Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum og hver var munurinn á milli dýrkun Rómverja og Grikkja á guðunum?Bæði Grikkir og Rómverjar voru fjölgyðistrúar, það er trúðu á marga guði. Sumir grísku guðanna voru ævafornir indóevrópskir guðir sem höfðu fylgt Grikkjunum frá því áður en Grikkir urðu Grikkir – ef þannig má að orði komast. Þessi trú var menningararfur sem þeir áttu sem þjóð. Grikkir tóku aldrei upp trúna á Seif því hún hafði fylgt þeim frá upphafi, frá því áður en gríska tungumálið varð til og Grikkir urðu til sem þjóð. Gríska er indóevrópskt tungumál og á rætur að rekja til frumindóevrópsku, formóður allra indóevrópskra tungumála, en Seifur (á grísku Ζεύς Zeus) átti sjálfur rætur að rekja til indóevrópska himnaguðsins *Dyéus (stundum ritað *Dyews). Á grísku beygist nafn Seifs svona:
nefnifall Ζεύς (Zeus) eignarfall Διός (Dios) þágufall Διί (Dii) þolfall Δία (Dia) ávarpsfall Ζεῦ (Zeu)Í beygingunni er örlítil óregla en glöggt má sjá líkindin við *Dyéus/*Dyews. Seifur er himnaguð en *Dyéus merkti upphaflega bara dagbjartur himinn[1] sem svo var persónugerður og dýrkaður sem himnaguð. Indóevrópski himnaguðinn virðist hafa verið ávarpaður sem faðir, það er *Dyéu ph2tér (sbr. Dyáus pitá í sanskrít). Stundum var Seifur líka ávarpaður (í ávarpsfalli) Ζεῦ πάτερ (Zeu pater) en það festist aldrei í grísku. Í latínu, tungumáli Rómverja, festist þetta ávarp hins vegar sem nafn guðsins, það er Iuppiter eða Júpíter, eins og við skrifum á íslensku. Þess má geta að af frumindóevrópska orðinu *Dyéus er einnig komið latneska orðið dies sem merkir dagur og af orðmyndinni *deiuos, sem er rótskyld orðinu *Dyéus, er komið latneska orðið deus sem merkir guð.[2] Þannig áttu sumir rómversku guðanna og grísku guðanna sameiginlegan uppruna. Seifur og Júpíter voru upphaflega sami indóevrópski guðinn, áttu alltént rætur að rekja til sama indóevrópska guðsins. Því er erfitt að segja að Rómverjar hafi beinlínis tekið upp trúna á þessa guði frá Grikkjum. Rómverjar voru nefnilega líka erfingjar indóevrópskrar menningar, engu síður en Grikkir.

Seifur og Júpíter voru upphaflega sami indóevrópski guðinn, áttu alltént rætur að rekja til sama indóevrópska guðsins.
Svo kunnuglegt dæmi sé nefnt tóku Íslendingar upp kristna trú árið 999 fyrst og fremst af pólitískum ástæðum en áður var kristinn minnihluti í landinu. Kristni er vitaskuld innflutt trú, bæði á Íslandi og í Noregi þaðan sem hún barst Íslendingum. Við vitum sæmilega mikið um hvernig kristnin barst til Íslands en minna er vitað um áhrif erlendra trúarbragða í Grikklandi hinu forna og því oft vandi að segja hvers vegna eða með hvaða hætti trúarbrögð annarra þjóða höfðu áhrif á trúarbrögð Grikkja. Sennilega hefur þótt þess virði að taka upp trú á guði sem sagðir voru ríkja yfir ákveðnum sviðum sem þóttu mikilvæg. Ef Grikkir kynntust til dæmis lækninga- og spádómsguðinum Apolloni hjá erlendum mönnum og enginn af guðunum sem Grikkir trúðu á þá þegar ríkti yfir þessum sviðum, þá er ekki ósennilegt að þeir hafi tekið upp trúna á hann vegna þess að það hefur þótt borga sig að hafa slíkan guð sér hliðhollan.Raunar er vafasamt að Apollon hafi í upphafi verið sérstakur lækningaguð, þótt hann gæti hafa bætt við sig því hlutverki áður en Grikkir kynntust honum.[5] En þannig tignuðu Rómverjar hann framan af, það er sem Apollo Medicus og fluttu inn trúna á hann til að bregðast við farsótt sem þá geisaði í Róm. Rómverjar voru reyndar oftast (en ekki alveg alltaf) mjög fúsir til þess að bæta við sig guðum, til að mynda guðum þeirra þjóða og þjóðflokka sem þeir sigruðu og lögðu undir sig enda ekki verra að hafa sem flesta guði hliðholla sér.[6]

Fæðing Venusar eftir Sandro Botticelli. Venus var upphaflega rómversk gyðja sem smám saman fór að líkjast Afródítu meir og meir.
- ^ Robert S.P. Beekes, Comparative Indo-European Linguistics: An Introduction, endursk. 2. útg. Michiels de Vaan (John Benjamins Publishing Company, 2011), bls. 40.
- ^ Robert S.P. Beekes, Comparative Indo-European Linguistics: An Introduction, endursk. 2. útg. Michiels de Vaan (John Benjamins Publishing Company, 2011), bls. 40.
- ^ Sjá Mark P.O. Morford, Robert J. Lenardon og Michael Sham, Classical Mythology, international ninth edition (Oxford University Press, 2011), bls. 246.
- ^ Um rómversku guðina, sjá Mark P.O. Morford, Robert J. Lenardon og Michael Sham, Classical Mythology, international ninth edition (Oxford University Press, 2011), bls. 653-90.
- ^ Rök hafa verið færð fyrir því að Apollon hafi í grunninn verið veiðiguð. Sjá Edwin L. Brown, „In Search for Anatolian Apollo“, Hesperia Supplements vol. 33 (2004): 243-5.
- ^ Peter Jones og Keith Sidwell (ritstj.), The World of Rome: An Introduction to Roman Culture (Cambridge University Press, 1997), bls. 172.
- ^ Sjá t.d. Charles King, „The Organization of Roman Religious Beliefs“, Classical Antiquity 22 (2) (2003): 275-312.
- ^ Simon Price, Religions of the Ancient Greeks (Cambridge University Press, 1999), bls. 160-61. Price veitir gott yfirlit yfir alla þætti grískrar trúariðkunar.
- ^ Sjá t.d. Charles W. Hedrick Jr., „Religion and Society in Classical Greece“, hjá Daniel Ogden (ritstj.), A Companion to Greek Religion (Blackwell, 2007): bls. 283-96. Nancy Evans, Civic Rites: Democracy and Religion in Ancient Athens (University of California Press, 2010) er ítarleg greining á fléttun hins trúarlega inn í opinbert líf Aþeninga á klassískum tíma.
- ^ Ágætt yfirlit yfir trúariðkun Rómverja er að finna hjá F.R. Cowell, Life in Ancient Rome (Perigee Books, 1980), bls. 180-95. Mun ítarlegri umfjöllun um trúarbrögð í Rómaveldi er að finna hjá Mary Beard, John North og Simon Price, Religions of Rome volume I: A History (Cambridge University Press, 1998); og Jörg Rüpke (ritstj.), A Companion to Roman Religion (Blackwell, 2007).
- Seifur: Lampsacus - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 15. 9. 014).
- Venus: Venus (mythology) - Wikipedia, the free encyclopedia.