvu. Hún var önnur í röð þriggja barna Vasilíj Korvin-Krukovskíj, hershöfðingja riddaraliðs af pólskum ættum, og Yelizaveta Federovna Shubert af þýskum ættum. Foreldrarnir voru báðir vel menntaðir og komnir af hefðarfólki. Sofia hlaut menntun sína hjá einkakennurum og barnfóstrum. Fjölskyldan bjó fyrst á sveitasetri fjölskyldunnar en síðar í St. Pétursborg þar sem fjölskyldan umgekkst meðal annarra skáldið Dostojevskíj. Sofia heillaðist af stærðfræði þegar á unga aldri. Föðurbróðir hennar bar mikla virðingu fyrir stærðfræði og ræddi oft um hana. Sofia sagði í sjálfsævisögu sinni:

Ég skildi auðvitað ekki ennþá merkingu hugtakanna en þau verkuðu á ímyndunarafl mitt, innrættu mér lotningu fyrir stærðfræðinni sem upphöfnum og dularfullum vísindum sem ljúka upp dyrum að innvígðum heimi furðuverka, óaðgengilegum venjulegu dauðlegu fólki. (O'Connor og Robertson, 1996)

Sofia var aðeins 11 ára þegar veggirnir í herbergi hennar voru þaktir glósum úr fyrirlestrum Mikhails Ostrogradskis (1801–1862) um stærðfræðigreiningu. Viss atriði í glósunum minntu hana á það sem hún hafði heyrt frænda sinn tala um. Glósurnar á veggnum urðu fyrstu kynni Sofiu af örsmæðarreikningi, kalkúlus.

Fyrsta reglulega nám Sofiu í stærðfræði var undir handleiðslu heimiliskennara fjölskyldunnar, Y. I. Malevich, og hún segir frá því að hjá honum hafi hún fundið fyrir svo miklu aðdráttarafli frá stærðfræðinni að hún tók að vanrækja annað nám. Faðir Sofiu ákvað þá að láta staðar numið í stærðfræðinámi hennar. Hún fékk þá algebrubók að láni og las hana á nóttinni þegar aðrir á heimilinu höfðu gengið til náða. Ári síðar kynnti nágranni fyrir fjölskyldunni kennslubók í eðlisfræði sem hann hafði ritað. Sofia reyndi að lesa hana. Hún skildi ekki hornafræðiformúlurnar og reyndi að útskýra þær sjálf fyrir sér. Þrátt fyrir þessa viðleitni leyfði faðir hennar henni ekki fyrr en síðar að fara í einkatíma í stærðfræði.

Sofia Kovalevskaja (1850–1891).

Sofia neyddist til að gifta sig svo að hún kæmist til útlanda til að afla sér æðri menntunar. Faðir hennar vildi ekki leyfa henni að fara að heiman til að stunda háskólanám og konur í Rússlandi gátu ekki búið fjarri fjölskyldum sínum nema með skriflegu leyfi föður síns eða eiginmanns. Átján ára gömul gekk hún í málamyndahjónaband með Vladimir Kovalevski, ungum steingervingafræðingi. Vladimir varð síðar þekktur fyrir samstarf sitt við Darwin. Sofia tók þátt í stjórnmálum. Hún var útópíusósíalisti og þau hjónin ferðuðust til London og Parísar í pólitískum erindum. Hjónabandið, sem entist í fimmtán ár, varð henni til mikilla vandræða, sorgar, örvæntingar, truflunar á einbeitingu, deilna og misskilnings hjónanna á milli.

Sofia fór til Heidelberg árið 1869 til að nema stærðfræði og náttúruvísindi en komst þá að því að ekki mátti skrá konur í háskólann. Henni tókst þó að sannfæra yfirvöld skólans um að leyfa sér að sækja fyrirlestra óopinberlega þannig að hún fengi leyfi fyrirlesara hverju sinni. Þarna dvaldi hún í þrjár annir og vakti athygli prófessora sinna, til dæmis Königsbergers og Kirchhoffs, fyrir gáfur.

Sofia Kovalevskaja fluttist til Berlínar árið 1871 til að læra hjá Weierstrass sem hafði verið kennari Königsbergers. Bann öldungaráðs skólans við að hún sækti fyrirlestra varð til þess að hún naut einkakennslu Weierstrass í fjögur ár og varð henni þannig til happs.

Vorið 1874 hafði Sofia ritað þrjár fræðigreinar sem Weierstrass mat allar hæfar sem doktorsritgerðir. Greinarnar voru um hlutafleiðujöfnur, abelsk heildi og hringi Satúrnusar. Fyrsta greinin var birt í tímariti August Crelles fyrir fræðigreinar í hreinni og hagnýttri stærðfræði, Journal für die reine und angewandte Mathematik. Sofiu var veitt doktorsgráða með umsögninni summa cum laude frá Háskólanum í Göttingen árið 1874. Þá var hún tuttugu og fjögurra ára gömul. Þrátt fyrir þetta fékk Sofia ekki starf við háskóla af ýmsum ástæðum en þó aðallega þeirri að hún var kona. Við tók sex ára tímabil biturleika þar sem svo virtist að hið eina sem henni stæði til boða væri reikningskennsla við stúlknaskóla.

