Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu?

Eiríkur Rögnvaldsson

Við sem eigum íslensku að móðurmáli erum ekki í vandræðum með að þekkja hana þegar við heyrum hana talaða eða sjáum hana á prenti, en málið vandast ef við eigum að skilgreina tunguna. Fram á síðustu öld hefði dugað að segja: „Íslenska er það tungumál sem er talað á Íslandi“, því að tæpast voru önnur tungumál töluð í landinu nema hjá fáeinum dönskum kaupmönnum og embættismönnum.

Nú eru aðstæður gerbreyttar og fjölmörg tungumál töluð á Íslandi, þótt íslenska sé vitaskuld ennþá móðurmál yfirgnæfandi meirihluta íbúanna. Ef skilgreining af þessu tagi er notuð verður því að minnsta kosti að breyta orðalaginu og segja: „Íslenska er það tungumál sem langflestir íbúar Íslands eiga að móðurmáli“. (Athugið að hér er sagt „íbúar Íslands“ en ekki „Íslendingar“, vegna þess að skilgreining þess hver sé Íslendingur er ekki síður snúin en skilgreining tungumálsins.)

Það má líka hugsa sér að skilgreina íslensku út frá ákveðnum formseinkennum í hljóðafari, beygingum og setningagerð. Til dæmis má segja að íslenska sé tungumál þar sem tiltekin málhljóð eru notuð (og telja þau upp) og tilteknar reglur gilda um það hvernig þau geta raðast saman; þar sem fallorð hafa þrjú kyn, tvær tölur og fjögur föll, og sagnir beygjast í persónum, tíðum og háttum; þar sem sögn í persónuhætti er yfirleitt ekki aftar en annar liður í setningu; og svo framvegis. Hvert þessara atriða um sig getur átt við fleiri mál en íslensku, en þegar þau koma öll saman fáum við lýsingu sem fellur væntanlega ekki að neinu öðru máli. En skilgreining af þessu tagi er flókin og vandmeðfarin.


Germönsk tungumál skiptast í þrjár greinar; íslenska tilheyrir norðurgermönskum málum.

Væntanlega liggur þó beinast við skilgreina íslensku út frá uppruna, segja að hún sé indóevrópskt mál, nánar til tekið norðurgermanskt, og enn nánar vesturnorrænt. Það er svo álitamál hvenær íslenska hafi orðið til. Tæpast er hægt að segja að það hafi verið þegar við landnám – eðlilegra er að segja að íslenska verði til sem sérstakt tungumál þegar einhver tiltekinn munur er orðinn á því máli sem talað er á Íslandi og málinu í Noregi.

Það er hins vegar útilokað að tímasetja tilurð íslensku – í þessum skilningi – nákvæmlega. Bæði skortir okkur heimildir um það hversu mikill munurinn var á hverjum tíma, og eins er skilgreiningaratriði hversu mikill hann þarf að vera til að réttlætanlegt sé að tala um íslensku sem sérstakt tungumál – frekar en sem norska mállýsku. Munurinn á máli og mállýsku er raunar sérstakt viðfangsefni sem ekki verður leyst á einfaldan hátt.

En skilgreiningin er að einhverju leyti háð tíma og ytri aðstæðum. Hvað ef íslenskan breytist verulega í framtíðinni? Hættir hún þá að vera íslenska? Hér er hægt að draga fram hliðstæður. Íslenska nútímans er talsvert frábrugðin íslensku Sturlungaaldar á ýmsan hátt, en við erum þó ekki í vafa um að þetta sé sama tungumálið. Og enska er enn skilgreind sem vesturgermanskt mál, enda þótt hún hafi tekið upp aragrúa orða og orðstofna af rómönskum toga (úr latínu og frönsku). Sú enska sem töluð var fyrir þúsund árum á ekki margt sameiginlegt með enskunni nú á dögum – hljóðafar, beygingar, setningagerð og orðaforði hefur gerbreyst. En hún er samt enn kölluð enska.


