Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Margir hafa vanið sig á að líta á símann sinn hvar sem er, til dæmis á fundum eða veitingastöðum. Þetta fyrirbæri, sem flestir þekkja, hefur fengið heitið phubbing á ensku og er sett saman úr ensku orðunum phone ‘sími’ og snub ‘hunsa’. Phubbing er hunsunin sem maður sýnir öðrum með því að líta á símann í stað þess að veita raunverulegu umhverfi sínu athygli. Sem dæmi má nefna tvo einstaklinga sem sitja saman á veitingastað. Annar þeirra reynir eftir fremsta megni að ná augnsambandi á meðan hinn aðilinn starir á snjallsímann. Þegar maturinn kemur er tekin mynd af honum og sett á samfélagsmiðla.
Hugtakið phubbing var myndað árið 2012 sem hluti af herferð gegn þeim ósið að hafa sífellt athyglina á símanum. Herferðin var á vegum áströlsku orðabókarinnar Macquarie Dictionary og auglýsingastofan McCann í Melbourne stóð fyrir því að myndað var nýyrði til að vekja athygli á þessu háttalagi. Umrædd herferð fékk heitið Stop Phubbing og hefur hún verið tekin upp í fjölmörgum löndum.
Vefsíðan stopphubbing.com og Facebook-síðan Stop Phubbing hafa jafnframt verið stofnaðar til að vekja athygli á því hvernig snjallsíminn getur tekið yfir líf margra sem vilja ekki missa af neinu og hafa símann sífellt við höndina til að fylgjast með uppfærslum á samfélagsmiðlum, skoða myndbönd á YouTube eða senda myndir á Facebook, Snapchat eða Instagram.
Hugtakið phubbing var myndað árið 2012 sem hluti af herferð gegn þeim ósið að hafa sífellt athyglina á símanum.
Þetta fyrirbæri hefur ekki enn fengið íslenskt heiti. Rétt er að benda á að enda þótt eitthvert fyrirbæri sé til, þá þarf ekki nauðsynlega orð fyrir það, það er hægt að tala um það án þess að til sé sérstakt orð um það. Það er til dæmis hægt að lýsa því á þann hátt að einhver sé „hangandi í símanum“ eða eitthvað í þeim dúr. Kosturinn við að hafa sérstakt orð yfir fyrirbærið er að það fær meiri athygli fyrir vikið. Vitundarvakning er líklegri til að heppnast ef til er sérstakt orð sem hægt er að nota í herferð.
Hvað gæti verið íslenskt orð fyrir þetta fyrirbæri og hvað gæti sambærileg herferð kallast hér á landi? Eins og komið hefur fram þá er enska orðið myndað á þann hátt að tveimur orðum (phone og snub) er blandað saman en slík orðmyndun er afar óalgeng í íslensku. Símunsun (nafnorð myndað af ‘sími’ og ‘hunsun’) og símunsa (sagnorð) og símunsari (gerandheiti) eru ekki líkleg til að slá í gegn og tökuorðiðföbbing hljómar ekki vel á íslensku.
Hvaða íslenskt orð má nota um þann sem starir í sífellu á símann? Getur hann kallast símstola, er hann símsturlaður eða er hann með símstol? Gæti herferð gegn þessu háttalagi kallast Stöðvum símunsun! eða einfaldlega Líttu upp! eða Leggðu símann frá þér!
Hvað gæti verið íslenskt orð fyrir þetta fyrirbæri og hvað gæti sambærileg herferð kallast hér á landi?
Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er haldið utan um nýyrði og hægt er að koma á framfæri ábendingum um nýyrði eða nýyrðatillögur, til dæmis um phubbing, í tölvupósti í gegnum netfangið arnastofnun@hi.is.
Athugasemd frá ritstjórn: Á Facebook-síðu þáttarins Orðbragð var stungið upp á að símsneiða hjá einhverjum.
Heimildir:
Ágústa Þorbergsdóttir. „Er til íslenskt orð yfir phubbing?“ Vísindavefurinn, 13. júlí 2016, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67593.
Ágústa Þorbergsdóttir. (2016, 13. júlí). Er til íslenskt orð yfir phubbing? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67593
Ágústa Þorbergsdóttir. „Er til íslenskt orð yfir phubbing?“ Vísindavefurinn. 13. júl. 2016. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67593>.