Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Sighvatur Þórðarson?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hver var Sighvatur Þórðarson? Hvað gerði hann og var hann skyldur Snorra Sturlusyni?

Sighvatur Þórðarson var sonur Þórðar nokkurs sem var kallaður Sigvaldaskáld. Þórður var íslenskur maður en hafði verið með Sigvalda jarli í Noregi og komst síðan í þjónustu Ólafs konungs Haraldssonar, þegar hann braust til valda í Noregi á öðrum áratug 11. aldar. Sighvatur hafði alist upp í fóstri á Apavatni í Grímsnesi í Árnesþingi; annars er allt óvíst um uppruna hans. Hann fór ungur utan með kaupmönnum, fann föður sinn í hirð Ólafs konungs og gerðist hirðskáld konungs. Hann komst til mikilla metorða hjá konungi, fór í sendiferðir fyrir hann og átti meginþátt í að útvega konungi sænska konungsdóttur sem eiginkonu. Sighvatur svaf í herbergi með konungi og gegndi stöðu stallara í hirð hans, sem hefur jafnvel verið æðsta staða hirðmanns hjá Noregskonungi á þeim tíma.

Í Ólafs sögu helga í Heimskringlu er skemmtileg saga sem sýnir hvað Sighvatur stóð konungi nærri. Svo bar til að ambátt konungs, Álfhildur að nafni, fæddi sveinbarn hans að næturlagi, og virtist lítið líf með barninu. Nærstaddur prestur bað Sighvat að segja konungi. En Sighvatur sagðist ekki þora að vekja hann því að það hefði hann bannað hverjum manni að gera. Réð svo Sighvatur því að drengurinn var skírður Magnús. Þegar konungur var útsofinn og vaknaði voru honum sögð þessi tíðindi. Hann lét kalla Sighvat fyrir sig og spurði hvers vegna hann hefði gerst svo djarfur að láta skíra barnið án þess að konungur vissi. Sighvatur svaraði: „Því að ég vildi heldur gefa Guði tvo menn en einn fjandanum.“ Aðspurður hvað hann meinti með því svaraði hann: „Barnið var að komið dauða, og mundi það fjandans maður ef það dæi heiðið, en nú var það Guðs maður. Hitt er og annað að ég vissi þótt þú værir mér reiður að þar myndi eigi meira við liggja en líf mitt, en ef þú vilt að ég týni því fyrir þessa sök þá vænti ég að ég sé Guðs maður.“ Þá spurði konungur hvers vegna hann hefði látið barnið heita Magnús því ekki væri það nafn í ætt sinni. Sighvatur svaraði að hann hefði látið það heita „eftir Karla-Magnúsi konungi. Þann vissi ég mann bestan í heimi.“ Þar átti hann við Karl mikla keisara Frankaríkis 800–814, en á latínu var hann kallaður Carolus magnus. Samkvæmt sögunni eigum við það því Sighvati að þakka að latneska orðið magnus (= mikill) hefur orðið að mannsnafni í norrænu.

Ólafur konungur gefur Sighvati sverð. Teikning eftir Christian Krogh. Heimskringla 1899.

Þrátt fyrir frama sinn hjá Ólafi konungi sóttist Sighvatur eftir hylli Knúts Sveinssonar konungs Dana og Englendinga, eins helsta andstæðings Ólafs, og orti erfiljóð um hann. Ólafur móðgaðist nokkuð við þetta og tók ekki undir kveðju Sighvats þegar hann sneri til baka til hirðarinnar. Þó tók hann Sighvat bráðlega í sátt. Eftir að Ólafur féll í bardaga, 1030, fór Magnús sonur hans í útlegð og braust síðan til valda í Noregi og var síðar kallaður Magnús góði. Sighvatur var í liði hans og fékk meðal annars það hlutverk að setja ofan í við konunginn, þá á unglingsaldri, fyrir hörku hans og refsigirni við þá sem höfðu barist gegn föður hans. Umvöndunina setti Sighvatur fram í bundnu máli og kallaði Bersöglisvísur. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Sighvatur andaðist, en talið er að það hafi gerst á stjórnarárum Magnúsar góða og þá ekki síðar en 1047.

