Guðrún Ása Grímsdóttir sagnfræðingur frá Neðra-Apavatni hefur í nýlegu riti um leiðir Skálholtsbiskupa um Lyngdalsheiði bent á að fjöldi nafna í Noregi með þessum forlið vísi oft til apaldra í merkingunni eplatré, en það eigi tæpast við hér. Þá sé hugsanlegt að nafnið vísi til viðurnefnisins api sem dæmi séu um að menn hafi borið. Þá telur Guðrún ekki útilokað að upphafleg nafnmynd hafi verið Papavatn sem vísi til írskra manna. Hún nefnir einnig að fornt orð um naut sé apli og kunni nafnið upphaflega að hafa verið Aplavatn en aflagast síðar. Þá er og að nefna að orðið api merkti meðal annars jötunn í fornu máli (35). Þessar tilraunir til skýringar á nafninu eru misjafnlega sennilegar. Óhætt er að útiloka flestar þeirra, að það sé kennt við dýrið apa eða jötuninn Apa, apla eða papa. Ekki er útilokað að vatnið gæti verið kennt við gölt með því nafni, þar sem vötn eru kennd við svín, til dæmis Svínavatn í næsta nágrenni, en ekki verður það talið sennilegt enda er þess aðeins getið í þjóðsögum. Hugsanlegt er að mannsnafnið Api eða viðurnefnið api hafi verið til hér á landi, en hvergi er það í skráðum heimildum. Það má nefna hér að í fornum heimildum er apa fyrst og fremst getið í sambandi við djöfulinn, þar sem hann birtist mönnum stundum í líki apa. Þá er ógetið þeirrar skýringar á bæjarnafninu sem er sennilegust. Í norsku er til árheitið Opo í Ullensvang á Hörðalandi. Við hana er kennt bæjarnafnið Opedal, sem nefnt er „i Apudale“ 1340. Í fornu norsku máli kemur fyrir Öpudalr, sem væntanlega er dregið af árheitinu Apa. Ásgeir Blöndal Magnússon taldi mjög sennilegt að þessi örnefni ættu skylt við íslenska orðið epja í merkingunni svað, slabb, krapableyta. Örnefnið Epjuteigur er til í landi Sandlækjar í Árnessýslu og á við raklenda engjaspildu. Upphaflega merkingin hefur því verið for, bleyta. Það kemur vel heim og saman við nafnliðinn ap- sem kemur oft fyrir í evrópskum fljótaheitum, og er meðal annars að finna í fornírsku ab í merkingunni 'fljót, á'. Í Skotlandi er til örnefnið Apper sem er talið úr keltnesku eabar eða abar í merkingunni 'aur, leðja, votlendi'. Líklegast er, sem fyrr segir, að vatnið hafi dregið nafn af leðju eða leir, af orðinu ap, í fleirtölu öp, Apavatn. Orðið epja er skylt efja sem getur merkt sand- eða leirbleyta (í fjöruborði). Sagt er um botn Apavatns að hann sé sléttur og leirborinn. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Í Hávamálum er sagt að margur verði af aurum api. Hefur höfundurinn vitað hvað api var? eftir Helga Skúla Kjartansson
- Mats: Myndasafn. © Mats Wibe Lund. Sótt 3.8.2010.