Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dæmigerður líftími skýja er á bilinu 10 mínútur til klukkustundar.
Ský eru sýnilegur hluti uppstreymis, sá hluti þar sem dropar eða ískristallar hafa myndast þegar loft kólnar við að lyftast. Uppstreymið er síbreytilegt en á sér oftast stað í smáum og skammlífum einingum sem ekki lifa nema í nokkrar mínútur hver. Svo lengi sem nýjar uppstreymiseiningar taka við sjáum við skýið sífellt endurnýjast. Það virðist vera hið sama en er það ekki.
Einstakir dropar/ískristallar myndast og eyðast mjög hratt, þeir lifa ekki lengur en í nokkrar mínútur. Skýið sem okkur sýnist vera eins og hver annar hlutur er því aldrei samsett úr sömu dropunum. Líf þess er algjörlega háð því að fleiri eða jafnmargir dropar/ískristallar myndist heldur en eyðast. Stór ský geta horfið á nokkrum mínútum ef dropa/ískristallamyndunin hættir.
Útlit skýja sem myndast í óstöðugu lofti og áköfu uppstreymi breytist að jafnaði hraðar heldur en ásýnd þeirra sem verða til við hægfara uppstreymi. Líftími hvers dropa/ískristals í bólstraskýi er aðeins 5 til 15 mínútur og skýið sem við sjáum er ekki það sama og við sáum fyrir nokkrum mínútum. Bólstraský eru sífellt að hverfa og myndast. Þetta sést mjög greinilega sé fylgst náið með þeim og sérlega vel í kvikmyndum sem sýna viðburði hraðar heldur en þeir eiga sér stað í raun og veru. Þá sést hvernig skýin myndast að því er virðist úr engu, rjúka upp, en eyðast síðan – þá er oft orðið til nýtt ský sem eltir, skammt á eftir hinu fyrra.
Líf skýja er algjörlega háð því að fleiri eða jafnmargir dropar/ískristallar myndist heldur en eyðast.
Uppstreymið er oftast svo ákaft að margar einingar berjast um völdin og troðast hver um aðra. Þá vill fjöldi þeirra renna saman fyrir augum okkar og skýið virðist lifa lengur. Í raun og veru eru nýjar og nýjar uppstreymiseiningar þá að verða til og aðrar að eyðast. Verði uppstreymið strjálara eða ef úr því dregur hverfur skýið fljótt.
Svipað á við um ský sem myndast í hægu uppstreymi sem nær yfir allstórt svæði. Raki þéttist í botni þeirra, verður ýmist að dropum eða ískristöllum sem vaxa og falla niður úr skýinu, misákaft. Algengast er að raki þéttist á ískristöllum sem síðan rekast saman og mynda snjóflyksur. Þegar þær bráðna verða þær að regndropum sem uppstreymi skýsins ræður ekki við að halda á lofti og þeir falla hraðar niður úr skýinu en þeir sem minni og léttari eru. Sé uppstreymið nokkurn veginn stöðugt getur skýið sýnst lifa dágóða stund. Sé farið að fylgjast með skýjum af þessu tagi í smáatriðum kemur fljótt í ljós að útlitið breytist í sífellu – sé ekki um myndlausa slæðu að ræða.
Dropar sem myndast áveðurs við fjall lyftast yfir það og eyðast hinu megin. Skýið sem droparnir mynda getur þá virst fast á fjallinu allan liðlangan daginn í hvössum vindi en í því eru aldrei sömu droparnir. Oftast breytist útlit slíkra skýja í sífellu – sérstaklega þeirra sem myndast yfir fjöllum en ekki á þeim. Í fljótu bragði virðast þau vera stöðug og óbreytanleg – en sé farið að fylgjast með þeim kemur í ljós að sífelldar breytingar eiga sér stað – einstakar einingar og heil ský myndast og eyðast í sífellu, jafnvel oft á hverri klukkustund.
Ský eyðast við uppgufun skýjadropanna/ískristallanna. Það gerist í öllu niðurstreymi, en getur einnig gerst við innblöndun þurrara lofts. Uppstreymið dregur þá að sér þurrara loft sem var á niðurleið utan við skýið. Blandist nægilega mikið af þurra loftinu inn í skýið hverfur það á örskammri stund.
Ský geta einnig eyðst við það að úrkoma fellur úr þeim þannig að ekki sé nægur raki eftir til að viðhalda því jafnvel þótt uppstreymið haldi áfram.
Oft má sjá flatar skýjabreiður sem þó eru greinilega misþykkar. Uppstreymi er oftast mest þar sem þær eru þykkastar. Hver uppstreymiseining lifir þó stutt en breiðan getur haldist við þónokkra stund – eða þá að hún stækkar á annan veginn en eyðist á hinn. Útgeislun er mikil á efra borði skýsins. Þar kólnar fljótt og loft getur misst flot og fallið niður í þurrara loft. Þá gufa droparnir upp. Stundum gerist það að smáir droparnir breytast snögglega í ískristalla sem aféta þá dropa sem eftir verða og verða að lokum nægilega stórir til þess að falla niður úr skýinu sem þá hverfur á nokkrum mínútum. Þetta er sérlega algengt að kvöldlagi eftir dag þar sem bólstraský hafa verið ríkjandi.
Mynd: