Er öflugt leysiljós sýnilegt yfir einhverja marktæka vegalengd í gegnum snjóstorm? Dæmi: Ferðamaður upp á jökli týnist í blindbyl, hann er með öflugt leysiljós (1000mW+). Mundi björgunarsveitin sjá leysiljósið yfir einhverja marktæka vegalengd?Stutta svarið við þessari spurningu er nei. Við getum séð svipaðar aðstæður þegar friðarsúlan í Viðey lýsir upp í afmarkað skýjaþykkni. Neðan skýja er súlan dauf og bláleit ásýndar en um leið og hún nær upp í skýin dreifist hvítt ljósið tugi metra út frá súlunni. Við sjáum stóran hvítan hnúð á ljóssúlunni í skýinu. Ofan skýja verður súlan aftur bláleit og dauf ásýndar ef hún þá nær í gegnum skýin. Ljósið dreifist í allar áttir þegar það lendir á ögnum í loftinu. Í skýjum eða þoku eru agnirnar litlir vatnsdropar og í snjóstormi eru þær ískristallar. Þegar agnirnar eru stærri en öldulengdir í ljósgeislanum verður styrkur dreifingarinnar óháður öldulengdinni og við fáum svokallaða Mie-ljósdreifingu. Mie-ljósdreifing gefur skýjunum, þokunni, snjónum og snjóstorminum grá-hvíta áferð í dagsbirtu (hvítu ljósi). Milli skýjalaga skynjum við aftur bláa áferð á friðarsúlunni vegna Rayleigh-dreifingar frá sameindum loftsins (N2 og O2) sem eru miklu minni um sig en öldulengdir sýnilegs ljóss. Rayleig-dreifingin er kröftugust fyrir stystu öldulengdirnar, þær bláu. En snúum okkur aftur að ferðamanninum í blindbyl á jökli. Hann beinir leysigeislanum sínum inn í bylinn. Geislinn dreifist af ískristöllunum í allar áttir og nánasta umhverfi hans tekur lit geislans. Ef geislinn er grænn myndast grænleit hálfkúla umhverfis manninn og hann fær ofbirtu í augun. Ljósstyrkurinn sem hann ætlaði að senda frá sér kemst ekki langt og veldur honum sjálfum miklum óþægindum. Til þess að koma rafsegulbylgjum í gegnum bylinn þarf öldulengdir sem eru miklu lengri en þvermál ískristallanna. Til þess þarf örbylgjur með öldulengdir sem við teljum í sentimetrum eða útvarpsbylgjur með öldulengir frá nokkrum metrum upp í hundruð metra. Við hlustum áfram á útvarp í bifreið þó ekið sé inn í þoku eða snjóbyl en getum ekki ekið með háu ljósin á vegna ljósdreifingar eða endurskins. Mynd:
- © Jón Reykdal.