Talsvert er varðveitt af kveðskap Sighvats. Auk Bersöglisvísna eru það Víkingarvísur sem fjalla um orustur Ólafs Haraldssonar á unga aldri hans. Eins konar framhald þeirra hefur verið kallað Nesjavísur. Safn tækifærisvísna sem Sighvatur orti þegar hann fór í erindum Ólafs austur á Gautland eru kallaðar Austurfararvísur. Annað vísnasafn er um ferð Sighvats til Bretlandseyja. Þá eru til erfidrápur hans um Knút konung og Ólaf Haraldsson, auk lausavísna af ýmsum tilefnum.

Í Heimskringlu segir að Sighvatur hafi ekki verið „hraðmæltur maður í sundurlausum orðum, en skáldskapur var honum svo tiltækur að hann kvað af tungu fram svo sem hann mælti annað mál.“ Fyrsta kynslóð kristinna skálda norrænna stóð frammi fyrir þeim vanda að siður var að skreyta kvæði með miklu af kenningum sem voru sóttar í heiðnar goðsagnir. Skáldskapur var til dæmis ekki kallaður skáldskapur heldur drykkur Óðins af því að Óðinn hafi fært hann guðum og mönnum í drykkjarformi. Eftir kristnitöku þótti óviðeigandi að fjalla mikið um heiðin goð, og brugðust skáldin við því, Sighvatur og aðrir, með því að spara sér kenningar sem mest og yrkja þannig á auðskildara máli en áður hafði tíðkast. Þó mun óþjálfuðum veitast fullerfitt að skilja kveðskap Sighvats. Hér er dæmi af léttara taginu sem lesendur geta spreytt sig á. Austur á Gautlandi hitti Sighvatur konu sem sagði eitthvað um að hann hefði svört augu. Sighvatur brást við með því að kveða vísu þar sem orðið íslenskur kemur fyrir í fyrsta sinn í varðveittum texta:

Oss hafa augun þessi
íslensk, konan, vísað
brattan stíg að baugi
björtum langt hin svörtu.
Sjá hefir, mjöð-Nannan, manni
minn ókunnar þínum
fótur á fornar brautir
fulldrengila gengið.

Vilji lesendur fá skýringu á einhverju í vísunni kann að vera hjálp að endursögn hennar í útgáfu Heimskringlu í Íslenskum fornritum: „Þessi svörtu, íslensku augu hafa, kona, vísað oss langan, erfiðan veg til hins glitrandi hrings. Þessi fótur minn hefir, kona, gengið einkar knálega um fornar leiðir, ókunnar manni þínum.“

Sighvatur átti bú og börn í Þrándheimi í Noregi, segir í Heimskringlu án þess að nokkurt þeirra sé nafngreint. Engar líkur eru til að þau hafi flust til Íslands og ættir séu því komnar frá honum þar. Nöfnin Þórður og Sighvatur koma bæði fyrir í Sturlungaætt; þannig hétu tveir bræður Snorra Sturlusonar þessum nöfnum. En Þórður er meðal algengustu nafna á Íslandi á þjóðveldisöld, og líklegast að það sé tilviljun ein að nöfn feðganna Þórðar og Sighvats minna svo á Sturlunga.

Heimildir og mynd

  • Lars Hamre: „Stallar.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder fra vikingetid til reformationstid XVII (Reykjavík, Bókaverzlun Ísafoldar, 1972), 34–36.
  • Íslensk bókmenntasaga I. Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson, Vésteinn Ólason ritstjóri. Reykjavík, Mál og menning, 1992. – Um Sighvat eftir Véstein Ólason, bls 217–22.
  • Íslenzk fornrit XXIII–XXIV. Morkinskinna I–II. Ármann Jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson gáfu út. Reykjavík, Fornritafélag, 2011. – Athugið að nafn Sighvats er skrifað Sigvatr í útgáfu Íslenskra fornrita.
  • – – XXVII–XXVIII. Heimskringla II–III. Bjarni Aðalbjarnarson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1945–51.
  • Mynd: Olav den helliges saga CK8.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 29. 10.2015).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.12.2015

Spyrjandi

Sigurður Jóhannesson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver var Sighvatur Þórðarson?“ Vísindavefurinn, 18. desember 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68058.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2015, 18. desember). Hver var Sighvatur Þórðarson? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68058

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver var Sighvatur Þórðarson?“ Vísindavefurinn. 18. des. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68058>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Sighvatur Þórðarson?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Hver var Sighvatur Þórðarson? Hvað gerði hann og var hann skyldur Snorra Sturlusyni?

