Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Baruch Spinoza (1632 – 1677) fæddist árið 1632 í Amsterdam. Hann ólst upp í samfélagi portúgalskra gyðinga sem höfðu flúið trúarlegar ofsóknir rannsóknarréttarins í heimalandi sínu og sest að í Hollandi. Hann missti móður sína sem barn en faðir hans var þekktur verslunarmaður og fjölskylda hans naut mikils álits, þrátt fyrir að vera ekki sérstaklega vel efnuð. Spinoza þótti efnilegur nemandi og allt stefndi í að hann menntaði sig til rabbína, en vegna fráfalls eldri bróður hans neyddist hann að hverfa frá námi til að starfa í fjölskyldufyrirtækinu, þá um 17 ára gamall. Hann lærði síðar latínu og kynntist meðal annars kenningum skólaspekinga og helstu kenningum í heimspeki nýaldar. Við andlát föður síns árið 1654 tók Spinoza við viðskiptum fjölskyldunnar ásamt yngri bróður sínum. Fljótlega eftirlét hann þó bróður sínum reksturinn og helgaði sig skriftum, auk þess að vinna fyrir sér með því að slípa glerlinsur.
Spinoza boðaði meðal annars málfrelsi, trúfrelsi og umburðarlyndi í stjórnmálum. Hann fór ekki leynt með skoðanir sínar og kenningar sem strax ollu miklu fjaðrafoki í trúarsamfélagi gyðinga, ekki síst vegna gagnrýni hans á sjálfan gyðingdóminn, hugmyndina um ódauðleika sálarinnar og Guð ritningarinnar. Árið 1656 var Spinoza gerður útlægur úr samfélagi gyðinga í Amsterdam en hann hafði þá þegar tekið að fjarlægjast trúna. Ásakanirnar á hendur honum voru hatrammar en óljósar og brot hans ekki nákvæmlega tilgreind.
Barcuch Spinoza (1632 – 1677).
Mögulega hefur Spinoza litið á útlegðina sem tækifæri til að geta stundað heimspeki sína óheftur af lögum og venjum gyðingasamfélagsins. Hann flutti síðar frá Amsterdam til Rijnsburg, þar sem hann vann að verki sínu Ritgerð um skilningsaukann (Tractatus de intellectus emendatione), sem fjallaði um grundvöll siðferðisins og röklega aðferð við þekkingarleit, auk þess sem hann skrifaði verkið Stutt ritgerð um Guð, manninn og farsæld hans (Tractatus de Deo et homine ejusque felicitate), en í því útlistaði hann frumspekilegar, þekkingarfræðilegar og siðfræðilegar kenningar sínar, sem eru nátengdar.
Franski heimspekingurinn René Descartes hafði mikil áhrif á Spinoza en hann gaf út lítið rit um heimspeki Descartes árið 1663. Þá var hann fluttur till Voorburg og byrjaður að vinna að stærsta verki sínu, Siðfræði (Ethica Ordine Geometrico Demonstrata), en hún var ekki gefin út fyrr en að honum látnum. Árið 1670 gaf hann út Guðfræðilega og heimspekilega ritgerð (Tractatus theologico-politicus), þar sem hann útskýrði muninn á heimspeki og guðfræði, en þá fyrrnefndu taldi hann vera vísindagrein sem leitaði sannleikans, en markmið þeirrar síðari væri að boða guðrækni og góða breytni. Ritgerðina gaf hann út undir nafnleynd, enda fékk hún mikil viðbrögð og árið 1674 var hún bönnuð í Hollandi. Spinoza lést árið 1677, 44 ára að aldri, líklegast úr lungnakvilla sem er talinn hafa orsakast af því fíngerða glerdufti sem hann andaði að sér í starfi sínu sem glerlinsuslípari. Að honum látnum gáfu vinir hans út Siðfræði, auk annarra smærri verka hans.
