Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvor er eiginlega vorboðinn ljúfi: Lóa eða þröstur? Er nafngiftin ekki komin frá Jónasi Hallgrímssyni?
Það leikur enginn vafi á því að 'vorboðinn ljúfi' í kvæðinu Ég bið að heilsa eftir Jónas Hallgrímsson er þröstur.
Í kvæðinu ávarpar ljóðmælandinn fuglinn sem vorboðann ljúfa í fyrri þríhendunni og kvæðið endar síðan á línunni:
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.
Jónas orti kvæðið árið 1844 og það birtist fyrst á prenti í Fjölni sama ár.
Kvæðið hefur meðal annars verið túlkað sem ákall til landsmanna um að láta ekki deigan síga í baráttu sinni fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Sú túlkun byggir til að mynda á því að skúfur stúlkunnar í seinni þríhendunni var í fyrstu gerð kvæðisins grænn en í Fjölni er skúfurinn orðinn rauður.
Grænn var hinn hefðbundni litur á skúfum. Með því að nota rauðan lit telja Dick Ringler og Áslaug Sverrisdóttir að Jónas hafi skírskotað til þekktra tákna úr frönsku byltingunni. Hægt er að lesa meira um þá túlkun hér.
Kvæði Jónasar er sonnetta. Sonnetta er upprunalega ítalskur bragarháttur sem ítölsku skáldin Dante og Petrarka eru talin hafa fullkomnað. Á ítölsku er bragarhátturinn nefndur 'sonetto' sem er dregið af sögninni 'sonare', að hljóma. Sonnettan "Ég bið að heilsa" er sú fyrsta á íslensku sem þekkt er. Þar fylgir Jónas ítölsku gerðinni nokkuð vel en fyrirmyndir hans eru taldar hafa verið danskar og þýskar sonnettur.
Ítalskar sonnettur eru 14 braglínur með 11 atkvæðum í hverri línu. Braglínurnar skiptast í tvær ferhendur (fjórar línur í erindi) og tvær þríhendur (þrjár línur í erindi). Rímið er yfirleitt abba, abba, og cdc, dcd.
En hefði boðberi Jónasar getað verið af annarri fuglategund? Margir tengja vorkomuna líklega við lóuna, samanber ljóðlínuna "Lóan er komin að kveða burt snjóinn" eftir Pál Ólafsson. Í erindi sem Jónas flutti árið 1835 skrifaði hann um lóuna og hrossagaukinn sem boðbera vorsins:
Er það nokkur ykkar sem ekki hefur lifnað við þegar þið heyrðuð til lóunnar og hrossagauksins fyrst á vorin? (RJH:207)
Um þröstinn segir Jónas í sama erindi:
Hann kemur snemma á vorin og ætlar þá að deyja úr kulda; þá er hann heima við hús og bæi, og þið munið víst eftir hópunum sem stundum sátu á Bessastaðatúni. (RJH:215)
Umsagnir Jónasar um fuglana benda þess vegna til að 'vorboðinn ljúfi' hefði allt eins getað verið lóa eða hrossagaukur.
Það gæti þó skipt einhverju að fuglinn á að heilsa stúlkunni, væntanlega með fuglasöng. Þrösturinn er vel til þess fallinn enda flokkar Jónas hann til söngfugla þegar hann þýðir latneska heitið Oscines í fyrrnefndu erindi sínu. Lóan er hins vegar hlaupafugl (Cursores) og spóinn vöðufugl (Grallae) samkvæmt þeirri flokkun sem Jónas beitir í erindi sínu.
Auðvitað mætti leika sér aðeins að kvæðinu og segja að skilvirkast hefði verið að láta bréfdúfu flytja kveðjuna. Þá er rétt að hafa í huga að kvæði Jónasar er ekki hugsað sem eiginleg eða bókstaflega kveðja sem á að koma til skila. Kveðjan er fyrst og fremst ljóð um kveðju. Hægt er að lesa meira um þetta í svari við spurningunni Af hverju segjum við halló þegar við svörum í símann? en þar er fjallað um boðskiptalíkan málvísindamanna.
Svo má einnig benda á að þröstur er karlkynsorð og kvæðið fengi eilítið annan blæ ef fuglinn sem færir stúlkunni kveðjuna héti kvenkynsorði. Að auki er Þröstur einnig karlmannsnafn þannig að hugsanlegur fundur stúlkunnar og þrastarins fær á sig mennskari blæ en ella.
Að vísu er rétt að hafa í huga að Þröstur var nær óþekkt sem karlmannsnafn fyrr en á 20. öld og þeir sem lásu kvæðið um miðja 19. öld upplifðu það öðruvísi en við nútímalesendur. Karlmannsnafnið Þröstur er þekkt í nokkrum fornum textum, Þröstur Hámundarson og nafni hans Egilsson koma fyrir í Landnámu og þar er einnig að finna Þröst berserk. Í Gríms sögu loðinkinna kemur Þröstur einnig við sögu. Sem nafn á persónu finnst það ekki aftur í textum fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar sem komu út eftir miðja 19. öld, og þá sem eitt af tuttugu börnum Grýlu. Samkvæmt gagnagrunni Íslendingabókar er nafnið síðan aftur tekið upp snemma á 20. öld.
Það má þess vegna segja að Jónas hafi valið ágætan fugl til að færa stúlkunni sinni kveðjuna "Ég bið að heilsa".
Hægt er að lesa meira um þresti og aðra fugla á Vísindavefnum, meðal annars í svörum við spurningunum:
Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Mál og menning, Reykjavík 1989.
Jónas Hallgrímsson, Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, 3. bindi, Náttúran og Landið (ritstj. Haukur Hannesson, Pál Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson), Svart á hvítu, Reykjavík 1989.
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvort er vorboðinn ljúfi lóa eða þröstur?“ Vísindavefurinn, 29. maí 2007, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6657.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2007, 29. maí). Hvort er vorboðinn ljúfi lóa eða þröstur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6657
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvort er vorboðinn ljúfi lóa eða þröstur?“ Vísindavefurinn. 29. maí. 2007. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6657>.