Meðan norrænir menn trúðu á jötna var api eitt þeirra niðrunarheita sem þeim voru valin (mjög ómaklega, því að jötnar voru taldir „hundvísir“, það er að segja stórvitrir). Þess vegna bregður því líka fyrir í fornu skáldamáli að orðið api merki beinlínis „jötunn“. En í því heiti felst engin líking við klifurdýrin, enda hafa Germanir að fornu ekki haft neina hugmynd um apatröll eins og górillur, heldur aðeins litla og fjöruga „apaketti“. Fyrstu kynslóðir Íslendinga hafa varla vitað neitt af öpum, og fram eftir öldum hefur þekking á þeim verið á fárra manna færi. Tamdir apar voru þó til í Evrópu á miðöldum og notaðir meðal annars í trúðasýningum. Þar hafa norrænir ferðalangar kynnst þeim, til dæmis á pílagrímsferðum. Apar koma líka fyrir í kristilegum ritum sem lærðir menn lásu á latínu og þýddu sum hver á íslensku eða norrænu. Þar nota þeir apa-heitið, sjálfsagt eftir fyrirmynd samsvarandi orða í þýsku eða ensku. Hvað þá um höfund Hávamála? Hann er reyndar persóna sem vissast er að tala varlega um. Þau Hávamál, sem við þekkjum undir því nafni, hefur vissulega einhver búið til, en ekki með því að yrkja þau heldur með því að safna saman kveðskap sem lifað hafði á vörum fólks lengur eða skemur — og varla lifað lengi alveg óbreyttur. Gestaþáttur Hávamála, sá hlutinn sem apinn er nefndur í, var löngum talinn ævaforn. En þá hlytu samt einstakar vísur að hafa breyst og bæst við í munnlegri geymd. Og þó að þátturinn sé kannski ekki eldri en frá 12. öld, eins og Hermann Pálsson hefur fært rök fyrir, þá geta samt einstök erindi eða ljóðlínur átt sér miklu eldri rætur, íslenskar eða norskar. Ljóðlínan „margur verður af aurum api“ sver sig fremur í ætt þess sem telja má ungt í Hávamálum. En hver sem mótaði hana í fyrstu hefur varla verið að líkja ríkum manni við dýrið apa heldur nota um hann viðtekið niðrunarorð. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna heitir Apavatn í Árnessýslu þessu nafni? eftir Svavar Sigmundsson
- Squishy Monkey Bread. Sótt 15.4.2009.