Þéttleiki villisvína (Sus scrofa) er um 1 dýr á hverja 100 hektara í Susa-dalnum en í Pratomagno á Mið-Ítalíu er þéttleikinn hins vegar 5,1 dýr á hverja 100 hektara og þar er villisvínið aðalfæða úlfanna. Næst koma rádýr en þéttleiki þeirra í Pratomagno er geysilega mikill, eða 22,5 dýr á hverja 100 hektara. Úlfarnir á Pratomagno-svæðinu gæða sér lítið á búfénaði enda er lítið um hann í nágrenni við svæðið. Í Cecina-dalnum í Appennínafjöllum er óvenju mikill þéttleiki villisvína, rádýra og múfflon-sauðfjár. Þar eru rádýr helsta bráð úlfanna eða rúmlega 80% af heildarbráðinni yfir sumartímann. Úlfarnir veiða einnig múfflon-sauðfé og villisvín. Í Bialowitza-skóginum í Suður-Póllandi hafa rannsóknir sýnt að fæðuvalið fer mjög eftir stærð hópsins. Hópar sem telja um 4,4 úlfa að meðaltali veiða minni bráðir, eins og bjór, ungviði dádýra og villisvína en hjá stærri hópum eru rauðhirtir algengasta bráðin. Rannsóknir í fyrrum Sovétríkjunum sýna að elgir og rauðhirtir eru að jafnaði algengasta bráðin. Þar er meðalhópastærð úlfanna að jafnaði meiri en í Bialowitz-skóginum. Á svæðum þar sem hreindýrarækt er stunduð, svo sem á svæðum Sama í Finnlandi og Vestur-Rússlandi, eru hreindýr stór huti bráðar úlfa. Í Chukotka-héraði í norðausturhluta Síberíu er vetrarfæða úlfa villt hreindýr og elgir en á sumrin snúa þeir sér að hálfvilltum hreindýrum hirðingjanna og éta einnig minni bráð af ýmsu tagi. Í Vesturheimi lifa úlfar í Kanada og Bandaríkjum. Ítarlegar rannsóknir hafa farið fram á fæðuvali úlfa af deilitegundinni Canis lupus occidentalis en hún lifir í vesturhluta Kanada og Alaska. Syðst í Kanada veiða úlfarnir óvenju stóra bráð, enda er deilitegundin sú stærsta í Norður-Ameríku. Skógarvísundar, elgir, hreindýr og hirtir koma allir fyrir á matseðli úlfanna. Einstaklingar þessarar deilitegundar voru fluttir í Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum. Þar veiða úlfarnir sléttuvísunda sem er stærsta nautgripategund Norður-Ameríku. Nú á dögum lifa úlfar aðallega á svæðum þar sem miklar sveiflur eru í umhverfinu, ekki aðeins í veðurfari heldur einnig framboði á veiðidýrum. Á Ellesmere eyju, sem tilheyrir Kanada, eru snjóhérar stór hluti af fæðu úlfa á sumrin en á veturna veiða þeir hlutfallslega meira af hreindýrum og sauðnautum. Slíkar breytingar á bráð eru algengari hjá úlfum á norðurhjaranum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki? eftir Pál Hersteinsson
- Hvað er líkt með atferli hunda og úlfa? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað eru refir og úlfar mikið skyldir? eftir Jón Má Halldórsson
- Boitani, L. og Mech L. Wolves Behavior, Ecology and Conservation. Chicago University Press; 2. útg. 2003.
- Capitani. C. o.fl. A comparative analysis of wolf (Canis lupus) diet in three different Italian ecosystems. cite>Mammalian Biology, 2004. Volume 69, issue 1.
- King’s Outdoor World Blog. Sótt 20.3.2009.