Sighvatur Þórðarson var sonur Þórðar nokkurs sem var kallaður Sigvaldaskáld. Þórður var íslenskur maður en hafði verið með Sigvalda jarli í Noregi og komst síðan í þjónustu Ólafs konungs Haraldssonar, þegar hann braust til valda í Noregi á öðrum áratug 11. aldar. Sighvatur hafði alist upp í fóstri á Apavatni í Grímsnesi í Árnesþingi; annars er allt óvíst um uppruna hans. Hann fór ungur utan með kaupmönnum, fann föður sinn í hirð Ólafs konungs og gerðist hirðskáld konungs. Hann komst til mikilla metorða hjá konungi, fór í sendiferðir fyrir hann og átti meginþátt í að útvega konungi sænska konungsdóttur sem eiginkonu. Sighvatur svaf í herbergi með konungi og gegndi stöðu stallara í hirð hans, sem hefur jafnvel verið æðsta staða hirðmanns hjá Noregskonungi á þeim tíma.

Í Ólafs sögu helga í Heimskringlu er skemmtileg saga sem sýnir hvað Sighvatur stóð konungi nærri. Svo bar til að ambátt konungs, Álfhildur að nafni, fæddi sveinbarn hans að næturlagi, og virtist lítið líf með barninu. Nærstaddur prestur bað Sighvat að segja konungi. En Sighvatur sagðist ekki þora að vekja hann því að það hefði hann bannað hverjum manni að gera. Réð svo Sighvatur því að drengurinn var skírður Magnús. Þegar konungur var útsofinn og vaknaði voru honum sögð þessi tíðindi. Hann lét kalla Sighvat fyrir sig og spurði hvers vegna hann hefði gerst svo djarfur að láta skíra barnið án þess að konungur vissi. Sighvatur svaraði: „Því að ég vildi heldur gefa Guði tvo menn en einn fjandanum.“ Aðspurður hvað hann meinti með því svaraði hann: „Barnið var að komið dauða, og mundi það fjandans maður ef það dæi heiðið, en nú var það Guðs maður. Hitt er og annað að ég vissi þótt þú værir mér reiður að þar myndi eigi meira við liggja en líf mitt, en ef þú vilt að ég týni því fyrir þessa sök þá vænti ég að ég sé Guðs maður.“ Þá spurði konungur hvers vegna hann hefði látið barnið heita Magnús því ekki væri það nafn í ætt sinni. Sighvatur svaraði að hann hefði látið það heita „eftir Karla-Magnúsi konungi. Þann vissi ég mann bestan í heimi.“ Þar átti hann við Karl mikla keisara Frankaríkis 800–814, en á latínu var hann kallaður Carolus magnus. Samkvæmt sögunni eigum við það því Sighvati að þakka að latneska orðið magnus (= mikill) hefur orðið að mannsnafni í norrænu.

Ólafur konungur gefur Sighvati sverð. Teikning eftir Christian Krogh. Heimskringla 1899.

Þrátt fyrir frama sinn hjá Ólafi konungi sóttist Sighvatur eftir hylli Knúts Sveinssonar konungs Dana og Englendinga, eins helsta andstæðings Ólafs, og orti erfiljóð um hann. Ólafur móðgaðist nokkuð við þetta og tók ekki undir kveðju Sighvats þegar hann sneri til baka til hirðarinnar. Þó tók hann Sighvat bráðlega í sátt. Eftir að Ólafur féll í bardaga, 1030, fór Magnús sonur hans í útlegð og braust síðan til valda í Noregi og var síðar kallaður Magnús góði. Sighvatur var í liði hans og fékk meðal annars það hlutverk að setja ofan í við konunginn, þá á unglingsaldri, fyrir hörku hans og refsigirni við þá sem höfðu barist gegn föður hans. Umvöndunina setti Sighvatur fram í bundnu máli og kallaði Bersöglisvísur. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Sighvatur andaðist, en talið er að það hafi gerst á stjórnarárum Magnúsar góða og þá ekki síðar en 1047.