Myndin sýnir hluta af forsíðu handrits Snorra-Eddu frá 18. öld. Eins og sjá má eru ekki öll orð stafsett eins og nú er gert. Þó liggur enginn vafi á að handritið er skrifað á íslensku.

Það sem skiptir hér meginmáli er óslitin söguleg þróun. Á nokkrum öldum eða heilu árþúsundi getur innri gerð tungumáls gerbreyst, og sömuleiðis ytri aðstæður þess. En breytingarnar gerast ekki eins og hendi sé veifað – sáralítil breyting verður frá ári til árs, en þegar litið er til áratuga og alda eru breytingarnar augljósar.

Út frá þessu má spyrja: Hvaða tungumál verður talað á Íslandi eftir hundrað ár? Því er vitaskuld ógerlegt að svara með nokkurri vissu. Það verður örugglega talsvert frábrugðið því máli sem við tölum nú. En ef þróunin verður óslitin næstu öld verður þetta örugglega íslenska. Hún kann að hafa tekið upp mikinn fjölda enskra orða, hún kann að hafa misst eitthvað af beygingum, setningagerðin kann að hafa tekið breytingum, og það kann að vera að þeir sem þá verða ungir eigi í erfiðleikum með að lesa það sem við skrifum nú – en það verður samt engin ástæða til að kalla þetta neitt annað en íslensku. Öðru máli gegnir ef þjóðin tæki sig saman um það einhvern daginn að skipta um tungumál og fara til dæmis að tala ensku. Þá væri ekki lengur um óslitna þróun að ræða.

Hugsanleg skilgreining á íslensku árið 2007 væri því á þessa leið: Indóevrópskt (vesturnorrænt) tungumál, beygingamál sem hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál, aðaltungumálið á Íslandi og móðurmál langflestra Íslendinga.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Myndir

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

18.6.2007

Spyrjandi

Stefanía Skaftadóttir, f. 1990

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu?“ Vísindavefurinn, 18. júní 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6689.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2007, 18. júní). Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6689

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu?“ Vísindavefurinn. 18. jún. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6689>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu?
Við sem eigum íslensku að móðurmáli erum ekki í vandræðum með að þekkja hana þegar við heyrum hana talaða eða sjáum hana á prenti, en málið vandast ef við eigum að skilgreina tunguna. Fram á síðustu öld hefði dugað að segja: „Íslenska er það tungumál sem er talað á Íslandi“, því að tæpast voru önnur tungumál töluð í landinu nema hjá fáeinum dönskum kaupmönnum og embættismönnum.

Nú eru aðstæður gerbreyttar og fjölmörg tungumál töluð á Íslandi, þótt íslenska sé vitaskuld ennþá móðurmál yfirgnæfandi meirihluta íbúanna. Ef skilgreining af þessu tagi er notuð verður því að minnsta kosti að breyta orðalaginu og segja: „Íslenska er það tungumál sem langflestir íbúar Íslands eiga að móðurmáli“. (Athugið að hér er sagt „íbúar Íslands“ en ekki „Íslendingar“, vegna þess að skilgreining þess hver sé Íslendingur er ekki síður snúin en skilgreining tungumálsins.)

Það má líka hugsa sér að skilgreina íslensku út frá ákveðnum formseinkennum í hljóðafari, beygingum og setningagerð. Til dæmis má segja að íslenska sé tungumál þar sem tiltekin málhljóð eru notuð (og telja þau upp) og tilteknar reglur gilda um það hvernig þau geta raðast saman; þar sem fallorð hafa þrjú kyn, tvær tölur og fjögur föll, og sagnir beygjast í persónum, tíðum og háttum; þar sem sögn í persónuhætti er yfirleitt ekki aftar en annar liður í setningu; og svo framvegis. Hvert þessara atriða um sig getur átt við fleiri mál en íslensku, en þegar þau koma öll saman fáum við lýsingu sem fellur væntanlega ekki að neinu öðru máli. En skilgreining af þessu tagi er flókin og vandmeðfarin.


