Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað er beindrep? og hverjar eru helstu orsakir? Hvaða afleiðingar hefur beindrep og er einhver lækning til?
Bein eru alls ekki dauð, hörð fyrirbæri heldur lifandi og sístarfandi líffæri eins og sést best á því hversu hratt beinbrot gróa. Í heilbrigðum beinum er nýr beinvefur sífellt að endurnýja gömul bein og jafnvægi er milli beinmyndunar og beineyðingar. Þannig helst beinvefur sterkur, hann getur vaxið og gert við sig ef bein brotna. Ef beindrep er í liðamótum er niðurbrot beina hraðara en beinmyndun og ástandið versnar ef meðferð er ekki í boði.
Beindrep (e. osteonecrosis) er sjúkdómur sem lýsir sér í eyðingu beinfrumna og jafnvel dreps í beinvef liðamóta. Það stafar af súrefnisskorti sem verður þegar blóðflæði skerðist af einhverjum ástæðum í liðum. Beinfrumur fá þá ekki nóg súrefni til að endurnýja sig eins og eðlilegt er og beinvefurinn hrörnar smám saman, sem sagt ójafnvægi kemst á milli beinmyndunar og beineyðingar.
Þau liðamót sem oftast verða fyrir beindrepi eru í mjöðmum, hnjám, öxlum og ökklum. Beindrep getur verið ýmist í einu beini eða fleirum, en lærleggur og upphandleggsbein eru þau bein sem oftast fá beindrep.
Skert blóðflæði getur leitt til þess að beinfrumur fá ekki það súrefni sem þær þurfa til að endurnýjast og beinvefurinn hrörnar smám saman. Til hægri er heilbrigður beinvefur en beindrep til vinstri.
Karlar og konur á öllum aldri geta fengið beindrep, en það er þó algengast hjá fólki á aldrinum 30 til 60 ára. Ekki er vitað með vissu hvað veldur beindrepi en nokkrir áhættuþættir eru þekktir, þar með taldir:
Einkenni beindreps eru oft engin til að byrja með og stundum helst ástandið einkennalaust. Síðar koma þó oftast fram verkir í sjúka beininu, einkum þegar það er í notkun. Verkir koma fram í liðamótum sem beinið er hluti af og ef það er í fótleggjum verður einstaklingurinn gjarnan haltur með tímanum. Verkur í nára er algengur ef beindrepið er í mjöðm og einkum þegar gengið er. Með tímanum gæti kúlan í mjaðmarliðnum fallið saman. Eftir því sem þunginn vex á liðinn eykst verkurinn og á endanum er erfitt að hreyfa liðinn og hann getur jafnvel fallið saman.
Til að greina sjúkdóminn er notuð nútímaleg myndtækni eins og beinaskönnun, beinþéttnimælingar, röntgenmyndataka, sneiðmyndataka og segulómun.
Helstu meðferðarúrræði eru að verkjastilla, takmarka álag á veika liði, gera léttar hreyfingar til að liðir stirðni ekki, nota bólgueyðandi lyf, nota stoðtæki eins og hækjur, stafi eða spelkur til að minnka þunga á liðinn og styðja við hann, raförvun, geislameðferð af ýmsum gerðum og skurðaðgerðir eins og mjaðmaliðaskipti og beinígræðsla.
Við val á meðferð er meðal annars tekið tillit til kyns, hversu útbreitt beindrepið er og á hvaða stigi það er. Meðferð getur ekki læknað sjúkdóminn, en hún dregur úr einkennum og verkjum og stöðvar útbreiðsluna. Almennt er reynt að örva blóðflæði og þar með auka súrefnismagnið sem berst til sjúka svæðisins en það dregur úr hættu á að ástandið versni og breiðist út. Ef lyf, tóbak eða áfengi eru hluti af orsök beindreps verður að hætta notkun þeirra sem fyrst, annars er meðferðin til lítils. Með réttum æfingum má auka hreyfigetu liðsins og jafnvel draga úr beindrepinu með því að örva blóðflæði í sjúku liðamótin.
Skurðaðgerðir sem meðferðarúrræði við beindrepi geta ýmist verið liðaverndandi eða liðskiptaaðgerðir. Liðaverndandi skurðaðgerðir, eins og beinígræðslur, stuðla að því að auka blóðflæði á sjúka svæðinu, tefja þróun og útbreiðslu ástandsins og fresta nauðsyn þess að grípa þurfi til algjörra liðaskipta. Beindrep í mjaðmaliðum er oft meðhöndluð á þennan veg.
Best er að stunda forvarnir til að koma í veg fyrir beindrep og aðra sjúkdóma af þessu. Mikilvægt er að borða hollan mat svo að beinvefurinn fái nóg af kalki og öðrum nauðsynlegum steinefnum sem eru byggingarefni beinanna sjálfra, en einnig vítamín, holla fitu og prótín fyrir liðina, vöðva og vefina í kring sem vinna með beinunum og styðja þau. Regluleg hreyfing er einnig mikilvæg en varast ætti að álag verði of mikið og einhæft. Þá ætti að forðast hegðun sem getur farið illa með æðar og blóðflæði til allra líkamshluta, eins og reykingar, ofnotkun áfengis og misnotkun lyfja.
Heimildir og mynd: