
Vinsældir Guðrúnar frá Lundi hvíldu án efa á því að hinir nýju bæjarbúar eftirstríðsáranna, sem flestir ólust upp í bændasamfélaginu, höfðu þörf fyrir að heyra þessar sögur aftur og aftur eins og syrgjendur sem eru að venja sig við og sættast á missi þess sem horfinn, eða horfið, er. Myndin er af Guðrúnu að raka. © Stefán Pedersen.
Dalalíf efst á metsölulistann
Frægasta verk Guðrúnar, Dalalíf, kom út í fimm bindum á árunum 1946-1951. Verkið er 2189 blaðsíður og með lengstu skáldsögum í evrópskri bókmenntasögu. Lesendur tóku Dalalífi af mikilli hrifningu, bækurnar urðu metsölubækur eins og skot og nú fylgdi hver bókin annarri: Tengdadóttirin I-III (1952-1954), Þar sem brimaldan brotnar (1955), Römm er sú taug (1956), Stýfðar fjaðrir I-III (1961-1963) og Hvikul er konuást (1964) - svo að nokkrar séu nefndar. Guðrún náði að skrifa tuttugu og sex bækur og síðasta bók hennar kom út árið 1973. Hún dó 86 ára, árið 1975. Borgarmyndunin var hröð á eftirstríðsárunum og fólk flutti í stríðum straumum úr sveitunum til þorpa og bæja. Guðrún frá Lundi skrifaði hins vegar sveitasögur. Þær gerast í gamla bændasamfélaginu, sem hún ólst upp í, en var nú að hverfa hratt. Allar sögurnar eru átthagasögur og gerast í Skagafirði sem er sagnaheimur Guðrúnar. Stóru skáldsögurnar hennar í mörgum bindum eru ættarsögur, þar er fjallað um ástir unga fólksins en samt eru þær ekki ástarsögur í rómantískum og tilfinningasömum skilningi því að Guðrún er fylgjandi skynsemi og gagnkvæmri virðingu milli kynjanna. Villtar ástríður eða óhóf leiða bara til upplausnar og óhamingju og þannig sambönd endast illa í bókum hennar. Hóf er best í öllu. Sögur Guðrúnar eru grípandi lesning, sterkir persónuleikar takast á og margar frásagnir fléttaðar saman af list. Hver einasta bók Guðrúnar frá Lundi var rifin út, menn vildu eiga þær og á listum yfir útlán bókasafnanna var hún líka langefst á blaði á hverju ári. Vinsældir Guðrúnar frá Lundi hvíldu án efa á því að hinir nýju bæjarbúar eftirstríðsáranna, sem flestir ólust upp í bændasamfélaginu, höfðu þörf fyrir að heyra þessar sögur aftur og aftur eins og syrgjendur sem eru að venja sig við og sættast á missi þess sem horfinn, eða horfið, er.Kerlingabækur og kaffibollaþvaður
Menningarvitarnir hneyksluðust á vinsældum Guðrúnar og annarra skáldkvenna og fannst að lágmenningin hefði sigrað í íslenskum bókmenntum ef enginn vildi lengur lesa (karl)þjóðskáldin. Talað var illa um sögur Guðrúnar, hæðst að þeim og dregið í efa að þær væru alvöru bókmenntir. Sögur hennar voru miðlægar árið 1964 í hinni svokölluðu „kerlingarbókadeilu“ sem Helga Kress hefur rakið. Halldór Laxness blandaði sér í þá deilu og hældi Guðrúnu og öðrum sögukonum sem hann sagði að hefðu varðveitt íslenskar bókmenntir öldum saman. Þó að Guðrún notaði oft stílbrögð og mælskulist munnlegrar frásagnar var hún nútímalegur höfundur. Frásagnaraðferðir munnlegrar menningar voru líka notaðar af norrænu Nóbelshöfundunum Selmu Lagerlöf, Karen Blixen og Astrid Lindgren, svo nokkrir höfundar séu nefndar. Guðrún leggur áherslu á það í viðtölum að öfugt við sagnaþulina, segi hún frá eða skrifi aðeins fyrir sjálfa sig. Hún segist aldrei hugsa um lesendur þegar hún skrifi. Guðrún frá Lundi skrifaði af sterkri, innri þörf eins og kemur fram í þessum orðum hennar í viðtali við Helga Konráðsson:... en ég hefði alltaf haldið áfram að semja, án þess að hugsa um, hvort það yrði gefið út eða ekki. Ég gat ekki án þess verið að skrifa.
Hrútadalur lifir
Straumar og stefnur komu og fóru í bókmenntunum en sagnaheimur Guðrúnar var alltaf sá sami. Sögur hennar þóttu orðið gamladags undir lok ævi hennar og voru að gleymast þegar nýr áhugi kviknaði á verkum hennar, sögumennsku hennar og sálfræðilegu innsæi. Sögusvið Dalalífs er Hrútadalur, tilbúinn dalur sem líkist æskuslóðum Guðrúnar í Skagafirði. Síðustu ár hafa verið haldin vinsæl mót og ráðstefnur á heimaslóðum Guðrúnar í Skagafirði á sumrin þar sem aðdáendur Guðrúnar koma og ræða verk hennar undir merkjum Hrútadals. Heimildir:- Dagný Kristjánsdóttir, „Heiður kaffikönnunnar“, Undirstraumar, Háskólaútgáfan, 1999.
- Guðjón Ragnar Jónasson, „Er enn líf í Hrútadal. Frásögn af málþingi um Guðrúnu frá Lundi“, Skíma, 2, 2010.
- Hallgrímur Helgason, „Kona fer undir vatn“, Tímarit Máls og menningar, nr. 1, 2012
- Helga Kress, „Bækur og „kellíngabækur“ [1978], endurprentuð í Speglanir. Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu. Greinasafn. Reykjavík: Rannsóknastofa í kvennafræðum, 2000.
- Helgi Konráðsson, „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin.“ Morgunblaðið, 24. Desember, 1952, Jólablað III, bls. 7.
- Sigurrós Erlingsdóttir, „Guðrún frá Lundi 1887-1975“, Sauðárkrókur : Héraðsbókasafn Skagfirðinga, 2004
- Guðrún rakar við heimili sitt á Sauðarkróki 1972. Birt með góðfúslegu leyfi Stefáns Pedersen ljósmyndara.