Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er að nokkru leyti einnig svarað spurningu Karenar Pétursdóttur:
Ceres var gyðja í rómverskri goðafræði, hvert var hlutverk hennar og hver eru hennar helstu einkenni?
Ceres var rómversk gyðja, ítölsk að uppruna, og var einkum dýrkuð á Aventínusarhæð í Róm. Ceres var aðallega talin tengjast sköpunarmætti náttúrunnar og gróðri. Er fram liðu stundir varð hún fyrir æ meiri áhrifum frá grískri hliðstæðu sinni, Demetru, og við upphaf 5. aldar f. Kr. var farið að slá þeim saman.
Demetra var dóttir Krónosar og Rheu og systir Seifs, Póseidóns, Hadesar, Heru og Hestíu. Hún var korngyðja og gyðja akuryrkju og var meðal annars dýrkuð í launhelgunum í Elevsis. Demetra átti með Seifi dótturina Kore eða Persefónu (sem Rómverjar nefndu Próserpínu). Með Jasíoni átti hún soninn Plútos sem rann seinna saman við hugmyndir fólks um Hades.
Sagan segir að Hades hafi numið á brott dótturina Persefónu. Demetra leitaði dóttur sinnar hvarvetna en vanrækti á meðan hlutverk sitt sem gyðja korns og akuryrkju, með þeim afleiðingum að uppskera brást. Málum var þá miðlað með þeim hætti að Persefóna fékk að fara frá undirheimum upp til móður sinnar hluta af árinu. Koma hennar til móður sinnar ofanjarðar táknar vorkomuna en það haustar þegar hún snýr aftur til undirheima.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd