Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er Þorláksmessa merkileg og hvaða hefðir tengjast henni?

Árni Björnsson

Þorláksmessa á vetur 23. desember hlaut óhjákvæmilega að tengjast jólahaldi á Íslandi vegna nálægðar sinnar í tíma. Hún er annars dánardagur Þorláks Skálholtsbiskups Þórhallssonar, sem var útnefndur heilagur maður árið 1198, fimm árum eftir dauða sinn. Hinn 20. júlí árið 1237 voru bein hans tekin úr jörðu og lögð í skrín og sá dagur var tilnefndur sem Þorláksmessa á sumar. Hún var mun meiri kirkjuhátíð í katólskum sið en vetrarmessan því fólk safnaðist skiljanlega fremur til Skálholts á miðju sumri en um hávetur. Eftir siðaskipti og afnám dýrlingatrúar hvarf sumarmessan úr tölu opinberra helgidaga en vetrarmessan hélt nokkru af sínum veraldlega sessi.

Enda þótt sjálf jólahátíðin hæfist ekki fyrr en á miðjum aftni á aðfangadag, var undirbúningur hennar á fullu skriði dagana áður. Þá þurfti að ljúka við að þrífa bæinn hátt og lágt, þvo rúmföt og nærföt. Þá voru og seinustu forvöð að steypa jólakertin. Alsiða var að sjóða jólahangiketið á Þorláksmessu og sumstaðar var fólki leyft að bragða á því eða hangiflotinu. Allt þetta tilstand olli því að fólk hlakkaði til Þorláksmessunnar líkt og sjálfra jólanna. Af þeim sökum var dagurinn fyrir Þorláksmessu sumstaðar kallaður hlakkandi.

Þorláksmessa er dánardagur Þorláks Skálholtsbiskups Þórhallssonar (1133-1193), sem var útnefndur heilagur maður árið 1198, fimm árum eftir dauða sinn.

Smáflís af hangiketi var þó ekki sá matur sem almennt einkenndi Þorláksmessu. Auk sjálfs messudagsins var hún síðasti heili dagur jólaföstu og því tvöföld ástæða í katólskum sið til að neyta einna síst kjötmetis á þeim degi. Leifar af þeirri venju virðast hafa haldist eftir siðaskipti með þeim hætti að þá skyldi öðru fremur borða lélegan fisk. Það hjálpaði ugglaust til að viðeigandi þótti að hafa viðbrigðin sem mest frá rýrum föstumat að kræsingum jólakvöldsins daginn eftir. Þar sem fiskur var ekki tiltækur sést getið um bjúgu úr mör og lungum eða stórgripabein. Af fiskmeti eru meðal annars nefndir megringar sem var magur harðfiskur soðinn, steinbítsroð, hákarl eða vel úldin ýsa. Til bragðbætis var þetta þó stundum hitað upp í hangiketssoðinu.

Þekktasti réttur á Þorláksmessu er auðvitað skata sem áður fyrr mun hvergi hafa þótt neitt lostæti. Á haustin veiðist skatan aðallega við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, en haustvertíðinni lauk einmitt á Þorláksmessu. Á þeim slóðum höfðu menn því fengið meira en nægju sína af henni þegar kom að jólum og ekki nema eðlilegt að skata væri upphaflega hugsuð sem andstæða við jólakræsingarnar. Hún minnir á lútfiskinn í Svíþjóð og vatnakarfann sem víða í Austurevrópu var og er hefðbundinn matur á aðfangadag.

Svo fór þó með tímanum að fólk lærði að gera sér gott af skötunni og sumum fór að þykja hún ómissandi þáttur í jólahaldinu. Vestfirðingar bjuggu til stöppu úr kæstri skötu og mörfloti. Hún var síðan sneidd niður og stundum var reyktum bringukolli eða fuglsbringu hvolft yfir stöppudiskinn. Mörgum þótti lyktin af skötustöppunni fyrsta ákennilega merki þess að jólin væru að nálgast. Utan Vestfjarða var skatan sumstaðar elduð í hangiketssoðinu eða stöppuð saman við hangiflot.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Sögu jólanna og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

23.12.2013

Síðast uppfært

23.12.2020

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Björnsson. „Af hverju er Þorláksmessa merkileg og hvaða hefðir tengjast henni?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66508.

