Hver er uppruni orðsins sími? Er þetta gamalt orð eða nýsmíði? Ef þetta er gamalt orð, hver var þá upphafleg merking þess? Ef þetta er nýtt orð, hver var þá hugsunin á bak við þá smíði?Orðið sími er gamalt í málinu. Það var þó einkum notað í hvorugkyni, síma, í merkingunni 'þráður, band'. Í karlkyni kemur það fyrir í samsetningunni varrsími í merkingunni 'kjölrák'. Dæmi eru um orðið í nágrannamálum. Í nýnorsku merkir sime 'reipi, taug', í sænskum mállýskum er til simme í merkingunni 'ól, reipi' og í dönsku merkir sime '(hálm)reipi'. Á eldri germönskum málstigum má finna sîmo í fornsaxnesku og sîma í fornensku í merkingunni 'band' (Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók 1989:816).
