Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Spurningin í heild hljóðaði svona: Hvar hafa spörfuglar á Suðurlandi náttstað og hvert leituðu þeir þegar minna var um tré á fyrri hluta síðustu aldar?
Náttstaðir spörfugla eru eins misjafnir og tegundirnar eru margar. Sumir fuglar safnast saman í hópa til að sofa, á meðan aðrir velja sér náttstað þar sem þeir eru staddir hverju sinni.
Starinn er sennilega sá fugl íslenskur, sem þekktastur er fyrir að nátta sig í trjám. Þekktasti náttstaður hans er í Skógræktinni í Fossvogi, þar sem obbinn af Innnesjastörunum náttar sig. Fleiri náttstaðir eru þó á Innnesjum, til dæmis er einn í grenilundi í Mosfellssveit.
Höfundi er kunnugt um tvo staranáttstaði á Suðurlandi. Samkvæmt Erni Óskarssyni, líffræðingi á Selfossi, nátta starar sig núna í garði við Hlaðavelli. Þeir virðast þó sífellt vera að breyta um náttstað. Í nokkur ár voru þeir í greni við Bankaveg, en hafa lítið sést þar síðustu 3 árin. Sennilega nátta starar úr öllum Flóanum sig á Selfossi, þannig að fuglarnir sem sækja á Eyrar (Stokkseyri og Eyrarbakka), hverfa þaðan á kvöldin.
Annar staranáttstaður er svo í garði Kristmanns heitins Guðmundssonar, rithöfundar í Hveragerði (uppl. frá Einari Þorleifssyni). Þar nátta sig starar sem halda til í Hveragerði og Ölfusi, en þeim hefur fjölgað á síðustu árum.
Stararnir nota náttstaðina fyrst og fremst á veturna, en á vorin og fram eftir sumri halda þeir sig á varpstöðvunum allan sólarhringinn. Þó er alltaf einhver slæðingur af geldfugli og fuglum, sem varp hefur misheppnast hjá, á náttstöðunum yfir sumarið. Síðsumars, þegar ungar eru orðnir fleygir, nátta stararnir sig stundum í litlum hópum í bráðabirgðanáttstöðum nærri varpstöðvunum. Starar heimsækja oft varpstaðina á veturna, sérstaklega í hlýindum.
Starinn hóf að verpa í Reykjavík árið 1960 og hefur breiðst þaðan út til Suður- og Vesturlands. Því hefur alltaf verið nóg af trjám handa honum, til að nátta sig í. Hann notar aðallega sitkagreni sem náttstað, en undantekningar eru til dæmis bergflétta í garði Hressingarskálans við Austurstræti, stúka Laugardalshallarinnar, gafl Háskólabíós og mastur við áburðarverksmiðjuna í Gufunesi.
Annar þekktur „náttstaðafugl“ er hrafninn. Hann náttar sig í klettum og eru Ingólfsfjall, Vörðufell og Þríhyrningur meðal kunnra náttstaða á Suðurlandi.
Skógarþrösturinn safnast helst í náttstaði á haustin, fyrir farið. Á Innnesjum er stór náttstaður í Skógræktinni í Fossvogi, í nábýli starans. Á Suðurlandi virðast stóru hausthóparnir einfaldlega sofa úti í móa (berjamó) eða í birkikjarri, eins og þeir hafa sennilega alltaf gert. Skógarþrestir verpa enn á jörðu niðri í kjarrskógunum. Það er þó að aukast, sérstaklega með aukinni ræktun barrtrjáa, að þeir verpi í trjám úti í náttúrunni, eins og þeir hafa gert í húsagörðum í áratugi.
Auðnutittlingar voru lítið á Suðurlandi fyrr en tré fóru að vaxa og ná ákveðinni hæð. Þeir lifa mest á birkifræi. Músarrindillinn er mest í hinum gömlu birkiskógum, en hann nýtir sér einnig annan trjágróður, þar með talið barrtré. Hinn nýi landnemi í sunnlenskum skógum, glókollurinn, kom ekki til sögunnar fyrr en fyrir örfáum árum. Hann er staðfugl, kjörlendi hans er greniskógar og lifir hann á grenilús.
Aðrir íslenskir spörfuglar eins og þúfutittlingur, maríuerla, steindepill og snjótittlingur, eru ekki háðir trjám nema að mjög litlu leyti.
Ítarefni:
Einar Ó. Þorleifsson & Jóhann Óli Hilmarsson 2002. „Íslenskir skógarfuglar.“ Skógræktarritið 2002, 1:67-76.
Jóhann Óli Hilmarsson 1999. Íslenskur fuglavísir. Iðunn, Reykjavík, 193 bls.
Skarphéðinn G. Þórisson 1981. „Landnám, útbreiðsla og stofnstærð stara á Íslandi.“ Náttúrufræðingurinn 51: 145-163.
Jóhann Óli Hilmarsson. „Hvar hafa spörfuglar á Suðurlandi náttstað?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3064.
Jóhann Óli Hilmarsson. (2003, 27. janúar). Hvar hafa spörfuglar á Suðurlandi náttstað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3064
Jóhann Óli Hilmarsson. „Hvar hafa spörfuglar á Suðurlandi náttstað?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3064>.