Talsvert er varðveitt af kveðskap Sighvats. Auk Bersöglisvísna eru það Víkingarvísur sem fjalla um orustur Ólafs Haraldssonar á unga aldri hans. Eins konar framhald þeirra hefur verið kallað Nesjavísur. Safn tækifærisvísna sem Sighvatur orti þegar hann fór í erindum Ólafs austur á Gautland eru kallaðar Austurfararvísur. Annað vísnasafn er um ferð Sighvats til Bretlandseyja. Þá eru til erfidrápur hans um Knút konung og Ólaf Haraldsson, auk lausavísna af ýmsum tilefnum.

Í Heimskringlu segir að Sighvatur hafi ekki verið „hraðmæltur maður í sundurlausum orðum, en skáldskapur var honum svo tiltækur að hann kvað af tungu fram svo sem hann mælti annað mál.“ Fyrsta kynslóð kristinna skálda norrænna stóð frammi fyrir þeim vanda að siður var að skreyta kvæði með miklu af kenningum sem voru sóttar í heiðnar goðsagnir. Skáldskapur var til dæmis ekki kallaður skáldskapur heldur drykkur Óðins af því að Óðinn hafi fært hann guðum og mönnum í drykkjarformi. Eftir kristnitöku þótti óviðeigandi að fjalla mikið um heiðin goð, og brugðust skáldin við því, Sighvatur og aðrir, með því að spara sér kenningar sem mest og yrkja þannig á auðskildara máli en áður hafði tíðkast. Þó mun óþjálfuðum veitast fullerfitt að skilja kveðskap Sighvats. Hér er dæmi af léttara taginu sem lesendur geta spreytt sig á. Austur á Gautlandi hitti Sighvatur konu sem sagði eitthvað um að hann hefði svört augu. Sighvatur brást við með því að kveða vísu þar sem orðið íslenskur kemur fyrir í fyrsta sinn í varðveittum texta:

Oss hafa augun þessi
íslensk, konan, vísað
brattan stíg að baugi
björtum langt hin svörtu.
Sjá hefir, mjöð-Nannan, manni
minn ókunnar þínum
fótur á fornar brautir
fulldrengila gengið.

Vilji lesendur fá skýringu á einhverju í vísunni kann að vera hjálp að endursögn hennar í útgáfu Heimskringlu í Íslenskum fornritum: „Þessi svörtu, íslensku augu hafa, kona, vísað oss langan, erfiðan veg til hins glitrandi hrings. Þessi fótur minn hefir, kona, gengið einkar knálega um fornar leiðir, ókunnar manni þínum.“

Sighvatur átti bú og börn í Þrándheimi í Noregi, segir í Heimskringlu án þess að nokkurt þeirra sé nafngreint. Engar líkur eru til að þau hafi flust til Íslands og ættir séu því komnar frá honum þar. Nöfnin Þórður og Sighvatur koma bæði fyrir í Sturlungaætt; þannig hétu tveir bræður Snorra Sturlusonar þessum nöfnum. En Þórður er meðal algengustu nafna á Íslandi á þjóðveldisöld, og líklegast að það sé tilviljun ein að nöfn feðganna Þórðar og Sighvats minna svo á Sturlunga.

Heimildir og mynd

  • Lars Hamre: „Stallar.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder fra vikingetid til reformationstid XVII (Reykjavík, Bókaverzlun Ísafoldar, 1972), 34–36.
  • Íslensk bókmenntasaga I. Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson, Vésteinn Ólason ritstjóri. Reykjavík, Mál og menning, 1992. – Um Sighvat eftir Véstein Ólason, bls 217–22.
  • Íslenzk fornrit XXIII–XXIV. Morkinskinna I–II. Ármann Jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson gáfu út. Reykjavík, Fornritafélag, 2011. – Athugið að nafn Sighvats er skrifað Sigvatr í útgáfu Íslenskra fornrita.
  • – – XXVII–XXVIII. Heimskringla II–III. Bjarni Aðalbjarnarson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1945–51.
  • Mynd: Olav den helliges saga CK8.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 29. 10.2015).

...