Heimspekileg kenning Spinoza flokkast sem einhyggja. Allt í heiminum er sama eðlis og á sér einn grundvöll. Þessi grundvöllur er verundin (substantia), eða „frumhluturinn“ eins hún hefur verið kölluð á íslensku. Spinoza sagði að frumhlutinn mætti hvort heldur nefna „Guð“ eða „náttúru“. Hjá Spinoza renna Guð og náttúran saman í eitt. Hann hafnar þar af leiðandi þeirri kennisetningu að Guð hafi skapað náttúruna. Það er maðurinn sem er þannig gerður að hann sér alheiminn í brotum en ekki sem þá heild sem hann er. Frumhluturinn birtist okkur á tvennan hátt: sem hugsun og sem rúmtak. Þetta eru tvær ólíkar „einkunnir“ (það er birtingarmyndir) þess sem er. Spinoza áleit einstaka hluti og einstakar hugsanir vera mismunandi „hætti“ rúmtaksins og hugsunarinnar. Þannig hafnar Spinoza tvíhyggju Descartes sem skipti fyrirbærum heimsins í res extensa, það sem hefur rúmtak, og res cogito, það sem samsvarar andanum og hugsuninni.
Spinoza er ásamt Descartes og Leibniz í hópi helstu rökhyggjumanna nýaldar. Eins og verk hans bera með sér taldi hann að mannshugurinn gæti með skynseminni komist að áreiðanlegri þekkingu með röklegri afleiðslu. Nánari lestur á verkum hans leiðir þó í ljós hvernig hann gerir ráð fyrir mismunandi leiðum til að öðlast þekkingu. Af þeim telur hann áreiðanlegasta þá sem reiðir sig eingöngu á innsæi mannsins. Innsæið getur fært okkur þekkingu á því hvernig hlutir eru í raun og veru því aðrar gerðir þekkingar neyðast til að greina í sundur það sem er óaðgreinanlegt þegar öllu er á botninn hvolft.
Heimspeki Spinoza er þekkt fyrir þá nauðhyggju sem hún augljóslega felur í sér. Allt sem gerist í heiminum er í samræmi við óumflýjanleg lögmál, ekkert getur í raun verið öðruvísi heldur en það er. Það sem við teljum vera tvo fullkomlega ólíka hluti sem standa í orsakasambandi sín á milli er í frumspekilegum skilningi einn og sami hluturinn. Þar með gefur Spinoza ekki mikið fyrir hefðbundnar kenningar um frelsi viljans. Við getum ekki haft stjórn á atburðarás þar sem aðgreiningin á sjálfi og umhverfi er nokkurs konar blekking. Þrátt fyrir þetta leggur Spinoza mikla áherslu á frelsi í siðfræði sinni. Samkvæmt honum felst frelsi einstaklingsins í að átta sig á stöðu sinni sem hluta af Guði eða náttúrunni, þess sem er raunverulegt. Eðli mannsins er að leita þekkingar og sannleikans og um leið að hefja sig yfir aðstæður í umhverfinu, það er hvers kyns áreiti, geðshræringar og þau óæðri gæði sem menn sækjast eftir í blindni. Þegar einstaklingur hefur öðlast þekkingu á heiminum verður honum ljóst hvernig allt tengist í náttúrunni og þar með sín eigin hlutdeild í henni. Með þessari auknu sjálfsvitund er mögulegt að sjá atburðarás heimsins í stærra og réttara samhengi. Þekkingin er því hin æðstu gæði og einungis með því að öðlast hana kemst maðurinn nær guðdómnum en því fylgir sæla sem allir ættu að stefna að.
Enn í dag heillast margir af heimspeki og persónuleika Spinoza. Má segja að hann hafi lifað í samræmi við heimspeki sína í einu og öllu. Hann lifði hæglátu og nægjusömu lífi, og sagði aldrei styggðaryrði um nokkurn mann. Þetta olli gagnrýnendum hans miklum vandkvæðum þar sem ásakanir um guð- og siðleysi virkuðu heldur þróttlitlar gegn manni sem var ávallt til fyrirmyndar, hvort sem það var í kenningum sínum eða í breytni sinni og líferni.
Heimildir:
Gilje, Nils og Skirbekk, Gunnar. 1999. Heimspekisaga. (Þýð. Stefán Hjörleifsson). Reykjavík.
Spinoza, Baruch. The Ethics (Ethica Ordine Geometrico Demonstrata). Rafræn útgáfa í enskri þýðingu R.H.M. Elwes. Síðast uppfært 28. maí 2009. http://www.gutenberg.org/files/3800/3800-h/3800-h.htm. Sótt 10. apríl 2013.
Katrín Pálmadóttir Þorgerðardóttir. „Hver var Spinoza og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn, 17. september 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65768.
Katrín Pálmadóttir Þorgerðardóttir. (2013, 17. september). Hver var Spinoza og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65768
Katrín Pálmadóttir Þorgerðardóttir. „Hver var Spinoza og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“ Vísindavefurinn. 17. sep. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65768>.