Ég er að velta fyrir mér virkni sótthita. Þegar maður veikist á maður að taka hitalækkandi til þess að hjálpa líkamanum að starfa eða er hitinn tæki líkamans til þess að herja á óværur?Sótthiti er nokkuð sem flestir, ef ekki allir, upplifa einhvern tíma. Þessi fylgikvilli veikinda hefur fylgt manninum alla tíð og hefur læknisfræðin reynt að meðhöndla hann allt frá tímum Hippókratesar og jafnvel fyrr. Talað er um sótthita þegar líkamshitinn hækkar frá hinu eðlilega kjörgildi (36,5-37,5°C). Sótthiti er ekki sjúkdómur heldur er hann tilkomin vegna eðlilegra viðbragða líkamans við bakteríu- eða veirusýkingu. Hitinn hamlar vexti baktería og eykur framleiðslu hvítra blóðkorna svo sem daufkyrninga og eitilfrumna. Hann hefur einnig hlutverk í bólguviðbrögðum líkamans. Það eru ekki aðeins bakteríur og veirur sem valda sótthita, hiti getur einnig hækkað vegna krabbameina, heilablæðinga og af fleiri orsökum. Hitastigi líkamans er stýrt af undirstúkunni í heilanum, hún ákveður kjörgildið, sem er venjulega eðlilegur líkamshiti. Sýklar sem berast inn í líkamann mynda efni sem kallast sótthitavaldar (e. pyrogens) og það sama gera frumur í ónæmiskerfinu. Þessir sótthitavaldar hafa áhrif á framleiðslu prostaglandína ásamt öðrum hita- og bólguvaldandi þáttum. Prostaglandínin hafa síðan áhrif á undirstúkuna þannig að kjörhitagildi hennar hækkar. Við það þarf líkamshitinn að hækka svo hann samræmist þeim kjörhita sem undirstúkan er stillt á. Það næst með æðasamdrætti sem dregur úr hitatapi í gegnum húðina og beinir blóði frá útlimum. Ef þetta er ekki nóg reynir líkaminn að framleiða enn meiri hita með hreyfingu vöðva og þá förum við að skjálfa, þrátt fyrir það að vera með hita.

Sótthiti er hluti af vörnum líkamans gegn sýkingu. Það að lækka hitann með lyfjum getur mögulega haft áhrif á þetta varnarferli.
- David M. Aronoff og Eric G. Neilson, (2001). Antipyretics: Mechanisms of Action and Clinical Use in Fever Suppression. The American Journal Of Medicine. Volume 111(4): 304-315.
- The Merck Manual. 18. útgáfa, 2006.
- Steering Committee on Quality Improvement and Management, Subcommittee on Febrile Seizures, (2008). Febrile Seizures: Clinical Practice Guideline for the Long-term Management of the Child With Simple Febrile Seizures. Pediatrics. Volume 121(6).
- Mynd: A Fever Is A Good Thing, Don’t Suppress It | Health Impact News. (Sótt 29. 4. 2014).