Árni Björnsson. (2013, 23. desember). Af hverju er Þorláksmessa merkileg og hvaða hefðir tengjast henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66508

Árni Björnsson. „Af hverju er Þorláksmessa merkileg og hvaða hefðir tengjast henni?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66508>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er Þorláksmessa merkileg og hvaða hefðir tengjast henni?
Þorláksmessa á vetur 23. desember hlaut óhjákvæmilega að tengjast jólahaldi á Íslandi vegna nálægðar sinnar í tíma. Hún er annars dánardagur Þorláks Skálholtsbiskups Þórhallssonar, sem var útnefndur heilagur maður árið 1198, fimm árum eftir dauða sinn. Hinn 20. júlí árið 1237 voru bein hans tekin úr jörðu og lögð í skrín og sá dagur var tilnefndur sem Þorláksmessa á sumar. Hún var mun meiri kirkjuhátíð í katólskum sið en vetrarmessan því fólk safnaðist skiljanlega fremur til Skálholts á miðju sumri en um hávetur. Eftir siðaskipti og afnám dýrlingatrúar hvarf sumarmessan úr tölu opinberra helgidaga en vetrarmessan hélt nokkru af sínum veraldlega sessi.

Enda þótt sjálf jólahátíðin hæfist ekki fyrr en á miðjum aftni á aðfangadag, var undirbúningur hennar á fullu skriði dagana áður. Þá þurfti að ljúka við að þrífa bæinn hátt og lágt, þvo rúmföt og nærföt. Þá voru og seinustu forvöð að steypa jólakertin. Alsiða var að sjóða jólahangiketið á Þorláksmessu og sumstaðar var fólki leyft að bragða á því eða hangiflotinu. Allt þetta tilstand olli því að fólk hlakkaði til Þorláksmessunnar líkt og sjálfra jólanna. Af þeim sökum var dagurinn fyrir Þorláksmessu sumstaðar kallaður hlakkandi.

Þorláksmessa er dánardagur Þorláks Skálholtsbiskups Þórhallssonar (1133-1193), sem var útnefndur heilagur maður árið 1198, fimm árum eftir dauða sinn.

Smáflís af hangiketi var þó ekki sá matur sem almennt einkenndi Þorláksmessu. Auk sjálfs messudagsins var hún síðasti heili dagur jólaföstu og því tvöföld ástæða í katólskum sið til að neyta einna síst kjötmetis á þeim degi. Leifar af þeirri venju virðast hafa haldist eftir siðaskipti með þeim hætti að þá skyldi öðru fremur borða lélegan fisk. Það hjálpaði ugglaust til að viðeigandi þótti að hafa viðbrigðin sem mest frá rýrum föstumat að kræsingum jólakvöldsins daginn eftir. Þar sem fiskur var ekki tiltækur sést getið um bjúgu úr mör og lungum eða stórgripabein. Af fiskmeti eru meðal annars nefndir megringar sem var magur harðfiskur soðinn, steinbítsroð, hákarl eða vel úldin ýsa. Til bragðbætis var þetta þó stundum hitað upp í hangiketssoðinu.

Þekktasti réttur á Þorláksmessu er auðvitað skata sem áður fyrr mun hvergi hafa þótt neitt lostæti. Á haustin veiðist skatan aðallega við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, en haustvertíðinni lauk einmitt á Þorláksmessu. Á þeim slóðum höfðu menn því fengið meira en nægju sína af henni þegar kom að jólum og ekki nema eðlilegt að skata væri upphaflega hugsuð sem andstæða við jólakræsingarnar. Hún minnir á lútfiskinn í Svíþjóð og vatnakarfann sem víða í Austurevrópu var og er hefðbundinn matur á aðfangadag.

Svo fór þó með tímanum að fólk lærði að gera sér gott af skötunni og sumum fór að þykja hún ómissandi þáttur í jólahaldinu. Vestfirðingar bjuggu til stöppu úr kæstri skötu og mörfloti. Hún var síðan sneidd niður og stundum var reyktum bringukolli eða fuglsbringu hvolft yfir stöppudiskinn. Mörgum þótti lyktin af skötustöppunni fyrsta ákennilega merki þess að jólin væru að nálgast. Utan Vestfjarða var skatan sumstaðar elduð í hangiketssoðinu eða stöppuð saman við hangiflot.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Sögu jólanna og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

...