Framan af virðist orðið jólafasta hafa verið algengara í máli fólks ef marka má dæmi í fornmálsorðabókum og í seðlasafni Orðabókarinnar. Nafnið er dregið af því að í kaþólskum sið var fastað síðustu vikurnar fyrir jól og ekki etið kjöt. Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, stendur til dæmis ,,Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af" (1992:30) og á öðrum stað segir:
Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna. (1992:31)Árni Björnsson hefur fjallað rækilega um aðventuna og jólaföstu í bókinni Saga daganna og vísum við þangað um frekari fræðslu. Þar kemur meðal annars fram að aðventukransar sjást lítið fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld og algengir urðu þeir ekki fyrr en milli 1960 og 1970 (1993:334). Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvaðan kemur orðið "jól" og úr hverju er það myndað? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvað heita kertin fjögur á aðventukransinum? eftir Sigurð Ægisson
- Ritmálsskrá OH.
- Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. 1992. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Mál og menning, Reykjavík.
- Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
Þetta svar er fengið af vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og birt með góðfúslegu leyfi.