Germönsk tungumál skiptast í þrjár greinar; íslenska tilheyrir norðurgermönskum málum.

Væntanlega liggur þó beinast við skilgreina íslensku út frá uppruna, segja að hún sé indóevrópskt mál, nánar til tekið norðurgermanskt, og enn nánar vesturnorrænt. Það er svo álitamál hvenær íslenska hafi orðið til. Tæpast er hægt að segja að það hafi verið þegar við landnám – eðlilegra er að segja að íslenska verði til sem sérstakt tungumál þegar einhver tiltekinn munur er orðinn á því máli sem talað er á Íslandi og málinu í Noregi.

Það er hins vegar útilokað að tímasetja tilurð íslensku – í þessum skilningi – nákvæmlega. Bæði skortir okkur heimildir um það hversu mikill munurinn var á hverjum tíma, og eins er skilgreiningaratriði hversu mikill hann þarf að vera til að réttlætanlegt sé að tala um íslensku sem sérstakt tungumál – frekar en sem norska mállýsku. Munurinn á máli og mállýsku er raunar sérstakt viðfangsefni sem ekki verður leyst á einfaldan hátt.

En skilgreiningin er að einhverju leyti háð tíma og ytri aðstæðum. Hvað ef íslenskan breytist verulega í framtíðinni? Hættir hún þá að vera íslenska? Hér er hægt að draga fram hliðstæður. Íslenska nútímans er talsvert frábrugðin íslensku Sturlungaaldar á ýmsan hátt, en við erum þó ekki í vafa um að þetta sé sama tungumálið. Og enska er enn skilgreind sem vesturgermanskt mál, enda þótt hún hafi tekið upp aragrúa orða og orðstofna af rómönskum toga (úr latínu og frönsku). Sú enska sem töluð var fyrir þúsund árum á ekki margt sameiginlegt með enskunni nú á dögum – hljóðafar, beygingar, setningagerð og orðaforði hefur gerbreyst. En hún er samt enn kölluð enska.


Myndin sýnir hluta af forsíðu handrits Snorra-Eddu frá 18. öld. Eins og sjá má eru ekki öll orð stafsett eins og nú er gert. Þó liggur enginn vafi á að handritið er skrifað á íslensku.

Það sem skiptir hér meginmáli er óslitin söguleg þróun. Á nokkrum öldum eða heilu árþúsundi getur innri gerð tungumáls gerbreyst, og sömuleiðis ytri aðstæður þess. En breytingarnar gerast ekki eins og hendi sé veifað – sáralítil breyting verður frá ári til árs, en þegar litið er til áratuga og alda eru breytingarnar augljósar.

Út frá þessu má spyrja: Hvaða tungumál verður talað á Íslandi eftir hundrað ár? Því er vitaskuld ógerlegt að svara með nokkurri vissu. Það verður örugglega talsvert frábrugðið því máli sem við tölum nú. En ef þróunin verður óslitin næstu öld verður þetta örugglega íslenska. Hún kann að hafa tekið upp mikinn fjölda enskra orða, hún kann að hafa misst eitthvað af beygingum, setningagerðin kann að hafa tekið breytingum, og það kann að vera að þeir sem þá verða ungir eigi í erfiðleikum með að lesa það sem við skrifum nú – en það verður samt engin ástæða til að kalla þetta neitt annað en íslensku. Öðru máli gegnir ef þjóðin tæki sig saman um það einhvern daginn að skipta um tungumál og fara til dæmis að tala ensku. Þá væri ekki lengur um óslitna þróun að ræða.

Hugsanleg skilgreining á íslensku árið 2007 væri því á þessa leið: Indóevrópskt (vesturnorrænt) tungumál, beygingamál sem hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál, aðaltungumálið á Íslandi og móðurmál langflestra Íslendinga.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Myndir

...