Sofia eignaðist dóttur árið 1878 en árið 1880 fór hún aftur að stunda rannsóknir í stærðfræði í vaxandi mæli. Hún tók að rannsaka ljósbrot árið 1882 og ritaði þrjár greinar um efnið. Árið 1916 var sýnt fram á villu í rannsóknum sem Sofia byggði tvær greinanna á. Fyrsta greinin af þessum þremur, sem var byggð á kenningum Weierstrass um hlutafleiðujöfnur, er hins vegar enn í fullu gildi.

Vladimir eiginmaður Sofiu lenti í fjárhagskröggum og framdi sjálfsmorð vorið 1883 en þau höfðu þá verið skilin að borði og sæng í tvö ár. Sektarkennd sótti á hana og hún sökkti sér niður stærðfræðirannsóknir. Gösta Mittag-Leffler, sem hafði numið hjá Weierstrass í Berlín vorið 1875, tókst að yfirvinna andstöðu við ráðningu Sofiu að Háskólanum í Stokkhólmi þar sem Mittag-Leffler var prófessor. Hann stofnaði tímaritið Acta Mathematica árið 1882 og var aðalritstjóri þess í 45 ár. Sofia hlaut stöðu privat-dozents sem þýddi að hún varð sjálf að innheimta laun sín hjá nemendum. Hún hóf störf í Stokkhólmi snemma árs 1884 en síðar sama ár hækkaði hún í tign og varð árið 1889 fyrsta konan til að hljóta prófessorsstöðu við evrópskan háskóla á eftir eðlisfræðingnum Laura Bassi og stærðfræðingnum Maríu Gaetana Agnesi. Sofia hélt fyrirlestra í Stokkhólmi um hið nýjasta á sviði stærðfræðigreiningar og hún var einnig ritstjóri Acta Mathematica. Hún varð tengiliður við stærðfræðinga í París og Berlín og tók þátt í að skipuleggja alþjóðlegar ráðstefnur.

Sofia Kovalevskaja skrifaði ekki aðeins um stærðfræði. Eitt þekkasta verk hennar er Nigilistka (Níhilistastúlkan) sem talin er byggð á hennar eigin reynslu.

Sofia ritaði minningar sínar, sjálfsævilega skáldsögu og leikrit eins sem hún hafði gert á unglingsárunum. Eitt þekktasta verk hennar er Nigilistka, Níhilistastúlkan, sem kom fyrst út í Genf árið 1892 að henni látinni. Vinir Sofiu, Anna Carlotta Leffler, systir Gösta Mittag-Leffler, og Ellen Key, ásamt unnusta Sofiu, Maksim Kovalevski, unnu verkið upp úr tveimur drögum, á sænsku og rússnesku, frá hendi Sofiu. Maksim var fjarskyldur ættingi Vladimirs Kovaleskis, fyrrum eiginmanns Sofiu, en Sofia tók upp samband við Maksim nokkru fyrir dauða sinn. Bókin hefur nýlega verið gefið út í vandaðri enskri þýðingu, Nihilist Girl. Söguhetjan er stúlka, Vera Barantsova, sem er komin af aðalsfólki og sprottin upp úr sama umhverfi og Sofia. Sagan greinir frá því er bændaánauðinni var aflétt árið 1861 og áhrifum þess á samfélagið og kjör landeigenda en einnig frá pólitískum hræringum. Vera gengur í málamyndahjónaband með dæmdum mótmælanda sem hún þekkir ekki. Hún vill með því leggja sitt á vogaskálarnar til að þyrma lífi mannsins sem annars hefði verið sendur í þrælkunarbúðir og aldrei losnað þaðan lifandi.

Árið 1886, hlaut Sofia verðlaun frönsku vísindaakademíunnar, kennd við Bordin, fyrir ritgerð um snúning hlutar úr föstu efni um fastan punkt, Mémoire sur un cas particulier du problème de le rotation d'un corps pesant autour d'un point fixe, où l'intégration s'effectue à l'aide des fonctions ultraelliptiques du temps. Frekari rannsóknir um sama efni öfluðu Sofiu verðlauna sænsku vísindaakademíunnar árið 1889 og sama ár var hún kjörin bréfafélagi í keisaralegu rússnesku akademíunni.

Síðasta útgefna verk Sofiu var stutt grein, Sur un théorème de M. Bruns, þar sem hún setti fram einfaldari sönnun á setningu Bruns. Snemma árs árið 1891, þegar Sofia stóð á hátindi getu sinnar og orðstírs, lést hún af völdum inflúensu og lungnabólgu í kjölfar hennar.

Heimildir og myndir

...