Hvað þýðir orðið eða hugtakið skálmöld? Hvaðan er þetta orð komið og við hvers konar skálm er átt?
Orðið skálm er fornt orð yfir sverð en þekkist einnig í merkingunni 'stór hnífur, sveðja'. Skálmöld merkir 'ófriðaröld, vígaöld'. Orðið þekkist fyrst úr 44. (45.) vísu Völuspár þar sem völvan spáir fyrir um endalok heimsins (stafsetningu breytt):
Bræður munu berjast
og að bönum verða,
munu systrungar
sifjum spilla,
hart er í heimi,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir eru klofnir,
vindöld, vargöld,
áður veröld steypist
mun engi maður
öðrum þyrma.

Málverk sem sýnir ragnarök (endalok heimsins) eftir Emil Doepler (1905). Hér sést Óðinn berjast við Fenrisúlf og Freyr við Surt.
- Ragnarök — Wikipédia. (Sótt 18.06.2014).